Bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands

Miðvikudaginn 17. febrúar 1999, kl. 16:07:38 (3775)

1999-02-17 16:07:38# 123. lþ. 68.91 fundur 270#B bæklingur ríkisstjórnarinnar um hálendi Íslands# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Á fyrri þingum hef ég komið með fyrirspurn um hálendi Íslands og sérstaklega um aðild Reykvíkinga að ákvarðanatöku á hálendinu. Bæklingurinn sem ríkisstjórnin sendi út nýverið hefur vakið athygli almennings á þessum umræðum. Þær hafa varla farið fram hjá mönnum sem fylgjast með fréttum en ég verð að ljúka lofsorði á gerð þessa bæklings. Ég tel efni hans mikilvægt og eins að ráðamenn þjóðarinnar komi með þessu móti upplýsingum til kjósenda sinna og til hvers heimilis á landinu.

Því hefur hér verið haldið fram að ríkisstjórnin sé í vörn en ég vil mótmæla því og tel að hún sé mun frekar í sókn með því að senda þetta frá sér, nema menn segi að sókn sé besta vörnin.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki neitt að fela og þessi bæklingur sýni það. Með útgáfu hans hefur athygli almennings í landinu og allrar þjóðarinnar verið beint að umræðunni um hálendi Íslands. Ég tel það af hinu góða og að því beri að fagna.