Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 15:57:29 (4399)

1999-03-06 15:57:29# 123. lþ. 79.15 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[15:57]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með það álit sem meiri hlutinn hefur lagt fram um þetta efni og styð það að sjálfsögðu. Í þeirri umræðu sem farið hefur fram um þetta mál hefur ýmislegt komið fram sem skýrir afstöðu stjórnmálaflokkanna og afstöðuleysi einnig. Ljóst er að svokallaðir græningjar eru andvígir veru hersins og setu okkar í NATO meðan Samfylkingin virðist ekki vita í hvorn fótinn hún á að stíga.

Reyndar er mjög athyglisvert að talsmaður þeirra samtaka hafði mjög hástemmdar lýsingar um ágæti tillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og fleiri um að þetta væri mjög tímabær tillaga sem bæri að styðja sem mest. En þegar ég sé álit minni hluta utanrmn. kemst ég að þeirri niðurstöðu að hún megi ekki segja að hún sé á móti hernum heldur sé rétt fyrir hana að þegja yfir því fram yfir kosningar. Að öðru leyti get ég ekki séð annað en að aðrir sem rita undir álit minni hlutans séu löngu yfirlýstir stuðningsmenn veru hersins hér og stöðu okkar í NATO þannig að ég geri ráð fyrir því að þeir muni greiða atkvæði með því að fella tillögu þá sem er til umræðu ásamt Sjálfstfl., sem þýðir að ágreiningurinn innan Samfylkingarinnar er orðinn augljós. Það sjáum við á álitinu sjálfu þar sem segir, með leyfi forseta, orðrétt:

[16:00]

,,Við undirritaðir nefndarmenn teljum nauðsynlegt að fram fari ítarleg og hreinskiptin umræða um stöðu Íslands hvað varðar öryggis- og friðarmál. Við teljum ekki rétt að breytingar verði gerðar á aðild Íslands að NATO á næsta kjörtímabili en viljum stuðla að þeirri þróun, að bandalagið eigi sem mesta samleið með stofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum og ÖSE.``

Ég er ekki alveg viss um hvað þetta þýðir og mundi gjarnan vilja spyrja hv. frsm. minni hlutans, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem er hér í salnum og heiðrar okkur með nærveru sinni: Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir svona orðalag? Þýðir þetta að flutningsmenn vilji frekar að við verðum utan NATO en styðjumst við samþykktir Sameinuðu þjóðanna og látum þær nægja? Og við gætum þá stutt okkur við allar þær þjóðir sem þar eru og gætum svo verið í einhverjum svona klúbbi með ÖSE sem yrði væntanlega til þess að fylgjast með hvernig þróun heimsmálanna mundi verða á hverjum tíma. Við tækjum sem sagt alls ekki þátt í NATO-aðild til framtíðar.

Mér finnst sú setning segja okkur það að þessir hv. þingmenn vilji að við göngum úr NATO, þó það verði ekki á næsta kjörtímabili.

Einnig segir í nál. þeirra þremenninga þar sem þeir skírskota til nál. meiri hlutans, með leyfi forseta:

,,Þar eru kaldastríðsviðhorfin enn þá efst á baugi og umræðan fer fram eins og engar breytingar hafi orðið í heiminum frá sjötta og sjöunda áratugnum.`` (ÖS: Eins og þú ert að tala.)

Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á umsvifum hersins, það hafa allir séð. Þess vegna hafa bókanir og samþykktir verið til umræðu og hafa verið í skjölum utanrrn. í umræðum hér á Alþingi í gegnum árin, sífellt er verið að breyta stöðu varnarliðsins og umsvifum þess, vegna þess að ástand heimsmála er að breytast. Staða okkar í NATO hefur einnig breyst og staða NATO í umheiminum hefur einnig breyst gríðarlega út af því að ástand í heiminum er að breytast. (ÖS: Það hefur allt breyst í mannkyninu.) Þess vegna hefur ekki þurft á svona yfirlýsingum að halda því að ríkisstjórn á hverjum tíma fylgist með.

Í þriðja liðnum kemur fram hjá hv. þingmönnum, með leyfi forseta:

,,Um dvöl varnarliðsins og framtíð herstöðvarinnar er ágreiningur sem teygir sig inn í alla stjórnmálaflokka ...``

Ég vil spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson, frsm. þessa álits, hvar hann hafi heyrt að ágreiningur væri um varnarstefnuna innan Sjálfstfl. Ég kannast ekki við það að Sjálfstfl. hafi verið klofinn í afstöðu sinni til hersins eða til aðildar okkar að NATO. Mér finnst þarna koma fram fullyrðing sem ég get a.m.k. ekki séð að standist.

