Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 20:57:19 (4460)

1999-03-08 20:57:19# 123. lþ. 81.1 fundur 327#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 123. lþ.

[20:57]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Öðru kjörtímabili undir forsæti Davíðs Oddssonar og Sjálfstfl. er að ljúka. Á þeim átta árum sem liðin eru frá því Sjálfstfl. og Alþfl. mynduðu ríkisstjórn á vordögum 1991 hefur mikið vatn runnið til sjávar og miklar breytingar orðið á samfélagi okkar. Og á þeim varð ekkert lát þótt Framsfl. tæki að sér hlutverk kratanna sem samstarfsflokkur Sjálfstfl. árið 1995, fyrir nær fjórum árum.

Þjóðfélagið hefur breyst og því hefur verið breytt og það er hér í þessum sal, á Alþingi Íslendinga, sem breytingunum hefur verið stýrt. Hér hafa lögin verið smíðuð og hér hafa þau verið samþykkt. Lögin sem þrengdu að réttindabaráttu launafólks og skertu kjörin. Lögin sem í einu vetfangi tóku 500 millj. frá barnafólki árið 1992, og síðan aftur og ítrekað, nú síðast fyrir tveimur árum. Og það var hér á Alþingi sem samþykkt var að tekjutengja grunnlífeyri aldraðra, og síðar aftengja bætur og laun, nokkuð sem hefur rýrt kjör aldraðs fólks og öryrkja verulega. Að sjálfsögðu var það einnig hér sem ákveðið var að ráðast í umfangsmestu peningatilfærslu síðari áratuga þegar byrðar almennings voru þyngdar með skattheimtu og gjöldum svo ríkisstjórnin gæti þjónað umbjóðendum sínum sem best, lækkað tekjuskatta þeirra fyrirtækja sem möluðu gullið og skatta af arðgreiðslum peningafólksins. Öll þessi lög voru smíðuð hér. Þess vegna skiptir máli hverjir sitja á Alþingi og hvernig þeir haga sér, hvort sem er í stjórnarandstöðu eða í ríkisstjórn.

Það þarf ekki mörg orð um ríkisstjórnir Sjálfstfl. á þessum áratug. Hvarvetna blasir misskiptingin við. Annars vegar er fátækasti hluti þjóðarinnar í biðröðum hjá hjálparstofnunum. Á hinn bóginn eru það hinir sælu menn mammons sem aldrei hafa litið fegurri dag. Einn kaupir lóð á 700 millj. og borgar út í hönd, annar verksmiðju á 1,2 milljarða. Einnig hann greiðir út í hönd. Einn eða tveir framsóknarmenn kvaka í vetrarkyrrðinni. Okkur heyrist þeir segja að það hafi ekki verið þetta sem þeir meintu þegar þeir gengust íhaldinu á hönd. En nú duga blekkingar skammt. Það þýðir ekki að segja fólki sem ekki hefur lengur efni á að kaupa húsnæði, fólki sem er vísað á leiguhúsnæði sem er ekki til, að húsnæðiskerfið hafi stórbatnað. Þetta veit þjóðin að er rangt.

[21:00]

En veit hún hvílíkt ábyrgðarleysi þessi ríkisstjórn sýnir í virkjunar- og stóriðjumálum? Það er vissulega gleðilegt að fram skuli koma áform um vetnisframleiðslu því að hún opnar ýmsa möguleika. Hafi allir þökk sem hlut eiga að máli. En gera menn sér grein fyrir því að á sama tíma og það er að renna upp fyrir mönnum sem best hafa rannsakað þessi mál að sú orka sem beislanleg er á Íslandi gerir lítið meira þegar til framtíðar er horft en sinna þörfum þjóðarinnar --- takist okkur að umbreyta orkunni til að knýja farartæki til sjós og lands og til iðnaðar- og heimilisnota --- á sama tíma og þetta er framsýnum mönnum ljóst, er ríkisstjórnin að bjóðast til að binda jafnmikla orku og við nú notum í landinu öllu, til allra heimila í landinu og allra fyrirtækja í landinu, eða ígildi hennar til áratuga hjá einu erlendu stórfyrirtæki, Norsk Hydro?

Nú spyr ég: Hverjir eru líklegir til að standa í fæturna í þessu máli og gæta hagsmuna þjóðarinnar, fjöreggsins og hverjir munu best standa vörð um íslenska náttúru? Að mínum dómi eru það þeir sem nú eru að skipa sér undir merki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég er ekki einn um þá skoðun. Það velkist enginn í vafa um hverjir það eru sem hafa skýra stefnu á þessu sviði sem öðrum og eru líklegir til að fylgja henni eftir

Síðast fyrir fáeinum dögum heyrði ég einn frambjóðanda kratanna, Samfylkingarinnar, segja að vissulega væri fólgin í því trygging í nútíð og ekki síður þegar litið væri til framtíðar að hafa vinstri andófsflokk með stefnu og sannfæringu í umhverfismálum. Og það er rétt. Við munum andæfa þegar þörf er á slíku.

En við erum ekki flokkur framtíðarinnar vegna þess eins að við þorum að hafa skoðun og fylgja henni eftir þótt á móti blási. Við erum flokkur framtíðarinnar vegna þess að við höfum stefnu og hugmyndir sem eru uppbyggilegar og bjóða þegar að er gáð upp á raunhæfar lausnir á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir, í umhverfismálum, skattamálum, málefnum öryrkja og aldraðra, atvinnulausra, í byggðamálum og atvinnumálum. Hverjir skyldu hafa komið fram með raunhæfustu byggðatillögurnar? Hverjir létu sér ekki nægja að andæfa lögum ríkisstjórnarinnar um gagnagrunn á heilbrigðissviði heldur settu fram ítarlega og úthugsaða stefnu sem fékk góðan hljómgrunn hjá vísindasamfélaginu og samtökum sjúklinga? Hverjir skyldu vera líklegastir til að taka skynsamlega á kvótakerfinu í þágu byggðanna, þeir sem tala og tala eða við sem setjum fram tillögur um byggðakvóta til að koma í veg fyrir að byggðarlög séu svipt lífsviðurværinu, tillögur um vistvænar smábátaveiðar, um bann við leigubraski á kvóta og kröfu um að gera braskkvótann upptækan?

Í komandi kosningum verður spurt hverjir þori að hafa skoðun á utanríkismálum, vilji ekki ganga erinda hernaðarbandalags, hafa erlendan her í landi sínu eða afsala sjálfstæði þjóðarinnar. Það verður spurt hverjum sé treystandi til að ráðast í raunhæfar og sanngjarnar skattkerfisbreytingar sem bæta stöðu launafólks, rétta stöðu aldraðra og allra þeirra hópa í þjóðfélaginu sem þurfa að treysta á löggjafann um kjör sín. Það verður spurt hverjum sé treystandi til að koma fram eins í dag og á morgun. Hverjir það eru sem hafa dregið baráttufánann að húni. Hverjir villa ekki á sér heimildir eða sigla undir hentifána, heldur alltaf réttum fána, fána Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. --- Góðar stundir.