Hvalveiðar

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 20:32:20 (4563)

1999-03-09 20:32:20# 123. lþ. 82.18 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, HG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[20:32]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Megintilefni þess að ég bað um orðið öðru sinni í þessari umræðu var að ég vildi gjarnan fá nánari upplýsingar frá hv. formanni utanrmn., Tómasi Inga Olrich, varðandi umfjöllun nefndarinnar og afstöðu til þessa máls. Ég vænti þess að hv. þm. sé viðstaddur því að hann vissi um það fyrr í dag að það stóð til.

(Forseti (ÓE): Forseti hefur gert ráðstafanir til að náð verði sambandi við hv. þm. Tómas Inga Olrich. Hann er ekki kominn í hús.)

Virðulegur forseti. Á meðan mundi ég kannski fara fáeinum orðum um vissa þætti málsins sem ástæða er til þó að flest hafi komið fram af minni hálfu sem ég ætlaði að víkja að. Mér sýnist að það hafi komið mjög skýrt fram í þessari umræðu að í undirbúningi málsins eru margháttaðar brotalamir af hálfu meiri hluta sjútvn. Það er verið að leggja til að hefja hið fyrsta hvalveiðar án þess að búið sé að lýsa inn í mjög mikilvæga þætti málsins. Ég hef vakið athygli á því að hér er ekki eingöngu um að ræða líffræðilegt mat á styrk hvalastofna heldur ekki síður þá efnahagslegu og viðskiptalegu þætti sem málinu tengjast og hina samningstæknilegu stöðu málsins með tilliti til alþjóðasáttmála sem Ísland er aðili að og skuldbindinga, m.a. í sambandi við hafréttarsáttmálann og Alþjóðahvalveiðiráðið sem Ísland er ekki lengur aðili að. En íslensk stjórnvöld fylgjast með störfum þess og hafa að því er best verður séð ætlað sér að nýta Norður-Atlantshafsspendýraráðið NAMMCO sem bakhjarl til þess að taka ákvarðanir um úthlutun á veiðikvóta á hvölum. En það er dregið mjög í efa að geti gengið og fái staðist. Það kom m.a. skýrt fram í máli starfandi hæstv. sjútvrh., Björns Bjarnasonar, sem gegnir fyrir Þorstein Pálsson þessa dagana, að hann teldi að NAMMCO væri engan veginn sú fótfesta fyrir úthlutun á kvóta til veiða á hvölum sem þörf væri á. Viðkomandi hæstv. ráðherra er mjög eindreginn stuðningsmaður þess, og hefur verið það frá 1991, að Ísland gengi í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ef til vill voru andmæli hans við úrsögnina upphaflega, en þetta hefur síðan komið fram og hér kom fram fyrr í umræðunni að innan ríkisstjórnarinnar er ekkert sammæli um það að Ísland gangi á nýjan leik í Alþjóðahvalveiðiráðið og noti það sem vettvang til þess að afla fylgis við hvalveiðar.

Þetta eru afar skýrar brotalamir, virðulegur forseti, og ég átta mig alls ekki á þeim málflutningi sem hér er uppi hafður, að þingið eigi við þessar aðstæður að taka grundvallarafstöðu til þess að hefja hvalveiðar hið fyrsta eins og hér er lagt til. Það er nauðsynlegt að þessi alþjóðlega staða sé sem skýrust áður en ákvarðanir verða teknar um hvalveiðar svo að menn viti inn í hvaða samhengi verið er að tala.

Hitt skiptir ekki minna máli að átta sig á því hvað eigi að gera við afurðirnar ef stjórnvöld ákveða veiðar (Gripið fram í: Borða þær.) og einnig þar varð fátt um svör hjá starfandi hæstv. sjútvrh. Ekkert liggur fyrir í því efni af hálfu framkvæmdarvaldsins. Þó er alveg ljóst að miklar hindranir eru í vegi þess að hefja útflutning á hvalkjöti og takmörk fyrir því hvað Íslendingar fengju torgað af þeirri vöru þó að eflaust yrði það nokkuð, kannski afurðir af nokkrum hrefnum. Fullyrt er, virðulegur forseti, að slíkt kjöt og afurðir séu raunar á markaði hérlendis án þess að ég viti meira um það mál. En þetta heyri ég. Þá er það fram hjá opinberum reglum eða án þess að um úthlutun á veiði sé að ræða. Það skiptir minnstu máli í þessu sambandi þó að þetta kunni að bera við og er ekki umræðuefni hér sérstaklega.

