Skipun hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:07:15 (3752)

1999-02-17 15:07:15# 123. lþ. 68.7 fundur 426. mál: #A skipun hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni og öðrum þingmönnum fyrir góðar undirtektir við málið. Ég er viss um að þessi mál verða á dagskrá áfram þótt við báðir, ég og hæstv. dómsmrh. hverfum til annarra verka áður en langur tími líður. Það er augljóst mál að veruleikinn hefur sett á dagskrá spurningar um hvernig á að standa að skipun Hæstaréttar. Það er bara þannig. Það er alveg sama hvað ég eða hæstv. ráðherra eða aðrir kunna að segja í þeim efnum, veruleikinn kallar alltaf á niðurstöður, líka fyrir stjórnmálamenn hvað sem tautar og raular. Varðandi skilning ráðherra á afgreiðslu mála hér, þá verð ég að segja alveg eins og er að mér þykir leitt að þurfa að nota þessa ræðu til að mótmæla honum sérstaklega vegna þess að ég tel að þessi skilningur sé rangur. Hins vegar er það auðvitað þannig að ráðherrar þurfa ekki að gegna svona vísunum, það er út af fyrir sig alveg rétt. Hæstaréttardómar hafa gengið um það að þáltill. breyta engu ef ráðherrar kjósa að hafa þær að engu, það er alveg ljóst. En hinn almenni þingvilji, ef mælt er með afgreiðslu máls til ríkisstjórnarinnar með því sem kallað er á jákvæðan hátt, þá er ætlast til að tekið sé á því sérstaklega í Stjórnarráðinu, en ekki er litið þannig á að með því að afgreiða málið ekki sé þingið að hafna því eins og mér finnst í raun liggja í orðum hæstv. dómsmrh. Nú kann vel að vera að hann muni mótmæla þessum skilningi mínum, en það breytir engu. Ég er alveg viss um að ég hef rétt fyrir mér í þessu efni. Þessi skilningur hans er alveg flunkunýr og hefur reyndar ekki heyrst fyrr en í dag úr þessum ræðustóli.