Síðan segja hv. þingmenn, með leyfi forseta:

,,Áður en viðræður verða teknar upp við Bandaríkjastjórn árið 2000`` --- það er sem sagt gert ráð fyrir að viðræður verði hafnar árið 2000 --- ,,um framkvæmd varnarsamningsins, en bókun þar að lútandi fellur úr gildi árið 2001, er brýnt að fram fari ítarleg úttekt á öryggismálum landsins og framtíð alþjóðaflugvallarins í Keflavík.``

Þarna komum við enn að þessu máli. Það á að fara fram einhver úttekt. Í hverju á sú úttekt að felast? (ÖS: Utanrrh. segir ykkur það.) Þessi setning um ákvörðun um úttekt var löngu komin fram frá Samfylkingunni áður en skýrsla utanrrn. kom fram í umræðum hér fyrir nokkrum dögum. Sú hugmynd kom fram hjá Samfylkingunni í fyrrahaust þannig að þeir hljóta að hafa mótað þær hugmyndir sínar eftir einhverju öðru en skýrslu utanrrh. sem kom fram fyrir nokkrum dögum.

Ég spyr því hv. þm.: Hvað meinar minni hlutinn í rauninni með þessu? Það er sem sagt meining minni hlutans, eftir því sem ég skil, að semja um það fyrir árið 2001 að herinn fari. Eða er það kannski ekki? Ég bara spyr. Og ég segi, herra forseti: Það er ekki verjandi fyrir stjórnmálaafl eins og Samfylkinguna að bera á borð fyrir fólk svona stefnu í varnar- og öryggismálum þjóðarinnar. Enginn veit hvað þeir ætla sér að gera. Og ef þeir veigra sér við það fram yfir kosningar að svara þessum spurningum þá get ég ekki ímyndað mér að fólk treysti því að hægt sé að vinna með mönnum eða stjórnmálaöflum sem geta ekki svarað skýrar en þetta, þrátt fyrir það að ég viti að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur haft nokkuð ákveðna skoðun í þessu máli.

Herra forseti. Ég verð líka að segja að gagnvart því fólki sem vinnur hjá varnarliðinu suður með sjó er ekki boðlegt að það eigi ekki að geta vitað meira um framtíð sína, þá er ég að tala um lífsviðurværið, þ.e. vinnu sína, að það sé í einhverju limbói hjá stjórnmálaflokkum hvort það er með vinnu eða ekki vinnu vegna ráðleysis manna, skulum við segja, sem vilja helst alltaf bera kápuna á báðum öxlum og taka þar með aldrei afstöðu til mála sem teljast viðkvæm. Það kemur miklu heiðarlegri afstaða fram hjá græningjum því þeir segja hreinlega að herinn eigi að fara og þeir vilji fara úr NATO.

Herra forseti. Ég held að allir viti bornir menn sjái í gegnum þennan hráskinnaleik þeirra samfylkingarmanna og að sjálfsögðu treystir fólk Sjálfstfl. einum til að fara með málaflokk sem þennan, enda hefur Sjálfstfl. sýnt frá upphafi að þar hefur aldrei ríkt neitt stefnuleysi eða hik í þeim málum, sem betur fer, og eftir því sem manni sýnist verður það áfram að fólk treystir Sjálfstfl. best til að stjórna landinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera með miklu lengra mál um þetta efni en vil að lokum segja, eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að auðvitað vilja allir í hjarta sínu að engan her þurfi og auðvitað viljum við að öll dýrin í skóginum séu vinir. En það hefur bara því miður í dómi sögunnar verið dæmt til að mistakast að hafa það lífsviðhorf, a.m.k. fram að þessu og þess vegna getum við ekki séð það á næstu fjórum árum eða á næstu árum að ekki þurfi ábyrga varnarstefnu hjá Íslendingum eins og öðrum. Við verðum ekki í þeirri stöðu í fyrirsjáanlegri framtíð að geta tekið þá áhættu að ganga úr NATO eða leika okkur með samninga við varnarliðið um setu þess hér.