Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:11:42 (3528)

1999-02-11 17:11:42# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:11]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég stíg í þennan stól í dag til að lýsa því yfir að ég er í megindráttum sátt við þetta mál og mun styðja það þó að vissulega megi ræða ýmis atriði þeirrar skipunar sem hér á að taka upp. Það má velta fyrir sér mörkum kjördæma, það má velta fyrir sér skiptingu Reykjavíkur, það má velta fyrir sér þeim mörkum sem framboðsaðilar þurfa að ná til þess að komast inn á Alþingi og ég mun koma að því nokkuð síðar.

Ég vil segja það í fyrstu --- ég hef fylgst nokkuð grannt með umræðunni í dag --- að viðbrögð sumra þingmanna minna mig á Kópavogsfundinn árið 1662. Menn skrifa grátandi undir þetta frv. og ætla að styðja það þó að þeim þyki það heldur leitt og séu í grundvallaratriðum andvígir því sem hér er verið að gera. En ég er viss um að þau andmæli sem margir þingmenn hafa uppi og þeir erfiðleikar sem þeir sjá fyrir sér vegna stækkunar kjördæma eiga eftir að jafna sig því að ég held að menn þurfi einfaldlega, þingmenn framtíðarinnar, þegar þetta kerfi kemst á, að hugsa störf sín og hlutverk svolítið upp á nýtt. Menn verða að endurskipuleggja starfið, menn verða að nýta sér bættar samgöngur og nýja tækni eins og internetið o.fl. til þess að halda sambandi við kjósendur og má minna á (Gripið fram í.) já, maður talar nú ekki um að Alþingi veiti þingmönnum þyrluþjónustu. Það á eflaust margt eftir að gerast í því en ég segi þetta vegna þess að menn verða að átta sig á því að samskipti og boðskipti manna í milli, áróðursherferðir, upplýsingaherferðir og fleira slíkt fara núorðið að miklu leyti fram í gegnum internetið þótt auðvitað þurfi að leggja mjög mikla áherslu á bein samskipti við kjósendur. Það sem ég er að reyna að segja með þessu er að menn þurfa auðvitað að hugsa vinnu sína svolítið upp á nýtt í ljósi þessara miklu breytinga.

Líka er vert að velta því fyrir sér í þessu samhengi að ef ég hef talið rétt þá er búið að gera þrettán sinnum breytingar á kjördæmaskipan eða skiptingu þingsæta frá því að tilskipun konungs frá 1843 gekk í gildi. Menn hafa því nokkuð oft gert breytingar á kosningakerfi okkar.

[17:15]

Ein allra stærsta breytingin sem gerð var átti sér stað árið 1959 þegar kjördæmunum fækkaði úr 27 í átta. Það væri nú fróðlegt að fletta upp í þeim umræðum sem þá urðu, hvort þingmönnum hafi ekki óað mjög sú stækkun sem þá varð á kjördæmum. Þá hafa Vestfirðir allir líklega verið nokkuð erfiðir við að eiga, svo ekki sé talað um Austfirði, sem hv. þm. Jón Kristjánsson upplýsti mig um áðan að var skipt í fjögur kjördæmi, Austfjörðum var skipt í fjögur kjördæmi. (KHG: Vestfjörðum í fimm.) Vestfjörðum í fimm, upplýsir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Menn verða að gera sér grein fyrir því að mjög miklar breytingar hafa orðið.

Hér er verið að stíga enn eitt skrefið í þá veru að stækka kjördæmin og að jafna tölu þingmanna út frá þeirri grundvallarreglu að sem jöfnust tala kjósenda sé á bak við hvern þingmann. Ég verð að lýsa nokkurri furðu á þeirri umræðu sem hér hefur orðið í dag um jöfnun atkvæða og þá umræðu hvort um mannréttindi er að ræða eða ekki. Í mínum huga er kosningarréttur mannréttindi. Ég vil bara minna á að það tók konur áratugi að öðlast þennan rétt. Í sumum hlutum heimsins hafa konur í dag ekki einu sinni kosningarrétt. Ég held að enginn mundi segja að konur í þeim löndum njóti fullra mannréttinda.

