Skipan nefndar um sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 14:34:40 (4274)

1999-03-03 14:34:40# 123. lþ. 77.1 fundur 373. mál: #A skipan nefndar um sveigjanleg starfslok# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[14:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessi þál. sem hv. þm. var frumkvæðismaður að ásamt fleirum verður 10 ára 13. apríl nk. Í framhaldi af henni, tveimur árum eftir að þingsályktunin var samþykkt, í mars 1991, skipaði fyrirrennari minn, Steingrímur Hermannsson, þáv. hæstv. forsrh., nefnd valinkunnra sómamanna og -kvenna til að fjalla um málið. Það voru þau Guðmundur Benediktsson, þáv. ráðuneytisstjóri í forsrn., sem gerður var formaður; Barði Friðriksson hæstaréttarlögmaður, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands; Guðríður Elíasdóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands; Björn Jósef Arnviðarson, þáv. bæjarfulltrúi á Akureyri, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, enda formaður launanefndar sveitarfélaga um þær mundir; og Ólafur Ólafsson, þáv. landlæknir, tilnefndur af landlæknisembættinu.

Þessi nefnd mun a.m.k. einu sinni hafa komið saman á þessum tíma. Í ráðuneytinu eru ekki gögn um að hún hafi komið saman oftar á þeim átta árum sem liðin eru frá skipun nefndarinnar.

Þetta er saga málsins. Spurningin er síðan hvort ráðherra hyggist skipa nýja nefnd til að móta tillögur um sveigjanleg starfslok. Því gæti ég út af fyrir sig svarað svona: Það væri hugsanlegt, þó ekki víst, ekki mjög líklegt en alls ekki útilokað.

Þetta þætti nú sveigjanlegt svar við sveigjanlegum starfslokum. Ég kýs frekar að svara þessu í þeim dúr sem flutningsmaðurinn lagði mér í hendur, að ég muni ganga eftir því hvort nefndin hyggist ljúka störfum og ef hún gerir það ekki þá sé rétt að binda endi á hin farsælu störf hennar og efna til nýrrar nefndar.

Ég vona að þetta dugi hv. fyrirspyrjanda.