Fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 15:58:42 (4197)

1999-03-01 15:58:42# 123. lþ. 74.94 fundur 299#B fyrirhuguð sala Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Flestir fjölmiðlar á Íslandi hafa fjallað um gildi nýstofnaðs vetnisfélags. Þannig greinir Morgunblaðið frá þessum atburði í leiðara sínum nýlega og segir m.a. að við megum einskis láta ófreistað til að nýta þessi sóknarfæri. Undir þau sjónarmið tek ég.

Flestir stærstu fjölmiðlar heims hafa enn fremur gert að umtalsefni hin metnaðarfullu markmið ríkisstjórnar Íslands um að Ísland verði fyrsta ríki veraldar er stefni að vistvænu hagkerfi. Milljónir lesenda NBC-fréttastofunnar kusu þá frétt eina athyglisverðustu frétt í heiminum fyrir rúmri viku.

Herra forseti. Ég fullyrði að vetnisfélagið kunni að skapa íslenskri þjóð betri sóknarfæri á öllum sviðum þjóðlífs en þekkst hafa lengi. Á það við um efnahagsmál, umhverfismál, rannsóknir, menntun og tækni.

Forsenda þeirra framfara er Áburðarverksmiðjan í Gufunesi, ein fárra vetnisverksmiðja í heiminum þar sem framleitt er tandurhreint vetni á vistvænan hátt. Það er algjör forsenda. En nú eru blikur á lofti. Einkavæðingarnefnd hefur boðið verksmiðjuna til sölu og mælir með því að þekktur athafnamaður fái hana til eignar án nokkurra skilyrða. Ég endurtek, án nokkurra skilyrða.

[16:00]

Ég vek enn fremur athygli á ummælum kaupandans þar sem hann segist þurfa að skoða katlana betur áður en frekari ákvarðanir verði teknar um framtíð verksmiðjunnar. Enn fremur segist hann aðspurður ekki sjá neina frekari tekjumöguleika fyrir verksmiðjuna, en helst tengda hafnarstæðinu. Þar með í raun hafnar hann sóknarfærum tengdum vetni.

Herra forseti. Allt þetta ferli byggir á tillögum embættismanna, landbrn. og einkavæðingarnefndar. Hér eru slíkir hagsmunir í húfi að allri óvissu ber að eyða. Mér sýnist að einkavæðingarnefnd hafi brugðist þeirri skyldu sinni að gæta hagsmuna þjóðarinnar, hvort heldur er í bráð eða lengd. Ég sé ekki betur en þessi gjörningur stangist á við nýlega og ánægjulega samþykkt ríkisstjórnarinnar um vetnisvæðingu íslensks samfélags. Þess vegna á að endurskoða það söluferli sem hafið er og fresta sölu á Áburðarverksmiðjunni. Þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru í sjálfu sér nógu alvarleg til að endurskoða söluáform varðandi Áburðarverksmiðjuna. En málið hefur fleiri hliðar. Annars vegar er um að ræða fjölskyldur tæplega 100 starfsmanna sem hafa rekið verksmiðjuna í mörg ár af einstakri alúð. Framtíð þeirra er auðvitað stefnt í algera óvissu. Áburðarverksmiðjan sparar um 500 millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Hún skapar tæplega 100 arðbær störf og ríkið þarf ekki að leggja krónu með henni. Ég nefni enn fremur, herra forseti, og spyr: Hvernig munu söluaðilar bregðast við, þar með taldir þeir innflytjendur sem hugðust festa kaupa á verksmiðjunni í samstarfi við aðra? Munu þeir hefja samkeppni við Áburðarverksmiðjuna með hörðum innflutningi og þar með veikja rekstrargrunn hennar og framleiðslu á íslenskum áburði og vetni? Getur verið, herra forseti, að markmið kaupanna séu þau að ná kaupverðinu til baka með upplausnarvirði verksmiðjunnar, peningalegri eign, birgðum, fasteignum og tækjum, þ.e. með því að selja Áburðarverksmiðjuna aftur í bútum en nýta síðan landið sem er örugglega eftirsóknarvert byggingarsvæði í Gufunesi?

Herra forseti. Ætlum við að láta ráð nokkurra embættismanna og mistök einkavæðingarnefndar ógna þessum framtíðarmöguleikum þjóðarinnar? Ég mótmæli því og fer því fram á það við hæstv. landbrh. að hann afsali ekki þeim gullmola sem Áburðarverksmiðjan er út í algera óvissu. Fremur hefði ég kosið að sjá metnaðarfulla yfirlýsingu um að gera Áburðarverksmiðjuna að alþjóðlegri miðstöð á sviði umhverfismála í góðu samstarfi við erlenda og innlenda aðila. Væri það ekki skynsamlegri og metnaðarfyllri fjárfesting fyrir íslenska þjóð?