Fæðingarorlof

Þriðjudaginn 16. febrúar 1999, kl. 17:35:56 (3707)

1999-02-16 17:35:56# 123. lþ. 66.54 fundur 369. mál: #A fæðingarorlof# frv., Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 123. lþ.

[17:35]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir undirtektirnar. Það er fróðlegt að heyra raddir ungra karlmanna í þjóðfélaginu í dag. Það er dálítið athyglisvert að hér skuli ungur karlmaður taka undir efni frv. Í því sambandi vil ég minna á nýlegan fund í Ráðhúsi Reykjavíkur á vegum karlanefndar Jafnréttisráðs þar sem þetta mál bar á góma. Af þeim fundi mátti ætla að velflestir stjórnmálaflokkarnir teldu mjög brýnt að lengja fæðingarorlofið og styrkja rétt feðra til töku fæðingarorlofs á fullum launum eins og hér er lagt til.

Hins vegar kom fram verulegur ágreiningur um fjármögnun á fæðingarorlofinu. Þar hefur málið því miður alltaf strandað. Þess vegna verður athyglisvert að fylgjast þróun þessara mála nú í kosningabaráttunni. Ég vil geta þess að þó hér sé um frv. Kvennalistakvenna að ræða, þá hefur samfylkingin tekið þessa stefnu upp. Hún stefnir ótrauð að því að koma á 12 mánaða fæðingarorlofi þar sem feður fái þriggja mánaða sjálfstæðan rétt en geti tekið allt að sex mánuði á fullum launum. Þetta tel ég mjög mikilvæga stefnumörkun hjá samfylkingunni. Ég vona að henni verði haldið á lofti í komandi kosningum því að þetta er baráttumál, ekki bara fyrir feður og mæður heldur og ekki síður fyrir börn og jafnrétti kynjanna.