Ferða- og dvalarkostnaður

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 16:03:57 (4309)

1999-03-03 16:03:57# 123. lþ. 77.9 fundur 456. mál: #A ferða- og dvalarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Svör við fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur eru þessi:

Þegar litið er til kostnaðarþróunar Tryggingastofnunar ríkisins vegna ferða sjúklinga innan lands, þá virðist endurskoðun sú sem gerð var á reglugerð um ferðakostnað sjúklinga og aðstandenda þeirra á árinu 1996 ekki hafa leitt til aukinna útgjalda Tryggingastofnunar. Hugsanleg skýring á þessu er sú að dýrustu fargjöldin, þ.e. flugfargjöld, lækkuðu umtalsvert á þessum tíma auk þess sem sérfræðiþjónusta var aukin víða um landið. Ég nefni þar Neskaupstað sérstaklega og Siglufjörð auk þess sem þjónustan á Ísafirði er mjög öflug.

Það er mjög mikilvægt að styrkja ferðir sérfræðinga út á landsbyggðina og stuðla þannig að þeirri þróun að þjónustan sé færð í sem mestum mæli til fólksins í stað þess að fólkið sjálft þurfi að ferðast langan veg til að leita læknis. Þannig má líka nota góða meðferðaraðstöðu og skurðstofur sem eru til víða á sjúkrahúsum á landsbyggðinni. Engu að síður verður ekki hjá því komist að fólk þurfi að leita þjónustu eftir sem áður en kostnaðarþróun þarf ekki að gefa rétta mynd af þörfinni. Þótt reglur hafi ekki verið rýmkaðar er þörfinni mætt með öðrum hætti.

Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda voru á árinu 1996 settar nýjar reglur um ferðakostnað innan lands, reglur nr. 185/1996, sem felldu úr gildi reglur nr. 74/1991. Þær voru m.a. settar vegna bókunarinnar sem gerð var í tengslum við kjarasamningana. Helstu breytingar í þeirri reglugerð voru eftirfarandi:

Við bættist ákvæði sem heimilaði greiðslu ferðakostnaðar þegar um ferðir vegna bráðatilvika var að ræða, enda væru þær farnar samkvæmt ákvörðun læknis og ekki væri hægt að sinna sjúklingi í heimabyggð. Jafnframt var heimilað að greiða ferðakostnað vegna heimferðar að loknu sjúkraflugi.

Þá bættist einnig við eftirfarandi ákvæði:

,,Þegar nauðsynleg læknismeðferð vegna tilvika sem um getur í 1. gr. tekur a.m.k. fjórar vikur, endurgreiða sjúkratryggingar kostnað við ferðir heim aðra hverja helgi skv. reglum þessum.``

Hv. þm. nefndi nokkur dæmi áðan sem hún sagði réttilega að væri misræmi í varðandi þá reglugerð sem ég hef lesið upp úr. Ýmislegt í þeirri reglugerð er túlkunaratriði einstakra lækna. Þar af leiðandi höfum við endurskoðað hana. Tryggingaráð hefur nýlega gert tillögur um nýjar reglur um ferðakostnað innan lands sem ráðherra hefur staðfest. Helstu breytingar samkvæmt hinum nýju reglum eru eftirfarandi:

Tekið er þátt í ferðakostnaði sjúklings við tvær ferðir hans á 12 mánaða tímabili, enda þurfi læknir í héraði að vísa honum frá sér til frekari meðferðar. Þá er gert ráð fyrir því að um sé að ræða óhjákvæmilega sjúkdómsmeðferð og/eða rannsókn á opinberum sjúkrastofnunum eða hjá öðrum aðilum heilbrigðiskerfisins sem sjúkratryggingar Tryggingastofnunar hafa samning við.

Hér er í fyrsta sinn gert ráð fyrir því að ferðakostnaður sé greiddur af Tryggingastofnun þegar um er að ræða almenna ótilgreinda sjúkdóma sem ekki eru tök á að meðhöndla í héraði.

Samkvæmt fyrri reglum var eingöngu tekið þátt í ferðakostnaði ef um var að ræða eftirtalda tilgreinda alvarlega sjúkdóma: Illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega augnsjúkdóma, brýnar lýtalækningar, bæklunarlækningar barna og tannréttingar vegna meiri háttar galla eða alvarlegra tilefna. Enn fremur var á sama hátt heimilt að endurgreiða vegna annarra sambærilegra sjúkdóma og alvarlegra vandamála í meðgöngu.

Samkvæmt nýju reglunum greiðir Tryggingastofnun ferðakostnað vegna ítrekaðra ferða þegar um fyrrnefnda sjúkdóma er að ræða. Við bætist að heimilt verður að endurgreiða ferðir vegna glasafrjóvgunarmeðferðar.

Taki sjúkdómsmeðferð fjarri heimili sjúklings yngri en 18 ára a.m.k. fjórar vikur er Tryggingastofnun heimilt að taka þátt í kostnaði við heimferð um hverja helgi.

Tekið er þátt í kostnaði við daglegar ferðir foreldra eða nánasta aðstandanda til að vitja sjúklings yngri en 18 ára. Greitt er fyrir allt að 200 km hvora leið. Þá er tekið þátt í kostnaði við flugferð í sama skyni einu sinni í viku.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma til að lesa frekar upp úr þessari nýju reglugerð sem ég hef staðfest. En ég vænti þess að sú reglugerð muni gjörbreyta aðstöðu fólks úti á landi sem þarf að leita sér lækninga í Reykjavík.