Auðvitað er kosningarréttur mannréttindi. Þetta er spurningin um að geta haft áhrif á samfélagið. (KHG: Hvað með Sameinuðu þjóðirnar?) Vissulega eru til ýmiss konar kerfi, kosningakerfi. Það er ekki hægt að líkja saman stofnun þar sem allar þjóðir heims koma saman eða því hvaða kerfi er í notkun í einu litlu landi með örfáa íbúa. Þetta er spurningin um að fólk kjósi sér fulltrúa. Við kjósum ekki fulltrúa til Sameinuðu þjóðanna, þar eru engir kosnir fulltrúar. Við erum að tala um það að fólk kjósi sér fulltrúa, og það er fólk sem er að kjósa fólk en ekki fulltrúa fjalla eða dala eða flóa eða fjarða. Við erum að kjósa okkur fulltrúa og þar á að ríkja sem mestur jöfnuður. Það er ákaflega erfitt að ná þeim jöfnuði fullkomlega. Eins og hér hefur verið rakið ríkir líklegast hvergi í heiminum fullur jöfnuður nema þar sem lönd eru eitt kjördæmi, eins og t.d. í Hollandi og Ísrael, þar er landið allt eitt kjördæmi og er nú ekki --- (KHG: En í Kína?) Ég ætla að biðja hv. þm. að hafa nokkuð hljótt um sig og vera ekki að blanda inn ríkjum þar sem ekki ríkir lýðræði og kosningarréttur er nánast óþekkt fyrirbæri. Ég veit ekki til þess að mikið sé um kosningar í alþýðulýðveldinu Kína, ég kannast ekki við það. Ég ætla að biðja þingmanninn að halda sig við málefnin. Við erum að tala um fyrirkomulag í landi með 275 þúsund íbúa og það hlýtur að liggja í augum uppi að það er okkur affarasælast að það kerfi sé sem einfaldast og skýrast og að réttur þegnanna sé sem jafnastur.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst menn líka vera að blanda saman byggðaþróun í landinu --- sem ég skil vel og það er kannski ekki að ástæðulausu --- og að hún standi og falli með því hvernig kjördæmaskipanin er. Þetta tel ég ekki vera rétta framsetningu. Vald Alþingis er ekki það mikið að það geti snúið þessari þróun við eða að Alþingi með lagasetningu sinni ráði því hvernig byggðaþróun er í landinu. Það væri fróðlegt fyrir þingmenn að fletta upp í nýútkominni Sögu Reykjavíkur, fyrra bindinu, eftir Eggert Þór Bernharðsson, þar sem er að finna grafíska mynd af byggðaþróun sl. 100 ár. Sú mynd er ákaflega sláandi. Hún sýnir það sem við vitum að fækkun íbúa á landsbyggðinni hefur verið jöfn og þétt í 100 ár og fjölgunin jafnmikil, sérstaklega í Reykjavík. Þar stendur súlan nánast beint upp í loftið. Það er gríðarleg breyting. (GÁ: Er það ekki mannréttindabrot?) Að mega flytja til Reykjavíkur eða --- (GÁ: Að yfirgefa eignir sínar og ... ) Ég veit ekki hvort íbúum Jökulfjarðanna fannst það vera mikið mannréttindabrot að komast í burtu frá ákaflega erfiðum lífsskilyrðum. Fólk stendur frammi fyrir því í lífinu að þurfa að velja og hafna.

En það sem ég er að reyna að segja er að við erum að horfa á miklu lengri þróun en það sem við höfum horft upp á undanfarin 10--20 ár hvað varðar byggðaþróun. Ég held að þó að við snerum aftur til þess fyrirkomulags að gera landið að 27 kjördæmum þá mundi það engu breyta um byggðaþróun, ég held að það mundi engu breyta. Það eru einfaldlega aðrir þættir sem þar valda.

