Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:32:45 (3529)

1999-02-11 17:32:45# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:32]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 14. þm. Reykv. talar um grát þingmanna. Hvað mig varðar þá hef ég gengið til samkomulags um þetta mál og það er ekki í fyrsta skipti sem ég geng til samkomulags um mál í hv. Alþingi sem mér hefur ekki verið að skapi upphaflega. Ég hef unnið þannig hér og mér er ekkert grátgjarnt. Það er því allt í lagi með mig þannig.

Hins vegar fer annað svolítið í taugarnar á mér. Ég verð að viðurkenna það. Það er þetta mannréttindatal í sambandi við jöfnun atkvæða. Ég vil benda hv. þm. á að lesa mjög góða grein um þetta mál eftir Atla Harðarson heimspeking sem hefur birst í Skírni þar sem hann varar við því að fletja út mannréttindahugtakið yfir allt. Það séu altæk réttindi, réttindi til lífs, réttindi til að hafa skoðanir, trúfrelsi og skoðanir á stjórnmálum, að vera ekki pyndaður eða niðurlægður, og að þetta eigi við allar þjóðir.

Ég get alveg fallist á það að kosningarréttur sé mannréttindi. En ef misvægi atkvæða er mannréttindabrot þá hafa nú æði margir framið slík brot. Hefur þá samfylkingin framið mannréttindabrot með því að hafa tífalt vægi atkvæða fyrir Kvennalistann í síðasta prófkjöri? Er það mannréttindabrot, svo að ég nefni eitt nærtækt dæmi?

Ég við biðja hv. þingmenn að leggja af þetta tal um mannréttindabrot í sambandi við vægi atkvæða. Það er ekki verjandi að fletja út mannréttindahugtakið á þann hátt.