Skaðabótalög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 11:12:05 (4362)

1999-03-06 11:12:05# 123. lþ. 79.5 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.) frv. 37/1999, Frsm. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[11:12]

Frsm. minni hluta allshn. (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Frv. um breytingu á skaðabótalögum sem hér er til umræðu er þegar á heildina er litið til mikilla bóta enda kemst minni hluti allshn. að þeirri niðurstöðu, eins og segir orðrétt með leyfi forseta, í upphafsorðum álits okkar:

,,Minni hlutinn telur frumvarpið í veigamiklum atriðum og þegar á heildina er litið til verulegra bóta fyrir tjónþola og brýnt að úrbæturnar komist þegar í stað til framkvæmda.``

Miklar deilur hafa staðið um skaðabótalögin á liðnum árum. Gerðar voru breytingar á þessum lögum sem tóku gildi sumarið 1993 og allar götur frá þeim tíma hefur verið deilt um réttmæti laganna eða hvort þar væri byggt á réttum útreikningsstuðlum og á undanförnum árum hefur farið fram mikil vinna til að ráða á þessu bót. Almennt er það mat þeirra aðila sem hafa komið að þessum málum að frv., eins og það liggur núna fyrir, tryggi tjónþolum fullar bætur fyrir fjártjón sem þeir verða fyrir í slysum. Það er á þessum forsendum sem við komumst að þeirri niðurstöðu í minni hluta allshn. að það beri að samþykkja þetta frv.

Hins vegar gerum við nokkrar og það mjög alvarlegar athugasemdir við frv. og teljum mjög brýnt að á því verði gerðar breytingar.

Í 4. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting á 5. gr. laganna að 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði verði dregin frá skaðabótakröfu. Jafnframt leggur meiri hlutinn til þá breytingu á 2. gr. frumvarpsins að frá skaðabótum skuli dregin 60% af greiðslu frá lífeyrissjóði og greiðslu frá sjúkrasjóði. Minni hlutinn mun greiða atkvæði gegn þessari breytingartillögu við 2. gr. og jafnframt leggja til breytingartillögu við 4. gr. þess efnis að greiðslur frá lífeyrissjóðum verði ekki dregnar frá skaðabótum. Iðgjöld launafólks í lífeyrissjóði eru hluti umsaminna launa og réttindin því eign launafólks. Óeðlilegt er að sú eign komi til frádráttar skaðabótakröfum. Í þessu samhengi er rétt að benda á að tryggingar sem keyptar eru á eru á markaði koma ekki til frádráttar.

[11:15]

Hv. talsmaður og formaður allshn. þingsins sagði í sinni framsögu áðan að gagnrýni af þessum toga sem fram hefði komið væri byggð á misskilningi og vísaði þar m.a. til sjúkrasjóðanna og reglugerða eða reglna, starfsreglna, sem um þá giltu eða þeir hefðu sett sjálfum sér. Þannig væri málum háttað að iðulega kæmu ekki greiðslur úr þessum sjóðum fyrr en skaðabætur hefðu verið reiknaðar og hið sama ætti við um lífeyrissjóðina. Þessi gagnrýni er ekki byggð á misskilningi, einfaldlega vegna þess að við erum hér að takast á um prinsippmál. Við erum að tala um grundvallaratriðin. Ég hef sagt að mér finnst það vera til umhugsunar þegar fram líða stundir og þau lög sem við höfum sett um lífeyrissjóði í landinu koma til framkvæmda í reynd, vegna þess að reglur sem eru settar um lífeyrissparnað núna bera ekki ávöxt fyrr en löngu síðar þegar uppsöfnun réttinda hefur átt sér stað, að þá verði litið á það gólf sem slík lög setja öllum þegnum landsins, setja launamönnum jafnt sem atvinnurekendum um tryggingar, um örorkutryggingar, að slíkar greiðslur komi til frádráttar. En þetta er framtíðarmúsík. Eins og málum er háttað nú standa menn mismunandi að vígi og ólíkar kröfur eru gerðar til einstaklinga eftir því hvar þeir hljóta tryggingar sínar. Fyrir þann sem er í lífeyrissjóði og fær sína tryggingu þaðan eða úr sjúkrasjóði kemur sú greiðsla til frádráttar skaðabótakröfunni en fyrir þann sem hefur tryggt sig á frjálsum markaði með einkatryggingu kemur greiðslan ekki til frádráttar. Það er á þessum forsendum sem gagnrýnin er sett fram auk þess sem við sem höfum staðið að þessari gagnrýni lítum svo á að hér sé um eign launafólks að ræða og það eigi ekki að setja þvingun af þessu tagi inn í lögin. Það er því rangt að þetta sé byggt á misskilningi. Hér er um grundvallarafstöðu að ræða.