Í mínum huga skiptir það mestu máli að réttur þegnanna sé sem jafnastur og að við erum að kjósa okkur fulltrúa og þar á að vera sem minnstur munur á. Þó að ég sjái það fyrir mér að ef við höldum í þessa kjördæmaskipan eða eitthvað svipað, þá verður að vera ákveðið lágmark þingmanna. Það gefur auga leið að til þess að þeir geti þjónað hlutverki sínu, hvert sem það verður og hvernig sem það verður skilgreint, þá þarf auðvitað ákveðinn lágmarksfjölda svo framarlega sem kjördæmin fari hreinlega ekki í eyði.

En jafnframt því að þessi breyting á kjördæmunum verður gerð tek ég undir það að stórbæta þarf aðstæður þingmanna, sérstaklega í landsbyggðakjördæmunum. Og kem ég þá aftur inn á það sem ég nefndi hér fyrst, að menn þurfa að hugsa málin upp á nýtt. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum, þegar ég fékk tækifæri til þess að ferðast um Bandaríkin, heimsótti ég skrifstofu þingmanns í fulltrúadeildinni, repúblikana, og ef ég man rétt var hann með 12 manna starfslið. Hann var fulltrúi fyrir kjördæmi í útborg Los Angeles og hann hafði 12 manna skrifstofu fyrir þetta tiltölulega, litla kjördæmi. Hann hafði síðan starfsmenn líka í Washington. Það er auðvitað misjafnlega búið að þingmönnum í hinum ýmsu löndum og væri fróðlegt að kynna sér það hvernig þeim málum er háttað á Norðurlöndunum, t.d. í Noregi þar sem eru mjög stór kjördæmi. Þetta er nokkuð sem þarf að bæta stórlega, aðstæður þingmanna til þess að sinna störfum sínum.

Það má vissulega segja hið sama um þingmenn Reykjavíkur. Það hefur verið svo gegnum árin að þeir hafa sinnt ýmsu því sem snýr að borginni fremur lítið og við höfum fengið að heyra það töluvert mikið á undanförnum árum að Reykjavík eigi enga þingmenn. Það sé ekkert hugsað um hagsmuni Reykjavíkur, t.d. í vegamálum. Það var mikið kvartað hér fyrir jólin um stöðuna í málefnum fatlaðra í Reykjavík. Grunnskólar í Reykjavík hafa verið yfirfullir af börnum. Hér hefur verið og er skortur á dagvistun fyrir börn o.s.frv. Hér er hærra hlutfall aldraðra en meðaltalið á landinu, hærra hlutfall fatlaðra og hér er stór hópur fólks sem þarf félagslega aðstoð. Við fáum að heyra það, þingmenn Reykjavíkur, að við sinnum ekki kjördæminu. Og það er eitthvað sem þingmenn Reykjavíkur í framtíðinni þurfa að skoða.

Hvort skipting Reykjavíkur upp í tvö kjördæmi er einhver bót þar á, um það hef ég vissar efasemdir. Fyrst og fremst er það kannski svo skrýtin hugsun að þurfa að venjast því að Reykjavík verði skipt í tvö kjördæmi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það mun þróast. En það er auðvitað til þess að þjóna þessari meginhugmynd að sem jafnastur fjöldi kjósenda sé á bak við ákveðna tölu þingmanna. Það má margt um það segja, hvort einhver lógík er á bak við það að skipta höfuðborginni svona upp. Þetta er ekki það stór eining. En á okkar mælikvarða er Reykjavík stórt kjördæmi. Þetta er þekkt frá öðrum löndum að borgum er skipt upp í mörg kjördæmi, líklega þó töluvert fjölmennari en hér er um að ræða. Ef ég man rétt er reglan sú í Bretlandi að ef íbúatala kjördæmis fer undir 50 þúsund þá er það lagt niður og sameinað næsta kjördæmi.

Við fengum einmitt heimsókn hingað, líkalega fyrir tveim, þrem árum af hópi breskra þingmanna. Einn þeirra var frá Skotlandi og hann stóð frammi fyrir því að kjördæmi hans var að hverfa og hann þurfti að fara að bjóða sig fram í öðru kjördæmi. Það eru því ýmsar reglur til í þessu.

