Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 17:39:34 (3533)

1999-02-11 17:39:34# 123. lþ. 64.1 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[17:39]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. er búinn að benda hér rækilega á það að kosningarrétturinn sem slíkur er mannréttindi og þau eru tryggð og það er ekki verið að fjalla um það mál í því máli sem hér er rætt. Staðreyndin er sú að svonefnt misvægi atkvæða er alls staðar til í flestum þjóðríkjum, þó ekki alveg öllum en flestum, og á margvíslegum alþjóðlegum vettvangi og þykir ekki bera vott um skort á vilja manna til að hugsa um mannréttindi.

Hér á landi er það sem menn eru að bregðast við, þ.e. misvægið, auðvitað fyrir hendi og fyrir því eru sjónarmið að það þurfi að breytast og að til séu ákveðin mörk sem menn telja viðunandi að misvægið sé innan en stundum telja menn það óviðunandi ef misvægið fer yfir tiltekin mörk.

En vandamálið í íslensku þjóðfélagi er ekki misvægi atkvæða. Það eru engin vandamál hér á þessu svæði sem talin eru orsakast af minna vægi atkvæða. Meðaltekjur eru hærri en á landsvæðinu utan höfuðborgarsvæðisins, það er fjölbreyttari atvinna, það er fólksfjölgun o.s.frv. Það knýja því engin efnahagsleg vandamál á um breytingar og engin vandamál leiða af þessu svokallaða misvægi sem hægt er að nota til að færa rök fyrir breytingum.

Hins vegar er margvíslegt óhagræði, efnahgslegt og annað, sem fólk líður fyrir á landsbyggðinni vegna þeirra leikreglna sem menn hafa sett og knýja á um að sé breytt. En til þess að það sé gert á ekki að rýra hlut manna á löggjafarþinginu eða veikja stöðu þeirra til að sækja á um breytingar. Menn eru því að bregðast við hlut sem ekki er vandamál en láta kyrrt liggja það atriði sem er vandamál.