Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 13:31:00 (4141)

1999-02-26 13:31:00# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[13:31]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis. Segja má að þetta frv. snerti grunneiningu lýðræðisins, þ.e. starfshætti löggjafans, eina stoðina í þrískiptingu valdsins. Því er mjög mikilvægt að frv. sem þetta fái ítarlega umfjöllun. Það snertir undirstöðu lýðræðislegra vinnubragða og starfshátta. Í umræðum um frv. hlýtur að vera mikilvægt að fjalla um stöðu löggjafarsamkomunnar gagnvart dómsvaldi og framkvæmdarvaldi.

Ég hygg að almennt séu menn sammála um að dómsvaldið í landinu sé öflugt og sjálfstætt eins og dæmin frá síðustu mánuðum sýna. Hið sama verður sagt um framkvæmdarvaldið. Framkvæmdarvald hér er afskaplega sterkt en hins vegar hafa margir dregið í efa stöðu löggjafans í því jafnvægi sem ríkja á milli þessara þriggja grunneininga í lýðræðisríki. Í raun má bæta við fjórða valdinu þó ekki sé formlega. Það er fjölmiðlavaldið sem stöðugt styrkir stöðu sína í samfélaginu öllu og er vissulega ástæða til að nefna það í sömu andrá og þrískipting valds er nefnd. Umræða um stöðu löggjafans í þessu samhengi hefur farið fram á þingi Evrópuráðsins, a.m.k. tvisvar á síðustu fjórum árum. Í sem stystu máli má segja að rauði þráðurinn í þeirri umræðu sé áhyggjur þingmanna Evrópuráðsins af stöðugt veikari stöðu löggjafarsamkomunnar gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þingið er veikt, heyrist oft fullyrt, og má með sanni segja að nokkuð mikið sé til í þeirri fullyrðingu. Eðlilega þarf að færa rök fyrir fullyrðingunni eða leita einhverra skýringa og tilvísana í starf og einstök dæmi um stöðu löggjafans, einkum gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég vil leyfa mér að nefna nokkur atriði sem telja má sem vísbendingar um veikleika löggjafans. Sá veikleiki er einkum gagnvart framkvæmdarvaldinu og þá líka fjórða valdinu sem ég gat um, fjölmiðlavaldinu.

Ég vil í fyrsta lagi leyfa mér að slá því fram að frásagnir fjölmiðla eru hér almennt afskaplega einlitar og oft og tíðum yfirborðskenndar. Auðvitað eru þar á nokkrar ágætar undantekningar en ég ræði hér um megineinkenni og meginreglu. Fjölmiðlaumræða af starfi þingsins einkennist af uppslætti í fyrirsagnastíl og það nær helst eyrum fjölmiðlunga ef hressilegar deilur eiga sér stað á hv. Alþingi. Með öðrum orðum er það mat fjölmiðlamanna sem ræður nokkru um hvað berst til þjóðarinnar af störfum þingsins. Ég tel þó öllu alvarlegra að þingmenn gera sig oft seka um að taka þátt í því sem kalla mætti slíkum leik. Þeir koma á stundum, þegar lag gefst og búa jafnvel til slíkt lag, og kynna mál í upphrópunarstíl, með yfirborðskenndum hætti og með uppslætti. Þeir skapa jafnvel deilur vitandi af því mati fjölmiðlamanna sem ég gat um. Afleiðing þess er oft sú að almenningur fær jafnvel rangar hugmyndir af störfum þingsins og sér það einungis fyrir sér sem vettvang mikilla deilna og yfirborðskenndra umræðna. Hér hefur það gjarnan gerst að hv. þm. hafa greinilega lagt mikla vinnu í einstök mál og fjallað málefnalega um þau í nokkrum friði. Slík mál virðast ekki eiga jafngreiðan aðgang að fjölmiðlum. Þetta er áhyggjuefni vegna þess að ef þetta er sú sýn sem almenningur hefur á starfshætti Alþingis þá grefur hún ósjálfrátt undan virðingu fólks fyrir þessari mikilvægu og virðulegu stofnun.

