Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999, kl. 12:24:46 (4016)

1999-02-25 12:24:46# 123. lþ. 72.2 fundur 277#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 123. lþ.

[12:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Nú kemur sér illa að hafa ekki bókahillurnar góðu sem hv. 4. þm. Austurl. hefur stundum beðið um hér.

Í ræðu hæstv. utanrrh. er farið nokkuð ítarlega yfir helstu þætti utanríkismála, alþjóðastofnanir og samstarfsverkefni sem við erum þátttakendur í og ber að sjálfsögðu að þakka það. Ég hef þó hugleitt hvort ekki væri kominn tími til að breyta framsetningu þessa þannig að ræðu utanrrh. fylgi frekar skýrsla þar sem farið væri yfir þessi mál sem er gagnlegt og sjálfsagt. Í staðinn gæti hæstv. ráðherra látið eftir sér að fara almennari orðum yfir ástandið þannig að uppistaða ræðunnar yrði nær því sem tæplega einnar blaðsíðu inngangur hennar er nú, þ.e. hugleiðingar um þróun mála og mat á aðstæðum. Umfjöllunarefnið gæti þess vegna verið sú pólitík, sú framtíðarsýn sem hæstv. ráðherra vildi ræða við þingmenn um.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég sakna þess að í ræðunni skyldi ráðherra ekki fara betur yfir stöðu mála almennt nú þegar dregur að aldahvörfum og ærin tilefni eru til.

Ég staldraði við á bls. 1, herra forseti, orðalag sem þar er. Þar er talað um hagsmunabaráttu okkar annars vegar og ástandið í hinum hnattrænu vandamálum á sviði umhverfisverndar hins vegar. Þar vottar fyrir því að hæstv. ráðherra hafi áhyggjur af stöðu alþjóðamála í þessu samhengi en um það segir:

,,Hagsmunabaráttan í næsta nágrenni okkar er vissulega mikilvæg, en þróunin síðustu ár hefur leitt í ljós að hnattræn vandamál á sviði umhverfisverndar og nýtingar auðlinda jarðarinnar varða einnig framtíðarhagsmuni Íslendinga. Þau verða ekki leyst nema með sameiginlegu átaki hins alþjóðlega samfélags`` o.s.frv.

Þessi orð, herra forseti, undirbúa mann ekki beinlínis undir það að aftar í sömu ræðu sé niðurstaðan sú að Íslendingum beri ekki, að svo stöddu a.m.k., að gerast þátttakendur í stærsta alþjóðaátaki á sviði umhverfismála sem reynt hefur verið að gera hingað til, þ.e. loftslagssamningurinn og bókanir honum tengdar. Þvert á móti virðast þessi orð gefa fyrirheit um að hæstv. utanrrh. sé á því spori að Ísland ætti ásamt öðrum þjóðum að takast á við þessi alvarlegu vandamál. Um þetta, herra forseti, og ýmis önnur mál, sem lúta að stöðu alþjóðamála í almennu samhengi nú um aldahvörfin, hefði verið fróðlegt að skiptast á skoðunum.

Ég nefni einnig stöðu alheimsstjórnmálanna, stöðu vígbúnaðarmála, fjármálakreppuna og ástandið í hinu alþjóðlega fjármagnskerfi. Um þetta er hins vegar lítið fjallað í ræðunni þar sem hæstv. ráðherra hefur valið að nota tíma sinn í hefðbundna yfirferð um einstök verkefni og alþjóðastofnanir.

Í bók, herra forseti, sem heitir Staða heimsmála, eða Staða heimsins, sem orðin er árleg skýrsla stofnunar sem við getum kallað Alþjóðavaktina, World Watch Institute, er farið nokkuð rækilega yfir stöðu mála, í sérstakri afmælisútgáfu sem helguð er aldamótunum fram undan. Ég hygg að ekki verði deilt um að þar er á ferð margverðlaunaður rannsóknarhópur Alþjóðavaktarinnar, sem hefur vakið athygli um allan heim fyrir framlag sitt á undanförnum árum til umfjöllunar um þessi mál. Þar er komist að alvarlegri niðurstöðu varðandi framtíðarhorfur mannkynsins, ekki síst með óbreyttri stefnu á grundvelli hinnar vestrænu eða iðnvæddu efnahagsstefnu og stjórnmálastefnu.

Meðal annars er farið yfir þau teikn sem á lofti eru um loftslagsbreytingar og hinar geigvænlegu afleiðingar þeirra fyrir mannkynið. Þar er sagt frá t.d. útkomu síðasta árs í Kína. Efnahagslegt tjón í Kína vegna náttúruhamfara, fyrst og fremst flóða í Yangtse-ánni, er metið á 36 billjónir dollara. 2.500 manns drukknuðu í Kína vegna flóða á síðasta ári. 56 milljónir Kínverja urðu heimilislausar á síðasta ári vegna náttúruhamfara, aðallega flóða. 56 milljónir manna urðu að yfirgefa heimili sín vegna náttúruhamfara. Það er svipaður fjöldi og býr á Bretlandseyjum, ef ég man rétt og rúmlega það sem býr í Frakklandi.

