Þingsköp Alþingis

Föstudaginn 26. febrúar 1999, kl. 14:47:49 (4145)

1999-02-26 14:47:49# 123. lþ. 73.2 fundur 540. mál: #A þingsköp Alþingis# (nefndir, ræðutími o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki tekið mikinn þátt í þessari umræðu, enda hafa ágætir fulltrúar frá þingflokki óháðra túlkað sjónarmið sem ég tek almennt undir. Það er eitt atriði sem ég vildi koma að í andsvari og varðar 11. gr. um skipun í nefndir. Mér finnst það ekki að öllu leyti rétt hugsað sem hér er verið að gera, að leggja nefndir saman á þennan hátt. Það virðist gengið út frá þeirri hugsun að nefndir séu bara viðtakendur mála og þannig verði álagið mjög misjafnt. Auðvitað ræður kylfa kasti, ef svo má segja, hvað berst til nefnda frá þinginu hverju sinni en að mínu mati þyrftu þingnefndirnar að gera miklu meira af því að vinna sjálfstætt að málum á sínu sviði. Þar er sannarlega af nógu að taka. Mér finnst því að styrkja ætti þingsköpin í þá veru og ýta undir það að þingnefndir hefðu frumkvæði bæði við athugun mála og flutning mála eftir atvikum.

Hér var landbn. nefnd. Ætli það væri ekki eitthvað fyrir landbn. að gera ef hún tæki sig til og fylgdi því eitthvað eftir sem formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðni Ágústsson, hefur verið að finna að. Af hverju hefur landbn. ekki sökkt sér niður í það mál og haft frumkvæði að tillögum og athugunum varðandi þennan málaflokk? Svo má lengi telja. Ég tel t.d. að umhvn. hefði ærið að gera eða þyrfti í rauninni að fara yfir samstarfið við viðkomandi ráðuneyti og fá Ríkisendurskoðun í lið með sér í athugun á þeim efnum, stjórnsýslu umhverfismálanna.

Að lokum, virðulegur forseti, er ein ábending af því að menn hafa verið að ræða um umhvn. og hvað félli að hennar sviði ef menn vildu sameina. Ég vil leyfa mér að nefna orkumál í því samhengi vegna þess hve þau eru í rauninni mjög umhverfistengd. Ég bendi á hvernig það er í Danmörku, þeir hafa að vísu annan auðlindagrunn en við, en þar eru umhverfis- og orkumál saman. Það fyndist mér vel til fallið.