Ég ítreka það sem er afstaða mín til þessa máls að ég tel ekki neinar forsendur fyrir því að Alþingi fari að álykta um málið í þá veru sem hér liggur fyrir tillaga um og get ekki stutt það. Ég óttast framhaldið ef þessi tillaga verður samþykkt, að það verði áframhaldandi óvissa, vandræðagangur og togstreita hér innan lands um hvað eigi að gera, en að af samþykktinni geti hlotist margháttaðir erfiðleikar í alþjóðlegu samhengi fyrir Ísland vegna þess að við vitum auðvitað að á brattann er að sækja í sambandi við hvalveiðar á alþjóðavettvangi.

Virðulegur forseti. Ég hef minnt á að Ísland er í erfiðri stöðu í alþjóðlegu samhengi umhverfismála þar sem um er að ræða samninginn um loftslagsbreytingar þar sem við stöndum einir iðnríkja án þess að hafa undirritað Kyoto-bókunina við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Sjónir umheimsins beinast að okkur í því samhengi og ef við bætist yfirlýsing hér um að Ísland ætli sér að hefja hvalveiðar á ný og forsendur eru í rauninni jafnóskýrar og þær eru fyrir slíkri ákvörðun, þá er ég ansi hræddur um að það þyngist undir fæti í sambandi við mörg önnur mál á vettvangi umhverfismála þar sem Ísland hefur ætlað sér að ná árangri. Minni ég í því sambandi á samningaviðræður sem eru hafnar um gerð alþjóðlegs samnings til verndar hafinu og varnar gegn mengun hafsins og reyndar lands um leið af völdum þrávirkra lífrænna efna. Undirbúningsfundir eru hafnir og samningaviðræður hefjast af fullum krafti væntanlega á næstu mánuðum um það mjög svo mikilsverða mál. Því er engan veginn hægt að líta á þetta mál eitt og sér og einangrað þó að skiljanlegt sé að allmargir horfi til þess að á verði látið reyna í þessu máli sem hefur verið jafnlengi á dagskrá.

Hér hefur komið til umræðu af tilefni framsögu nál. meiri hluta sjútvn. að við séum að brjóta einhvern múr sem hafi verið reistur með samþykkt Alþingis um að mótmæla ekki ekki ákvörðun um tímabundið bann við hvalveiðum 1982--1983. En ég hef bent á það og fleiri í þessari umræðu að sú ákvörðun var tímabundin og hefur ekki gildi lengur. Íslendingar hófu á þessu tímabili vísindaveiðar eins og menn muna eða veiðar í rannsóknarskyni, öfluðu merkilegra gagna í krafti þeirra veiða og auðvitað eru ákveðin rök fyrir því að halda rannsóknum áfram á þessum stofnum, þessum mikilvægu þáttum í lífkerfi hafsins. En eftir sem áður er þörf á að fara með fullri gát.

Inn í þessa umræðu hefur tvinnast spurningin um samkeppni um afurðir vistkerfa hafsins, þ.e. samkeppni mannsins við hvalinn um nytjastofna. Það er einnig mál sem full þörf er á að lýsa inn í. En þar er þekking mjög takmörkuð þó að nokkuð hafi verið af því gert að spá í það samhengi.

Ég hef varað ítrekað við því og geri það enn að líta svo á að við séum nokkuð nálægt því að geta ætlað okkur að stjórna vistkerfi hafsins í heild sinni en það má raunar skilja af málflutningi sumra að menn líti svo á að við getum af einhverju viti tekið ákvarðanir um að taka svona mikið af einni tegund og svo mikið af annarri og það sumpart með tilliti til þess hvað við viljum hafa upp úr þeim stofnum sem mikilsverðastir eru í okkar sjávarafla. Málin liggja ekki þannig. Þó að ljóst sé að vöxtur og viðgangur hvala geti haft áhrif á heildarafrakstur, þá er mikil einföldun að setja málin upp eins og sumir gera í þessari umræðu. Við höfum heyrt þessu haldið fram um um árabil, m.a. af hæstv. núv. utanrrh. sem hefur klifað mjög á þessum sjónarmiðum langt umfram það sem vísindaleg þekking í rauninni leyfir. Það sama mátti heyra í umræðunni fyrr í dag hjá hæstv. ráðherra Birni Bjarnasyni sem taldi að tiltölulega auðvelt væri að afla skilnings á sjónarmiðum Íslands að þessu leyti með vísan til þessarar samkeppni mannsins við hvalina í höfunum.

