Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:34:05 (3706)

1999-02-16 17:34:05# 123. lþ. 66.54 fundur 369. mál: #A fæðingarorlof# frv., MagnM
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:34]

Magnús Árni Magnússon:

Hæstv. forseti. Hér er afskaplega mikið og merkilegt mál til umræðu, frv. til laga um breytingar á lögum um fæðingarorlof. Sjálfsagt verður fátt eins mikilvægt í jafnréttisbaráttunni þegar til lengri tíma er litið og að karlmenn taki fæðingarorlof til jafns við konur. Þannig verður útrýmt því misrétti sem konur eru beittar á vinnumarkaði vegna þess að þær kunni að eiga fyrir höndum barneignir eða séu í slíkum hugleiðingum.

Það hefur verið útbreiddur misskilningur hjá feðrum að samvera þeirra með börnum sínum fyrstu mánuðina og jafnvel árin væri ekki mjög mikilvæg. Þeir hafa talið hlutverk sitt taka við þegar þeir gætu farið í veiðiferðir með strákunum eða uppfrætt börn sín um lífsins gagn og nauðsynjar. Allar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að þetta er mikill misskilningur. Það getur skipt sköpum fyrir tengsl föður og barns að eyða saman fyrstu mánuðunum þó barnið sé mjög háð móðurinni á þessum tíma. Vissulega þarf það á umgengni við föður sinn að halda. Þetta er því mjög mikilvægt mál, bæði varðandi uppeldi barna og jafna stöðu kynjanna á atvinnumarkaði.