Í öðru lagi vil ég nefna stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, einkum þó ráðherravaldi. Að sumu leyti get ég tekið undir þau sjónarmið að ráðherravald svonefnt, eða framkvæmdarvaldið hafi nánast ofurvald yfir þinginu. Hvernig birtist það? Sumir hafa bent á að ráðherrar gegni jafnframt störfum þingmanna og nálgist þá málin hvort tveggja sem fulltrúar framkvæmdarvalds og hins vegar sem fulltrúar löggjafasamkomunnar, þeir leiði málin inn í þingið og út í gegnum þingið. Það sem ég tel vera mest aðfinnsluvert varðandi störf þingsins er sá forgangur sem stjórnarfrv., þ.e. mál framkvæmdarvaldsins, hafa innan þingsins. Innan þingflokka --- nú er ég að tala um þingflokka allra tíma --- hafa þau forgang á dagskrá og hið sama gerist á dagskrá hv. Alþingis, sem og innan nefnda þingsins. Það sama verður hins vegar ekki sagt um þingmannamál. Af sjálfu leiðir að þau verða nokkurs konar afgangsstærð og eru sett til hliðar eða sett neðar en málefni framkvæmdarvaldsins.

Nú má færa rök bæði með og móti þessu fyrirkomulagi. Ég fjalla hins vegar um þetta í ljósi þess hve mikilvægt er að þingið starfi sjálfstætt og geti lagt mat á eigin stöðu og þau mál sem því berast, en sé ekki undir framkvæmdarvaldið sett. Þetta kemur í rauninni fram ef skoðaðar eru tölur um afdrif mála á þinginu. Síðustu 10 þingin má segja að meginreglan sé að rúmlega 80% af stjórnarfrv. renni gegnum þingið sem lög. Hlutfallið er öfugt varðandi mál hv. þm. Þá virðast rétt tæplega 20% af þingmannamálum afgreidd með einhverjum hætti af hv. Alþingi. Þessar tölur lýsa áþreifanlega stöðu þingsins sjálfs gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég tel það veikleika þingsins og allt að því hneisu að mál skuli sofna í þingi í stað þess að tekin sé afstaða til þeirra og þau felld ellegar samþykkt.

Þá eru mörkin milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarsamkomunnar ekki alltaf skýr. Nú er vitað að flest stjórnarfrv. eru samin af embættismönnum. Ráðherrar hafa til allrar hamingju nokkuð greiðan aðgang að embættismönnum til slíkra verka. Þegar kemur að kynningu inni á hv. Alþingi eða í nefndum kynna sömu embættismenn málið fyrir hv. þingnefndum. Þeir gerast jafnframt umsagnaraðilar um eigin verk. Þarna finnst mér að skilin á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds séu afskaplega óljós og þessi valdsvið renni nánast saman.

Í nokkuð mörgum tilvikum eiga hv. þm. þátt í að semja drög að frv. eða frv. fyrir hönd ráðherra í starfsnefndum sem ráðherrar skipa. Hinir sömu hv. þm. taka síðan við málunum sem fulltrúar löggjafarsamkomu og fjalla þá um og leggja mat á eigin verk. Þarna má segja að ruglist saman þessi nauðsynlegi aðskilnaður eða fjarlægð löggjafarsamkomu frá framkvæmdarvaldi.