[12:30]

Tveir þriðju hlutar alls lands í Bangladess voru undir vatni í meira í mánuð á síðasta ári. 21 millj. manna í Bangladess varð heimilislaus, varð að yfirgefa heimili sín. Fellibylurinn Mitch, sem gekk yfir Karíbahafið og Mið-Ameríku, varð mjög nálægt því að slá heimsmet í vindhraða og ná þar með því að vera öflugasti og hættulegasti stormur sem hingað til hefur mælst á jörðunni. Ég held að aðeins í einu tilviki hafi verið mældur meiri vindhraði en mældist í Mitch, eða 270 kílómetrar á klukkustund. Það þykir gáleysislegur akstur ef komið er mikið yfir 100 kílómetra á klukkustund en Mitch fór nálægt því að þrefalda þann hraða. Úrkoman í Mitch á sumum svæðum í Mið-Ameríku voru 2 metrar, 2.000 millimetrar á innan við einni viku. Það jafngildir 2 metra lagi af vatni á flatt yfirborð jarðarinnar. Hávöxnustu menn standa tæplega upp úr því, a.m.k. hvorki ég né hæstv. utanrrh. gætum dregið andann til lengdar ef við ættum að standa á fótunum á þurrlendi við þær aðstæður. 70% af allri uppskeru í Hondúras skoluðust í bókstaflegri merkingu í burtu í flóðunum sem tengdust Mitch. Í Rússlandi leiddi samspil af hitum, þurrkum, flóðum og efnahagslegri upplausn til þess að kornuppskera varð hin minnsta í 40 ár. Í 40 ár hefur ekki minni kornuppskera náðst í hús í Rússlandi en á síðasta ári. Talið er, herra forseti, að mörg sjálfstæð þjóðríki, jafnvel einhverjir tugir sjálfstæðra ríkja, aðallega eyþjóðir við Kyrrahaf, muni í bókstaflegri merkingu þurrkast út af yfirborði jarðar á fyrri hluta næstu aldar ef svo heldur sem horfir vegna hækkunar sjávarmáls. Ef hitaaukningin í heiminum verður sú sem nú teiknar til og fyrstu átta mánuðir ársins 1998 slógu öll met í upphitun jarðarinnar, aldrei hefur mælst meiri hiti á yfirborði jarðar samkvæmt skráðum heimildum en gerði fyrstu átta mánuði sl. árs og hitaaukningin var einnig heimsmet. Aldrei áður hefur jafnmikil hækkun hita á milli ára mælst eins og á fyrri hluta sl. árs. Því er ekki að undra, herra forseti, þótt þessar eyþjóðir hafi brugðist öndverðar við þegar Íslendingar fóru á fjörurnar við þá og báðu um stuðning við að uppfylla ekki skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Þjóðir sem horfa á eftir föðurlandi sínu í bókstaflegri merkingu undir vatn á næstu áratugum eru eðlilega ekki spenntar fyrir því að iðnríkin haldi áfram að auka losun sína.

Herra forseti. Á árinu 1999 er talið að mannkynið fari yfir 6 milljarða, að fjöldi manna á jörðinni fari yfir 6 milljarða. Á næstu öld er talið að 4,6 milljarðar bætist við, þ.e. ef jörðin getur tekið við því. Því trúa menn almennt ekki og menn reikna með því að þessar spár hljóti að brotna niður, fyrst og fremst á grundvelli þess að jörðin ráði ekki við þennan vaxandi fólksfjölda þannig að mannkynið muni aldrei ná þeim 10 milljörðum sem það ella yrði um næstu aldamót. Indverjar eiga t.d. að verða samkvæmt þessum spám yfir 1.500 millj. og komnir fram úr Kínverjum við önnur aldamót ef svo heldur sem horfir. Niðurstaða þessara sérfræðinga, herra forseti, sem ég var að vitna í, sérfræðingahópsins hjá alheimsvaktinni, sem ég hef leyft mér að kalla svo, er sú að það sé alveg ljóst út frá rannsóknum þeirra að efnahagskerfi hinna iðnvæddu Vesturlanda, sem hefur verið að breiðast út til þriðja heimsins, hefur verið útflutningsvara, sé að grafa undan sjálfu sér. Það fái ekki staðist og það muni ekki duga marga áratugi inn í næstu öld. Samt lætur hæstv. utanrrh. eftir sér að ræða með nokkurri sjálfumgleði í anda þeirra sem fara með forræði mála fara á Vesturlöndum um það hversu bjart sé nú fram undan hjá NATO og hversu vel þetta líti nú allt meira og minna út þegar færustu sérfræðingar eru þvert á móti þeirrar skoðunar að útlitið sé mjög dökkt, horfurnar séu mjög svartar.

