Eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 15:42:41 (4300)

1999-03-03 15:42:41# 123. lþ. 77.10 fundur 460. mál: #A eftirlit með almennri heilsu tiltekinna aldurshópa# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:42]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim hv. þm. sem hér lögðu orð í belg. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál er ekki einfalt og fyrir því hafa verið færð rök, það hafa bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. Katrín Fjeldsted sem er lærður læknir gert. En ég vil taka undir sjónarmið hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, sem voru kannski forsendur fyrirspurnar minna. Þó um 90% þjóðarinnar sæki til lækna er reynsla mín, og annarra sem ég hef rætt þessi mál við, sú að það fara ekki fram kerfisbundnar mælingar t.d. á blóðþrýstingi og blóði. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, eins og reynslan var af sjómönnum sem reglulega voru kallaðir til skoðunar, kom ýmislegt í ljós þótt ekki væri það endilega krabbamein eða alvarlegir sjúkdómar. Í ljós gat komið ýmislegt sem benti til að sjúkdómar væru í uppsiglingu. Það þarf ekki vera annað en menn séu í slæmu líkamlegu ástandi án þess að vera komnir með bráðdrepandi sjúkdóma. Með slíkri skoðun mætti veita þeim ýmis ráð og það gæti orðið til þess að vekja menn af værum blundi. Ég hvet til þess að hæstv. heilbrrh. skoði mál og móti stefnu varðandi þetta. T.d. mætti gera tilraunir í tilteknum sveitarfélögum eða landsfjórðungum og meta síðan reynsluna af því. Á þessu sviði eiga Íslendingar eins og á öðrum að vera í forustu. Vegna smæðar okkar getum við þarna verið forustuþjóð. Þetta eru forvarnir og er mikið til þess vinnandi að ná góðum tökum á forvörnum.