Minni hluti undir forustu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur leggur fram breytingartillögu við 13. gr. frumvarpsins þess efnis að við mat á miskabótum vegna kynferðisofbeldis verði tekið sérstakt tillit til eðlis og afleiðinga brotsins.

Þá telur minni hlutinn að sú lágmarksviðmiðun árslauna sem fram kemur í 6. gr. frumvarpsins sé of lág. Telur minni hlutinn eðlilegra að miða þar við meðallaun landverkafólks innan ASÍ í stað þeirrar upphæðar sem lögð er til og er nokkru lægri. Til að menn átti sig á þeim upphæðum sem hér er um að ræða er viðmiðunarstuðullinn í frv. 1.200 þús. kr. á ári en var árið 1993 þegar þessar tölur voru settar niður, 1.400 þús. fyrir meðallaun, áætlað var að meðallaun landverkafólks innan ASÍ væru þá 1.400 þús. Þessi tala hefur að sjálfsögðu tekið breytingum með vísitöluhækkunum.

Sú hugsun sem þetta byggir á er að mörgu leyti til bóta frá því fyrirkomulagi sem við höfum búið við. Þetta eru framfarir fyrir láglaunafólkið. Þar hefur verið og er í núgildandi lögum tekið mið af þeim kjörum sem einstaklingurinn býr við og ef þau eru mjög lág má ætla að hann sé hlunnfarinn vegna þess að verið er að bæta áætlað tjón fram í tímann og má ætla að lægst launaða fólkið njóti kjarabóta eftir því sem fram líða stundir. Á þeirri hugsun er búinn til hærri reiknistuðull en nemur raunverulegum launum sem fólk er á. En þetta er eitt af því sem mér og okkur finnst til bóta og sannanlega til hagsbóta fyrir láglaunafólk, þ.e. að setja gólf í frv. að þessu leyti.

Þá vekur minni hlutinn athygli á því að þegar nefndin fjallaði um skaðabótalögin árið 1995 voru miklar deilur milli tryggingafélaganna og Vátryggingaeftirlitsins um hvort og að hve miklu leyti aukinn bótaréttur hefði áhrif á iðgjaldagreiðslur. Þær deilur áttu m.a verulegan þátt í því að mjög hefur dregist að breyta skaðabótalögum til að tryggja tjónþolum sanngjarnar og eðlilegar bætur. Misvísandi upplýsingar komu fram og fólust m.a. í því að tryggingafélögin töldu að þær breytingar sem lágu fyrir mundu leiða til 30--50% hækkunar á iðgjöldum en Vátryggingaeftirlitið taldi að ekki væri þörf á neinni verulegri hækkun iðgjalda vegna breytinga á bótarétti. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af hálfu allsherjarnefndar og endurskoðunarnefndar skaðabótalaganna með atbeina bæði dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra hefur enn ekkert skýrst varðandi iðgjöldin. Þótt meginatriði þessa máls sé að tjónþolar fái sanngjarnar og eðlilegar bætur er það einnig mikilvægt að Alþingi hafi möguleika á að fylgjast með hvort réttarbæturnar geti hugsanlega leitt til breytinga á iðgjöldum, en á það hefur skort að mestu leyti. Með vísan til þróunar þessa hluta málsins og stöðu bótasjóðanna leggur minni hlutinn áherslu á að Fjármálaeftirlitið, áður Vátryggingaeftirlitið, sé þess þörf, beiti ákvæðum 2. mgr. 55. gr. laga um Vátryggingaeftirlit þar sem kveðið er á um að eftirlitið geti með rökstuddum hætti gert athugasemdir ef iðgjöld eru ósanngjörn og ekki í samræmi við áhættu sem í vátryggingum felst.

Ég vil geta þess að undir minnihlutaálit allshn. rita auk mín, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir.

Við leggjum áherslu á að þær brtt. sem við leggjum fram og ég hef gert hér grein fyrir og verður eflaust gerð skýrari grein fyrir á eftir, nái fram að ganga. En þegar á heildina er litið teljum við að hér sé á ferðinni mjög mikilvæg réttarbót sem brýnt er að komist til framkvæmda hið allra fyrsta.