Eftirlit með ferðaskrifstofum

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 15:31:18 (3763)

1999-02-17 15:31:18# 123. lþ. 68.10 fundur 432. mál: #A eftirlit með ferðaskrifstofum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn fyrir hæstv. samgrh. Það fór ekki fram hjá neinum Íslendingi, held ég, að núna um helgina voru heilsíðuauglýsingar í dagblöðunum frá ferðaskrifstofum um ferðir til sólarlanda. Ekki efast ég um ágæti þeirra ferða en í ljósi frásagna margra Íslendinga sem í ferðir hafa farið hefur það oft gerst að lýsing ferðaskrifstofu á ágæti viðkomandi íbúðahótela eða hótelherbergja hefur engan veginn staðist og ferðin á stundum orðið til ama og leiðinda í stað ánægju og hvíldar sumarfrísins. Legg ég því fram eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. samgrh.:

1. Hvernig er háttað eftirliti samgönguráðuneytis með ferðaskrifstofum, þ.e. að gæði og þjónusta hótela/hótelíbúða séu í samræmi við auglýsingar?

2. Hve mörg kærumál og athugasemdir hafa ráðuneytinu borist vegna vanefnda ferðaskrifstofa á sl. fimm árum?

3. Hafi kærumál borist, hvernig hefur meðferð þeirra verið og hvernig hefur þeim lyktað?

Eins og ég gat um í upphafi, herra forseti, hefur nokkuð borið á því að auglýstar hafi verið sérstakar ferðir fyrir aldraða t.d. að vetrarlagi. Í þeim hafa menn átt að getað notið hvíldar og þæginda en oftar en ekki hefur kannski allt annar hlutur verið uppi á borðinu þegar á staðinn er komið. Ég nefni sem dæmi að ferðaskrifstofa auglýsti ekki fyrir löngu að sjónvarp og sími væri í hverri hótelíbúð og það væri hljóðlátt og gott í kringum hótelið. Ekkert af þessu stóðst. Þeir öldruðu sem fóru í þessa hvíldarferð lágu andvaka fram á rauða morgna vegna hávaða í hljómsveitum í garði hótelsins. Margt fleira mætti tína til þannig að mér finnst full ástæða til þess að leggja fram þessa fyrirspurn fyrir hæstv. samgrh. í trausti þess að það megi þá verða til þess að ferðaskrifstofur gæti að og auglýsi ekki umfram það sem í boði er vegna þess að fólk hefur kannski lagt á sig mikinn sparnað til þess að eiga kost á því að njóta sumarleyfis í tvær eða þrjár vikur. En eins og ég nefndi áðan hefur þetta kannski snúist í það að ferðin hefur verið frekar til ama og leiðinda en ánægju og gleði.