Þetta eru ákveðin mikilvæg atriði í þessu samhengi. Eftir stendur, virðulegur forseti, að meginerindi mitt í ræðustól öðru sinni í þessari umræðu var einmitt að beina fyrirspurnum til hv. formanns utanrmn. sem í þessum töluðu orðum gengur í þingsal. Því ætla ég að snúa mér að því að beina fyrirspurnum til hv. formanns utanrmn.

Í nál. meiri hlutans er vísað til afstöðu utanrmn. sem fengið hefði fyrirspurn frá sjútvn. Þetta er orðað svona á þskj. 1018 í beinu framhaldi af því að taldir eru upp þeir sem gáfu umsagnir um málið. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Tillagan var einnig send utanríkismálanefnd til umsagnar og gerir hún ekki athugasemdir við þingmálið eftir athugun á því.``

Þetta hefur verið marglesið og einnig vitnað til af hv. frsm. meiri hluta sjútvn. í málinu og vitnað var til bréfs frá utanrmn. Ég vil beina þeirri almennu spurningu til þingheims hvernig menn skilji þessa tilvitnun í nál.

,,Tillagan var einnig send utanríkismálanefnd til umsagnar og gerir hún ekki athugasemdir við þingmálið eftir athugun á því.``

Mér varð á að lesa þannig í þennan texta að hv. utanrmn. hafi fjallað um málið og geri ekki athugasemdir við þingmálið. Það skil ég þá þannig að nefndin lýsi efnislegu fylgi við þingmálið á þskj. 92, þ.e. frumtillöguna sem við ræðum hér, svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1999 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Sjávarútvegsráðherra er falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga.``

Þetta er frumtillagan í málinu sem liggur hér fyrir og þetta er þingmálið sem hv. utanrmn. gerir ekki athugasemd við. Mér er hins vegar orðið ljóst af viðræðum við hv. formann utan ræðustóls að þetta er ekki skilningurinn eins og hann birtist, en það mun skýrast í umræðunni á eftir. Ég tel mikils virði að það verði ljóst um hvað þessi yfirlýsing hv. utanrmn. er, bréfuð 7. desember til formanns sjútvn., svohljóðandi:

,,Vísað er til bréfs sjútvn. frá 27. nóvember sl.

Á fundi utanrmn. 4. desember var fjallað um 92. mál, hvalveiðar. Fékk nefndin til fundar við sig Helga Ágústsson, ráðuneytisstjóra utanrrn., og Tómas H. Heiðar, aðstoðarþjóðréttarfræðing ráðuneytisins. Á fundinum komu ekki fram athugasemdir um þingmálið.``

Þetta er undirritað af formanni utanrmn. Nú eiga margir valinkunnir hv. þingmenn sæti í utanrmn. og það sætir út af fyrir sig nokkurri furðu, að mér finnst, ef menn hafa ekki haft athugasemdir fram að færa í þessu mikla álitamáli. Eins og það birtist hér og mun verða túlkað af þeim sem ekki hafa textaskýringar, þá er nefndin í rauninni að taka ábyrgð á málinu eða taka undir málið eins og það liggur fyrir á frumskjalinu, þáltill.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að þetta verði ljósara af andsvari eða ræðu formanns utanrmn. og skiptir það máli. Fyrr í umræðunni talaði formaður nefndarinnar. Hann flutti nokkurt mál og býsna skýrt. Út úr því las ég í rauninni allskýra andstöðu, bæði efasemdir og í raun andstöðu við tillöguna eins og hún liggur fyrir og það var þetta sem ekki rímaði saman að mér þótti, þ.e. þessi yfirlýsing í nál. og bréfið frá utanrmn. og sú afstaða sem hv. þm. túlkaði hér. Þó ég vilji ekki fullyrða að það hafi verið tengt með neinum beinum hætti í nefndinni, þá er erfitt að greina á milli í svo mikilsverðu máli sem utanrmn. hefur fjallað um.

Skal ég svo ekki orðlengja þetta, virðulegur forseti.