Fangelsi og fangavist

Mánudaginn 01. mars 1999, kl. 16:37:23 (4210)

1999-03-01 16:37:23# 123. lþ. 74.13 fundur 350. mál: #A fangelsi og fangavist# (samfélagsþjónusta) frv. 22/1999, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 123. lþ.

[16:37]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. á þskj. 911 um frv. til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk til viðræðna við sig Benedikt Bogason og Þorstein A. Jónsson frá dóms- og kirkjumrn. Þá bárust nefndinni nokkrar umsagnir um málið.

Helsta breytingin sem lögð er til í frv. er að heimilað verði að fullnusta vararefsingu með samfélagsþjónustu. Sú breyting er lögð til þar sem óeðlilegt þykir að maður sem hlotið hefur óskilorðsbundinn dóm geti fullnustað refsingu sína utan fangelsa meðan sektarrefsing, sem er mildari refsing, leiðir til afplánunar vararefsingar í fangelsi ef sekt fæst ekki greidd.

Við meðferð málsins í allshn. tók nefndin m.a. til skoðunar reynsluna af samfélagsþjónustu frá því að hún kom fyrst til þann 1. júlí 1995. Kom fram að reynslan af þessu úrræði er mjög góð. Í 95% tilvika þar sem dómþolar sækja um samfélagsþjónustu er um að ræða umsóknir frá dómþolum sem brotið hafa gegn ákvæðum umferðarlaga, oftast vegna ítrekaðs ölvunar- eða sviptingaraksturs. Algengasti aldur dómþola sem gegna samfélagsþjónustu er 21--35 ár.

Við meðferð málsins í nefndinni kom fram það sjónarmið að það ætti ekki að vera hlutverk stjórnvalda að ákveða inntak fangelsisrefsingar heldur ættu ákvarðanir dómara um það að vera endanlegar. Það ætti því að vera hlutverk dómara að dæma dómþola til samfélagsþjónustu en ekki stjórnvalda að ákveða að dómþoli mætti afplána fangelsisdóm með samfélagsþjónustu. Nefndin er ekki sammála þessu sjónarmiði. Í umræddu tilviki er stjórnvöldum heimilað að taka ívilnandi ákvörðun í þágu dæmds manns. Slíkar heimildir stjórnvalda eru víða og hafa ekki verið umdeildar. Sem dæmi má nefna ákvæði almennra hegningarlaga um reynslulausnir og heimild í lögum um fangelsi og fangavist um að heimilt sé að vista fanga á sjúkrahúsi eða annarri stofnun þar sem hann nýtur sérstakrar meðferðar. Loks má nefna að stjórnvaldi er heimilt að leyfa fanga að vinna utan fangelsis.

Um meðferð slíkra mál í öðrum löndum má nefna að í Svíþjóð geta dómþolar sem dæmdir eru til allt að þriggja mánaða fangelsis sótt um að refsingin verði fullnustuð með því að á dómþola verði fest rafrænt fótjárn og þannig fylgst með því hvar hann er staddur. Taka stjórnvöld þar ákvörðun um hvort slík fullnusta verði heimiluð.

Allt þetta telur nefndin styðja það sjónarmið að eðlilegt sé að stjórnvald taki ákvörðun um heimild dómþola til að afplána refsivist með samfélagsþjónustu. Og vegna þeirrar umræðu sem átti sér stað í nefndinni um þetta atriði taldi ég rétt að taka þetta sérstaklega fyrir við framsögu á nál. málsins.

Allshn. leggur til tvær smávægilegar breytingar á frv. Í fyrsta lagi er lagt til að við frumvarpið bætist ný grein þar sem fram komi að Fangelsismálastofnun ríkisins geti ákveðið að klefar séu ólæstir í tilteknum fangelsum eða fangelsisdeildum eða í öðrum tilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með. Við meðferð málsins í nefndinni kom fram ósk Fangelsismálastofnunar um þessa breytingu. Kom m.a. fram að á Kvíabryggju hefur herbergjum ekki verið læst að kvöldi heldur einungis húsinu. Hefur það þótt gefast vel.

Þá er í öðru lagi lagt til, einnig að ósk Fangelsismálastofnunar, að gildistöku þess ákvæðis laganna er fjallar um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu verði frestað til 1. janúar árið 2000. Verði stofnuninni með því gefinn betri tími til að undirbúa umrædda breytingu sem er veigamikil.