Ríkislögmaður

Fimmtudaginn 11. febrúar 1999, kl. 18:28:35 (3547)

1999-02-11 18:28:35# 123. lþ. 64.2 fundur 476. mál: #A ríkislögmaður# (yfirstjórn) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur, 123. lþ.

[18:28]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi nú aðeins hinar sögulegu skýringar áðan, að það kom í hlut lögfræðinga er störfuðu flestir innan fjmrn. að taka að sér málatilbúnað af hálfu ríkisvaldsins, og þróuðust málin þannig að lögfræðingar sem sáu um lögfræðilega samningagerð og þess háttar, fjármálalega samningagerð fyrir fjrmn., nýttust til þessara hluta áður en umsvifin jukust. En þegar fram í sótti varð ljóst að fleiri ráðuneyti komu að málum heldur en fjmrn. eitt. Það er jafnan svo þegar um fjárskuldbindingar er að ræða eða skaðabótakröfur eða þess háttar að þá er fjmrh. jafnan stefnt þó einnig sé stefnt þeim ráðuneytum sem í hlut eiga. En við þær aðstæður fer samráð ríkislögmannsins fram við það ráðuneyti sem í hlut á en ekki fjmrn. sérstaklega. Þannig hefur þessi þróun orðið og því þykir ríkisstjórninni rétt að færa þetta til með breyttu og vaxandi hlutverki ríkislögmanns fyrir Stjórnarráðið í heild.