1999-03-03 15:56:35# 123. lþ. 77.6 fundur 554. mál: #A viðbrögð Landsbanka og Búnaðarbanka við úrskurði kærunefndar jafnréttismála# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það hefur löngum loðað við hv. þm. að hún er afskaplega refsiglöð. Ráðherrar þurfa sífellt að vera með vöndinn á lofti ef fara ætti eftir öllu því sem hv. þm. leggur til.

Svar mitt við fsp. hv. þm. var byggt á upplýsingum frá bönkunum. Ég hef ekki sett neinn rannsóknarrétt yfir bönkunum um að kanna þessi mál sérstaklega. Maður verður, þrátt fyrir bitra reynslu, að trúa því og treysta þeim upplýsingum. Þarna er ekki um tölulegar upplýsingar að ræða heldur hinn skrifaða texta. Ég vil, ekki síst með nýjum stjórnendum í þessum bönkum, trúa því og treysta að það sé rétt sem þarna kemur fram, að bankarnir hafi gert kærunefnd jafnréttismála fullnægjandi grein fyrir því hvernig stöðu þessara mála er háttað innan bankanna. Ég held að það breyti voðalega litlu og hafi lítið að segja þó svo að hv. þm. geti fundið það út að hægt væri að refsa með einhverjum hætti. Refsingarnar eru ekki það sem öllu máli skiptir þó að þær vaki mjög í huga hv. þm.