Varðandi 5% þröskuldinn þá er það þannig í raun að framboðsöfl, flokkar eða hreyfingar eða hverjir þeir sem bjóða sig fram þurfa að ná ákveðinni prósentutölu til þess að komast inn. Hún getur verið mismunandi eftir kjördæmum og það má vissulega um það deila hvort regla af þessu tagi sé réttlát og rétt yfir höfuð eða hvort þessi tala sé of há. Þetta er með ýmsu móti. Það sem ég hef séð erlendis frá er á bilinu frá 4% og upp í 6%, þar sem ég veit um slíkar reglur t.d. í Þýskalandi. Ég þori bara ekki að fara með það hver talan er. (Gripið fram í: Hún er 2% í Danmörku.) Já, 2% í Danmörku. Það má vissulega velta því fyrir sér hvort einhver slíkur þröskuldur eigi að vera í lögum eða hvort einfaldlega hlutfall kjósenda og það hvernig þingsætin skiptast á að ráða eða hvort einhvern slíkan þröskuld á hafa. Það er alltaf ákveðin tilhneiging hjá hinum stærri flokkum að reyna að fækka flokkum á þingi og að einfalda kerfið. Þó höfum við ekki komist upp í ef ég man rétt, nema svona sex flokka, sex til sjö flokka á Alþingi. Það þykir þeim nú ekki mikið í Danmörku og víðar þar sem flokkaflóran hefur stundum verið býsna skrautleg.

Það má margt segja um þetta mikilvæga mál. Ég er þeirrar skoðunar að tímabært hafi verið að stíga skref í þá átt að jafna vægi atkvæða í landinu. Það hefur verið gríðarleg óánægja á suðvesturhorninu með það fyrirkomulag sem ríkt hefur um allnokkurt skeið og mörgum finnst þetta ekki réttlátt. Hér er því verið að stíga að mörgu leyti merkilegt skref í þá veru.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, fjalla um þann þátt sem mér finnst ekki síst vera mikilvægur í þessu og það er að ég tel að stækkun kjördæmanna og stækkun þingmannahópanna fyrir kjördæmin miðað við það sem nú er muni auðvelda konum á landsbyggðinni að komast á þing.

[17:30]

Það er nú þannig að þegar fjórir og fimm stjórnmálaflokkar eru að slást um fjögur, fimm, sex sæti þá eru möguleikarnir harla litlir eins og ástandið hefur verið. Við erum reyndar að sjá mjög merkilegar breytingar núna þar sem sífellt fleiri konur leiða lista, en reynslan alls staðar að úr heiminum þar sem slíkar rannsóknir hafa farið fram og þar sem sæmilega lýðræðisleg kosningakerfi eru, sýnir að hlutfallskosning og stærri kjördæmi auðvelda konum að komast að. Því vona ég að þessi breyting verði til þess að auðvelda konum á landsbyggðinni að bjóða sig fram og að komast að, en vissulega skipta þar máli aðrir þættir eins og aðstæður á heimilum, fjölskylduaðstæður, vinna maka og fleira slíkt því að það virðist enn þá vera meira mál fyrir konur að taka sig upp með sínar fjölskyldur en það er fyrir karlana. Ég vona því að þessi breyting verði til þess að auðvelda þeim að komast að.

Hæstv. forseti. Að þessu sögðu ítreka ég stuðning minn við þetta frv. í megindráttum þó að, eins og ég hef rakið, velta megi vöngum yfir ýmsu, stærð kjördæmanna og mörkunum á milli þeirra, þeim aðstæðum sem þingmenn munu búa við í framtíðinni, skiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi og þessum þröskuldi. Allt eru þetta atriði sem má vega og meta. En ég segi það hér að ég skrifa ekki grátandi undir þetta, eins og mér virðist sumir gera hér. Þeir verða þá bara að taka upp klútana og þurrka tárin þegar þar að kemur.