Í þriðja lagi nefni ég, herra forseti, samskipti stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég legg áherslu á að ég tala hér um stjórn og stjórnarandstöðu allra tíma. Mér hefur sýnst, bæði þann tíma sem ég hef starfað á hv. Alþingi og einnig sem áhorfandi, að meginreglan sé sú að stjórnarandstaða leggist gegn því sem stjórnarsinnar gera og öfugt. Við höfum jafnvel dæmi þess úr sögunni að mál sem stjórnarandstaða hefur lagst gegn á einu kjörtímabili, flytji hún allt að því óbreytt á næsta kjörtímabili á eftir. Ég tel þetta ósið og ekki til annars en að veikja þá nauðsynlegu samstöðu sem ríkja þarf hjá þjóðinni. Ég tel að þessi vinnubrögð séu ekki byggð á málefnalegum ágreiningi. Ég vil þó nefna, til að forðast allan misskilning, að stjórnarandstaða er mikilvæg fyrir lýðræðið og inni á hv. Alþingi. Hins vegar á að gera þá kröfu til stjórnarandstöðu allra tíma að hún axli þetta lýðræðislega hlutverk sitt og veiti málefnalega gagnrýni og aðhald en notist ekki við upphrópanir, uppslátt og þar fram eftir götunum.

Herra forseti. Ég hef fjallað um stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldi. Ég vil hins vegar fjalla aðeins um sjálfstæði hv. Alþingis þegar kemur að ýmsum alþjóðasamþykktum sem við höfum gengist undir. Í því samhengi nægir að nefna ýmis þau mál sem þingið hefur umfjöllunarlítið afgreitt sem tilskipun frá Brussel. Þar á sér að sjálfsögðu stað ákveðið valdframsal til Brussel. Vissulega eru af því margir kostir og enginn má skilja orð mín svo að ég mæli hér gegn EES-aðild, þvert á móti. Ég vek hins vegar athygli á því að sú aðild er einn liðurinn í að veikja sjálfstæði þjóðþings okkar Íslendinga. Fleiri atriði mætti nefna, herra forseti, m.a. þá almennu pólitísku deyfð sem virðist vera meðal almennings. Það sést í lítilli þátttöku í stjórnmálaflokkum og almennt litlum pólitískum áhuga. Grundvallarþátturinn í öllu lýðræði að lýðurinn ráði en þá er gert ráð fyrir að lýðurinn sé upplýstur, meðvitaður og áhugasamur um hin pólitísku mál. Án þess að fjalla frekar um það má segja að einn veikleiki þingsins sé starfskjör þingmanna og starfsaðstaða þeirra; lítill aðgangur að sérfræðikunnáttu miðað það sem ráðherrar, framkvæmdarvaldið, hafa, svo ekki sé minnst á launakjör o.s.frv.

[13:45]

Fleiri þætti mætti nefna en ég dreg þessa þætti fram sem ábendingu. Taka má undir þá umræðu að Alþingi sé að mörgu leyti veikt miðað við framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, að ekki sé talað um fjölmiðlavaldið. Ég vil þó lýsa ánægju með hvernig hæstv. forseti, Ólafur G. Einarsson, hefur markvisst unnið að því á þessu kjörtímabili að styrkja stöðu þingsins og birtist það m.a. núna í lok kjörtímabilsins í því frv. sem hæstv. forseti hefur frumkvæði að því að leggja fram með þetta að markmiði.

Í framhaldi af slíkri gagnrýni sem hér hefur verið haldið uppi er eðlilegt að benda á hvað er til úrbóta. Ég tel að frv. það sem er til umfjöllunar sé mjög mikilvægt skref í rétta átt. Almennt séð hefði ég talið að til að efla enn frekar sjálfstæði þingsins ætti að skoða mjög vandlega hvort ekki sé tímabært að skilja að framkvæmdarvald og ráðherravald innan þingsins, m.a. með því að ráðherrar afsali sér þingmennsku og kalli til varaþingmenn, verði þeir valdir sem ráðherrar. Þar með er í rauninni komið í veg fyrir að ráðherrar sitji báðum megin borðs. Þar að auki þekkja hv. þm. að ráðherrar eiga í rauninni fullt í fangi með að stýra ráðuneytum sínum enda mikil umsvif þar, en það bitnar á þingskyldum þeirra eins og dæmin sanna.

