Útsendingar útvarps og sjónvarps

Miðvikudaginn 03. mars 1999, kl. 19:29:57 (4349)

1999-03-03 19:29:57# 123. lþ. 77.19 fundur 536. mál: #A útsendingar útvarps og sjónvarps# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 123. lþ.

[19:29]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Eftir að ákvörðun var á sínum tíma tekin um að ráðast í að koma upp langbylgjusendum á Gufuskálum og síðan að Eiðum, hefur Alþingi samþykkt fjárveitingar til Ríkisútvarpsins, 50 millj. kr. á ári, sem hafa runnið til þess að gera Ríkisútvarpinu kleift að koma sendunum upp.

[19:30]

Sú spurning hlýtur að vakna þegar menn standa frammi fyrir þeim tölum sem hér hafa verið nefndar og þessum breyttu viðhorfum, hvort vilji sé á Alþingi til að gera Ríkisútvarpinu kleift að auka þjónustu sína með sendingum um gervitungl, bæði sjónvarps- og útvarpssendingum. Ég tel að Ríkisútvarpið eigi að skoða til hlítar hver hinn raunverulegi kostnaður sé og hvernig að þessu megi standa. Síðan verða lagðar fram ákveðnar tillögur. Það er allt annað að standa frammi fyrir tillögum um 60--80 millj. kr. í þessa þjónustu en tölum sem hafa verið á bilinu 600--800 millj. kr.

Menn sjá að við erum miklu nær því að ná þessu markmiði núna og erum að tala um eitthvað sem okkur finnst raunhæfara en áður. En þetta þurfum við að skoða áfram. Ég hef falið Ríkisútvarpinu að athuga þetta og tel að þetta sé mál sem menn þurfa að ræða. Við þurfum að fá fram fleiri tæknileg viðhorf í þessu og sjá síðan hverju við getum hrundið í framkvæmd.