Meðferð opinberra mála

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 10:40:59 (4358)

1999-03-06 10:40:59# 123. lþ. 79.3 fundur 354. mál: #A meðferð opinberra mála# (réttarstaða brotaþola, endurupptaka mála o.fl.) frv. 36/1999, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[10:40]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. allshn. á þskj. 969 og 970, um frv. til laga um breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta. Einnig barst fjöldi umsagna um málið.

Meginmarkmið frumvarpsins er að styrkja réttarstöðu brotaþola, sérstaklega þeirra sem beittir hafa verið ofbeldi í einhverri mynd. Helsta breytingin sem lögð er til á réttarstöðu þeirra er sú að tekin verði upp skylda til að tilnefna eða skipa brotaþola réttargæslumann til að gæta hagsmuna hans í opinberu máli hafi hann verið beittur ofbeldi þannig að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni og þurfi á sérstakri aðstoð slíks málsvara að halda. Enn lengra er gengið ef um er að ræða börn yngri en 18 ára sem grunur leikur á að hafi orðið fórnarlömb kynferðisbrota þar sem lagt er til að skylt verði að skipa þeim réttargæslumann í öllum slíkum tilvikum.

Í frumvarpinu eru lagðar til fjölmargar smærri breytingar. Lagt er til að brotaþoli geti krafist þess að réttarhald fari fram fyrir luktum dyrum og skotið synjun héraðsdómara á þeirri bón til Hæstaréttar. Þá verði þess betur gætt en verið hefur að upplýsingum um brotaþola sé haldið leyndum. Lögreglu verði skylt að leiðbeina brotaþola um lögmælt réttindi hans og ákvæði um tilkynningarskyldu lögreglu og ákæranda gagnvart brotaþola verði ítarlegri en nú er.

Þegar um er að ræða rannsókn á kynferðisbroti og brotaþoli er barn undir 18 ára aldri taki dómari skýrslu af honum svo fljótt sem verða má, þ.e. áður en ákæra er gefin út. Þurfi barnið þá að jafnaði ekki að gefa skýrslu í málinu að nýju. Þá verði það ekki fortakslaus réttur ákæranda, sakbornings og verjanda að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð þegar skýrsla er tekin af brotaþola sem er yngri en 18 ára heldur verði heimilt að gefa þeim þess í stað kost á að fylgjast með skýrslutökunni um leið og hún fer fram.

Lagt er til að heitið ,,réttargæslumaður`` verði notað um skipaðan eða tilnefndan málsvara brotaþola en heitið ,,verjandi`` taki framvegis til málsvara sakbornings hvort sem hann er skipaður í starfið af dómara eða lögreglu. Þá er gert ráð fyrir að verjandi geti óhindrað kynnt gögn og efni þeirra fyrir sakborningi um leið og hann hefur fengið aðgang að þeim. Á móti er lagt til að lögregla geti neitað að veita verjanda aðgang að gögnum um skamman tíma ef hún telur að slíkt geti skaðað rannsókn málsins. Lagt er til að í sakamálum verði heimilt að taka skýrslu af vitni gegnum síma eða annað fjarskiptatæki á sama hátt og í einkamálum. Þá geti ríkissaksóknari mælt fyrir um rannsókn ef sérstaklega stendur á og ríkir almanna- og einkahagsmunir mæla með því, þótt ætla megi að refsingu verði ekki við komið.

Gert er ráð fyrir að framvegis nægi ekki að fá samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma til símahlerunar í þágu rannsóknar opinbers máls heldur þurfi ávallt úrskurð dómara til þess. Þá er lagt til að saksóknarlaun af hálfu ríkisins verði ekki talin til sakarkostnaðar. Þá er gert ráð fyrir að ekki verði lengur skilyrði fyrir bótum til manns, sem sætt hefur refsivist eða þvingunarráðstöfun á borð við gæsluvarðhald og hefur ekki verið sakfelldur fyrir refsiverða háttsemi, að fremur megi telja hann líklegan til að vera saklausan en sekan af háttseminni, eins og er í núgildandi lögum. Loks er lagt til að heimilt verði að endurupptaka mál í því skyni að endurmeta sönnunargögn.

Nefndin fjallaði sérstaklega ítarlega um ákvæði frumvarpsins þar sem kveðið er á um skyldu lögreglu til að skipa brotaþola réttargæslumann í tilteknum tilvikum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að til að taka af öll tvímæli væri rétt að leggja til að sérstaklega verði tekið fram í frumvarpinu að lögreglu sé í öllum tilvikum skylt að tilnefna réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli óskar þess. Hafi brotaþoli ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst skuli hins vegar ávallt tilnefna réttargæslumann eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Þá leggur nefndin til nokkrar minni háttar breytingar:

Sérstaklega verði áréttað að ekki skuli afmá atriði úr þingbókum og dómabókum áður en þau eru afhent öðrum en aðilum máls nema sérstök ástæða sé til. Meginreglan er sú að málsmeðferð er opinber og því verður að gera kröfu til þess að atriði séu ekki afmáð úr gögnum sem afhent eru almenningi nema mjög sérstakar ástæður liggi þar að baki.

Þá leggur nefndin til að réttargæslumanni verði einungis heimilt að óska þess að dómari spyrji brotaþola tiltekinna spurninga eða dómari geti heimilað honum að spyrja brotaþola beint en ekki ákærða og vitni.

Það sjónarmið kom fram við meðferð málsins í nefndinni, bæði hjá fulltrúum ákæruvaldsins og neyðarmóttöku vegna nauðgunar, að óeðlilegt væri að réttargæslumaður gæti óskað þess að dómari beindi spurningum til þeirra. Nefndin féllst á það sjónarmið.

Lagt er til að heimild réttargæslumanns til aðgangs að gögnum verði rýmkuð og aðgangurinn verði ekki einskorðaður við gögn sem honum eru nauðsynleg til að aðstoða brotaþola við að setja fram einkaréttarkröfur. Ella væri girt fyrir að réttargæslumaður hefði heimild til aðgangs að gögnum þegar ekki er um það að ræða að brotaþoli ætli að setja fram bótakröfu, en hjá fulltrúum neyðarmóttöku kom fram að svo er í sumum tilvikum.

Nefndin leggur einnig til að ríkissaksóknara verði í öllum tilvikum skylt að tilkynna brotaþola um áfrýjun.

Þá leggur nefndin til að sett verði inn í frv. ákvæði þess efnis að Hæstiréttur geti ákveðið að varadómarar verði kvaddir til að taka þátt í ákvörðun um hvort mál skuli tekið upp á ný. Að baki tillögunni býr m.a. sú röksemd að erfið endurupptökumál auka mjög annir réttarins og því getur þurft að kalla til aukamannafla til að sinna slíku verkefni.

Loks er lagt til að gildistöku laganna verði flýtt til 1. maí 1999. Telur nefndin nauðsynlegt að þær réttarbætur sem mælt er fyrir um í frv. komi sem fyrst til framkvæmda.

Virðulegi forseti. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og rétt að leggja áherslu á að fullt samkomulag er í allshn. um afgreiðslu þessa máls. Nefndin mælir með samþykkt frv. og verður því vonandi vel tekið á hinu háa Alþingi.