Ég tók með mér aðra bók, herra forseti, sem gaman hefði verið að hafa tíma til að vitna aðeins í og það er þessi rauða handbók. Þetta er árbók SIPRI, friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi. Þar er á hverju ári farið yfir stöðu mála í heiminum, farið yfir ástand mála á átakasvæðum og þar er uppreiknuð tölfræðin um útgjöld einstakra þjóða og jarðarinnar í heild til vígbúnaðar og hernaðar á hverju einasta ári. Fróðlegt væri, herra forseti, fyrir menn að kynna sér t.d. hve mörg af fátækustu ríkjum jarðar, þróunarríkjum svo ekki sé nú talað um ríkin í Mið-Austurlöndum, eru að verja miklum upphæðum til vígbúnaðar. Þótt nokkuð hafi dregið úr útgjöldum Vesturlanda í þessu skyni á árabilinu 1986--1995 eru þeir ótrúlegu hlutir nú að gerast að útgjöld til vígbúnaðarmála fara víðast hvar vaxandi á nýjan leik. Tölur eins og 5--10% eru ekki óalgengar, þ.e sem hlutfall af þjóðartekjum þegar mörg af fátækari ríkjum jarðarinnar eiga í hlut. Útgjöld til vígbúnaðarmála fara vaxandi á nýjan leik í Austur-Evrópu, þökk sé m.a. stækkun NATO og kvaða og skuldbindinga sem nýju aðildarríkin þar verða að taka á sig.

Eina bók enn, herra forseti, tók ég með mér að gamni af mörgum sem til greina hefðu komið og það er bók bandaríska Sierra-hópsins um stöðu mála hvað varðar alþjóða- og alheims fjármagnskreppuna sem hefur geisað á undanförnum missirum. Þar er einnig komist að þeirri niðurstöðu, og eru þar þó ekki á ferðinni menn sem hafa almennt verið þekktir sérstaklega fyrir að vera gagnrýnir á vestræn sjónarmið eða málstað vestrænna iðnríkja, en þar er komist að þeirri niðurstöðu að sjálfbærni hins hnattræna, vaxtarháða hagkerfis sé óhugsandi þverstæða. Það geti ekki með innbyggða vaxtarskrúfu sína orðið sjálfbært. Það hljóti að hrynja og ég get ekki annað, herra forseti, en neyðst til þess því miður að vera sammála þessari niðurstöðu og segi að það er í raun og veru fátækleg umfjöllun um alþjóðamál um þessar mundir sem sneiðir hjá eða að mestu leyti hjá þeim risavöxnu verkefnum sem eru þarna á ferðinni og fléttast öll saman í ástandi umhverfismála, stjórnmála og öryggismála og í þriðja lagi efnahagsmála. Á öllum þessum sviðum er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af stöðu mála.

Herra forseti. Ég vil svo nota það sem eftir lifir tíma míns til að mótmæla eins og fleiri hafa gert þeirri áformuðu niðurstöðu hæstv. ríkisstjórnar að gerast ekki aðilar að Kyoto-bókuninni svonefndu. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson mun taka til máls síðar í umræðunni og fara rækilegar yfir það mál og gera grein fyrir afstöðu okkar.

Herra forseti. Að síðustu er aðeins tími til að nefna örfáum orðum umfjöllun hæstv. utanrrh. um Evrópumál. Frá því hæstv. utanrrh. hélt ræðu sína á landsfundi Framsfl. í haust er að verða nokkuð klassískur texti í ræðum og skrifum hæstv. utanrrh. sú opnun á mögulega aðild að Evrópusambandinu sem er þarna á ferðinni. Á mannamáli heitir það, herra forseti, að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. er að færa afstöðu flokks síns til. Það er alveg greinilegt. Hæstv. ráðherra er með ýmsum hætti að opna á að aðild að Evrópusambandinu geti orðið álitlegur kostur fyrir Íslendinga, að vísu að uppfylltum vissum skilyrðum sem hæstv. ráðherra setur og gefur jafnvel í skyn í leiðinni að það sé ekki frágangssök eða með öllu ólíklegt að við Íslendingar getum fengið einhverjar þær undanþágur t.d. frá sameiginlegri fiskveiðistefnu, með öðrum orðum ákvæðum Rómarsáttmálans sem gerir aðild að Evrópusambandinu fýsilega fyrir okkur. Ég hef ekki tíma til að mótmæla þessari nálgun hæstv. utanrrh. eins og vert væri og skylt. Hún er í senn bæði röng og hættuleg að mínu mati, en ég leyfi mér þó, herra forseti, að vekja sérstaka athygli á því að þetta er orðinn hefðbundinn texti í ræðum hæstv. utanrrh., nánast klassískur, að opna þannig á mögulega aðild og hann er ótrúlega líkur þeim áherslum sem talsmenn svonefndrar Samfylkingar eru farnir að taka upp í þessum efnum. Það eru athyglisverðar og umhugsunarverðar staðreyndir í íslenskum stjórnmálum, herra forseti, þessi samhljómur sem þarna er að verða á milli stefnu Framsfl. og stefnu Samfylkingarinnar en ýmsa grunar að á bak við stefnu Samfylkingarinnar blundi hin gamla Evrópustefna Alþfl.