Kosningar til Alþingis

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999, kl. 10:44:27 (3831)

1999-02-18 10:44:27# 123. lþ. 69.2 fundur 523. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 123. lþ.

[10:44]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að gera miklar athugasemdir vegna þessa frv. sem er fyrst og fremst tæknilegs eðlis og byggist á góðu samkomulagi í nefndinni sem um það fjallaði. Auk þess sit ég í allshn. og mun að sjálfsögðu gera mitt til þess að það hljóti afgreiðslu þótt þar séu reyndar stór mál til umfjöllunar og mikið annríki.

Ég vil aðeins leggja áherslu á það meginatriði að nauðsynlegt er að tryggja með öllum hugsanlegum ráðum að hver maður geti neytt þess réttar að kjósa fulltrúa sína til þings. Það eru mannréttindi sem okkur ber að tryggja. Mér finnst því rétt að leggja áherslu á að sem víðast sé hægt að kjósa utan kjörstaða. Mér sýnist reyndar að reynt hafi verið eftir föngum að tryggja það.

Ég ætla að gera athugasemd við 56. gr. Þar er aukinn réttur manna til þess að greiða atkvæði í heimahúsi og það er vel. Tilgreint er að kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar sé heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun skv. 2. mgr. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans og hafa borist hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en kl. 16 fjórum dögum fyrir kjördag.

Þetta eru nokkuð stíf skilyrði sérstaklega með tilliti til að vegna barnsburðar kynni að vera ástæða til þess að fá að kjósa í heimahúsi. Sennilega er þarna um fá tilvik að ræða. Þó færist í vöxt að konur kjósi að fæða börn sín heima en eins og við vitum getur verið erfitt að tímasetja slíkan atburð. Þess vegna tel ég það dálítið þröng skilyrði ef fólk á að þurfa að sækja um það með fjögurra daga fyrirvara að kona kjósi í heimahúsi vegna barnsburðar. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sama sinnis, að þetta séu nokkuð þröng skilyrði og hvort ekki væri möguleiki að víkka þau.