Orkulög

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 11:37:50 (4121)

1999-02-26 11:37:50# 123. lþ. 73.1 fundur 543. mál: #A orkulög# (eignarhlutur Rafmagnsveitu ríkisins í félögum) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[11:37]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að menn hafi verið að ræða um að styrkja stöðu fyrirtækisins á landsbyggðinni. Ég bendi hv. þm. á fyrstu orð 1. gr. þar sem segir: ,,Rafmagnsveitum ríkisins ...``. Þær starfa þar. Þær starfa ekki á höfuðborgarsvæðinu. Og ég bendi hv. þm. á greinargerðina þar sem gerð er grein fyrir viðræðum um verkefni sem þessi heimild mundi ná til. Nefndar eru framkvæmdir í Stykkishólmi, Villinganesvirkjun í Skagafirði, í Grensdal á Suðurlandi og framkvæmdir í Öxarfirði. Allar framkvæmdirnar sem nefndar eru og öll dæmin sem tiltekin eru um verkefni sem féllu undir heimildarákvæði frv. eru á landsbyggðinni. Það á því ekki neinum að yfirsjást hver tilgangur málsins er.

Þó að menn hafi sett lög 1923 þá vill nú svo vel til að menn geta sett lög síðar. Ég bendi á að menn settu ekki lög fyrr en 1990 um að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar og voru m.a. lagaákvæði til fyrr í mörg hundruð ár sem kváðu á um annað að nokkru leyti. Það varð engin hindrun fyrir þá breytingu sem gerð var árið 1990. Ákvæði vatnalaga breyta því engu um möguleika Alþingis til þess að dreifa arðinum af heitu vatni til landsmanna allra, veita þeim hlut í góssinu, eins og hv. þm. sagði. Rann þá upp fyrir mér sú mynd að góssið væri hluti af tekjum fólksins á landsbyggðinni sem rynni í borgarsjóð Reykjavíkur.