Ég tel að þingmenn eigi almennt ekki að starfa á vegum framkvæmdarvaldsins í einstökum nefndum eða í stjórnum á vegum framkvæmdarvaldsins vegna þess að þá er verið að veikja þá hlutlausu afstöðu sem þingmenn þurfa að hafa. Ég tel að það þurfi að endurskipuleggja vel samskipti stjórnar og andstöðu. Mikilvæg skref hafa verið stigin með því að fela stjórnarandstöðu í nokkrum tilvikum formennsku þingnefnda og í flestum tilvikum tel ég að vel hafi tekist til.

Stærsta atriðið varðandi sjálfstæði þingsins tel ég þó vera að mál sem koma hingað inn, hvort heldur eru stjórnarfrumvörp ellegar þingmannamál, fái sitt númer eins og nú tíðkast en verði afgreidd innan tiltekins tímafrests. Þá sé þingið sjálft neytt til þess að taka afstöðu, annaðhvort að fella eða samþykkja mál, en þingið er þar með að taka afstöðu til mála á sjálfstæðan hátt í stað þess að láta þau daga uppi og hverfa.

Ég tel að einnig þurfi að taka til umræðu og endurskoðunar samskipti hv. Alþingis og fjölmiðla. Ég geri mér grein fyrir því að það er mjög viðkvæmt mál og er ekki að boða ritskoðun á nokkurn hátt en ég leyfi mér að varpa því fram hvort ekki væri hægt að skoða þann möguleika, m.a. í sambandi við þetta frv., í nánu samstarfi við t.d. Blaðamannafélag Íslands ellegar þá þingfréttaritara sem hér starfa, að þeir hittist reglulega með sérstakri þingskipaðri nefnd til þess að fjalla um þessi samskipti og ræða um einstök mál og skipuleggja það sem fram undan er. Ég tel þetta mjög mikilvægt á þeim forsendum sem ég gat um í upphafi um það hvernig störf Alþingis eru oft og tíðum matreidd fyrir þjóðina.

Þá vil ég nefna kjör þingmanna, aðgengi að sérfræðiaðstöðu, fyrir utan svo auðvitað launamálin. Ef skoðað er launayfirlit opinberra embættismanna, sem var birt nýlega, kemur í ljós að kjaralega standa þingmenn á botninum. Fulltrúar framkvæmdarvaldsins eru mun hærra settir og það er e.t.v. dæmi um stöðu þingsins.

Auðvitað þarf að skoða kynjaskiptingu og ekki síður aldurssamsetningu þingsins því að atkvæðaréttur miðast við 18 ár og rödd unga fólksins þarf að heyrast eins og beggja kynja. Ég tel að stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi þurfi að taka hressilega til endurskoðunar almennt starf sitt og hvernig megi auka pólitískan áhuga almennings enda er hann í rauninni grunnur að lýðræðislegum störfum og lýðræðislegri þróun.

Ég fagna því sem segir í frv. um að fækka nefndum og sérstaklega því að fjalla um eina atvinnumálanefnd, þ.e. að laga atvinnulíf okkar að nútímanum og láta Alþingi fylgja því í stað þess að búta það niður í gamla, hefðbundna atvinnuvegi en vægi þeirra fer minnkandi og nýjar atvinnugreinar bætast við.

Sama vil ég segja um takmörkun á ræðutíma. Oft og tíðum hefur hinn óhefti ræðutími verið notaður beinlínis í ofbeldisskyni þar sem efnisleg rök liggja öll fyrir en minni hluti er að knýja fram sjónarmið þvert á vilja yfirgnæfandi meiri hluta. Því atriði fagna ég og ég tel að það styrki þingið að stytta ræðutíma.

Herra forseti. Tími minn er á þrotum en ég vil lýsa yfir stuðningi við frv. Ég tel að það efli sjálfstæði þingsins þó vissulega hefði mátt ganga miklu lengra og hef leyft mér að draga fram nokkra þætti í því sambandi.