Álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 11:32:35 (4417)

1999-03-08 11:32:35# 123. lþ. 80.11 fundur 359. mál: #A álagning skatta vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga# (breyting ýmissa laga) frv. 29/1999, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[11:32]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta fylgifrv. með frv. um alþjóðleg viðskiptafélög felur í sér þau sérkjör eða vildarkjör í skattalegu tilliti sem hinum alþjóðlegu viðskiptafélögum eiga að bjóðast hér. Þar er um að ræða allt önnur og til muna hagstæðari skattakjör en nokkur önnur fyrirtæki eða atvinnulífið almennt á Íslandi eiga kost á, a.m.k. enn um stundir.

Ég er andvígur þessum sérstöku vildarkjörum. Ég tel að þetta sé afturför og tímaskekkja á sama tíma og á alþjóðavettvangi er verið að reyna að útrýma skattagötum og holum og lágskattaparadísum af þessu tagi og það er þróun sem menn stæra sig almennt ekki sérstaklega af að vera að reyna að lokka til viðskipti með þessum hætti.

Í Karíbahafinu er allmikið um lönd og lýðveldi jafnvel sem hafa gert sérstaklega út á þessa iðju og stjórnarfarið í þeim löndum er stundum kennt við tiltekinn ávöxt, bjúgaldin hygg ég að að heiti á góðri íslensku, eða banana. Ég sé það ekki, herra forseti, sem sérstakt keppikefli íslenska lýðveldisins rúmlega fimmtugs að aldri að keppa að því stjórnarfari og því efnahagsástandi sem þar er við lýði.