Samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 13:59:45 (3647)

1999-02-16 13:59:45# 123. lþ. 66.91 fundur 264#B samdráttur í rækjuveiðum og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[13:59]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta viðfangsefni. Það er vissulega rétt eins og fram hefur komið í umræðunni að vandi steðjar að ýmsum í atvinnugreininni vegna þeirra snöggu umskipta sem hér hafa orðið, bæði vegna breytinga í úthafsrækjuveiði og eins vegna þess að staðbundnir rækjustofnar hafa líka sveiflast.

[14:00]

Það er mjög mikilvægt að aflaheimildir séu í samræmi við leyfðan heildarafla og ráðgjöf í þeim efnum. Ákvörðun um að minnka aflaheimildir á þessu ári um þriðjung var tekin að höfðu samráði við samtök útvegsmanna og sjómanna sem öll studdu að til þessara ráðstafana yrði gripið í samræmi við þau markmið sem menn hafa sett sér í þessum efnum.

Það var alveg ljóst þegar uppbygging þorskstofnsins hófst að rækjuveiðarnar mundu dragast saman þegar árangur næðist í uppbyggingu þorskstofnsins. Menn hafa reiknað með að þegar þorskstofninn eða veiðar úr honum nálgast 300 þús. lestir þá gætum við ekki reiknað með meiri rækjuveiði en sem nemur 30 til 40 þús. lestum. Það sem kemur á óvart er að þessi breyting gerðist skjótar en kom eigi að síður síðar en menn höfðu reiknað með. Við erum því að horfa fram á afla í rækju sem við megum reikna með að verði viðvarandi, þ.e. að þetta sé ekki tímabundin sveifla heldur viðvarandi aðstæður. Við höfum í 9. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, eins og hér hefur verið bent á, möguleika til að jafna aflaheimildum á milli ef verulegar sveiflur verða. En þá verður líka að taka tillit til þessara aðstæðna og það er eðlilegt að mínu mati að menn horfi til þess þegar ráðgjöf liggur fyrir á vori komanda um heildarafla einstakra tegunda.