Fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:11:46 (4289)

1999-03-03 15:11:46# 123. lþ. 77.4 fundur 355. mál: #A fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni.

Í svari ráðherra kom fram að stefnt er að undirritun um framhald málsins í júní. Ég vil fá að spyrja ráðherra hvað í því felst. Jafnframt kom fram hjá ráðherra að aðrir aðilar hafa sýnt áhuga á stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi og væri fróðlegt að heyra hversu langt þær umræður eru komnar ef þær eru á einhverju umræðustigi.

Ég vil taka undir það með hv. 2. þm. Austurl. að auðvitað eru önnur verkefni í gangi á Austurlandi og því fer fjarri að Austfirðingar séu að gefast upp og að eingöngu sé verið að bíða eftir því að niðurstaða komi í þetta mál. Hitt er að sú óvissa sem fylgir allri þessari umræðu skiptir mjög miklu máli þegar umræðan er á þessu stigi. Þess vegna er nauðsynlegt að fá niðurstöðu í málið þannig að Austfirðingar viti hvert framhaldið verði.

Ég hef einnig velt því fyrir mér í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um samningaferlið og erfiðleika sem eru því bundnir að semja við erlend risafyrirtæki, að spyrja ráðherrann hvort ekki sé komið að þeim tímapunkti að Íslendingar taki það frumkvæði að reisa sjálfir og reka slíka stóriðju. Það er ljóst að komin er mikil þekking í landið um rekstur t.d. á álveri og hugsanlegt er að nú sé komið að því að Íslendingar geti gert þetta sjálfir.

Ég spyr því: Er ekki kominn tími til að Íslendingar nýti íslenska orkukosti með íslenskri þekkingu og íslensku fjármagni að nokkrum hluta? Það kom einmitt fram á kynningarfundi Landsbanka Íslands á Eskifirði nú fyrir helgina að Landsbankinn hefur mikinn áhuga á því að fjárfesta í stóriðjukostum.