Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 10:53:04 (4488)

1999-03-09 10:53:04# 123. lþ. 82.92 fundur 334#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[10:53]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Þó að þessi umræða fjalli um störf þingsins þá kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á því um hvað þetta mál fjallar sem ég er að óska eftir að verði tekið til umræðu.

Tugir manna eru nú að missa vinnu sína í landvinnslu víða úti á landi vegna hráefnisskorts. Vertíðarflotinn okkar íslenski er að deyja vegna skorts á aflaheimildum. Vertíðinni verður ekki frestað. Það frv. sem hér er um að ræða er eina tillagan sem fyrir Alþingi liggur í þessu máli og ég trúi því ekki að þingmeirihlutinn ætli að ljúka störfum á Alþingi án þess að taka afstöðu til einu tillögunnar sem fyrir liggur um að koma í veg fyrir neyðarástand í sjávarplássunum hringinn í kringum landið.

Virðulegi forseti. Ég mun athuga það í dag hvort ekki sé rétt að ég beiti ákvæðum í þingsköpum sem heimila þingmanni að leggja fram dagskrártillögu á þingfundi um að mál skuli tekið á dagskrá á næsta þingfundi sem verður eftir þann þingfund sem tillagan er lögð fram. Þá mun líka koma í ljós efnisleg afstaða þingmanna, þar á meðal þingmanna stjórnarliðsins, til þess hvort þeir ætla sér virkilega að koma í veg fyrir afgreiðslu einu tillögunnar sem fyrir Alþingi liggur um þetta mál. Efnislega afstöðu munu þeir taka þegar þeir greiða atkvæði um slíka dagskrártillögu komi hún fram.