Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Þriðjudaginn 09. mars 1999, kl. 22:07:40 (4587)

1999-03-09 22:07:40# 123. lþ. 82.23 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 123. lþ.

[22:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Menn geta út af fyrir sig ráðið því hvort hér sé rætt um einkunnagjöf eða ekki. Það voru að sönnu mín orð. En ég held að mjög skelegg og réttmæt lýsing hv. þm. á gangi mála og athafnaleysi hv. þingmanna Austurl. í hópi stjórnarliða sé auðvitað veruleikinn sem við okkur blasir. Lái mér hver sem vill þegar dreg þær ályktanir af þeirri lýsingu að nánast sé um falleinkunn að ræða, því að veruleikinn talar þar sínu máli.

Auðvitað gengur það ekkert, herra forseti, með fullri virðingu fyrir hv. 1. þm. Austurl. sem situr hér í forföllum hæstv. utanrrh. og varaforsrh., að reyna að skella allri skuldinni á hæstv. samgrh. Auðvitað verður maður var við það, og ég ætla að gera það að umtalsefni í ræðu minni á eftir, hvernig þessi mál ganga fyrir sig á milli stjórnarflokkanna nú á liðnum dögum og vikum. Það er kapítuli út af fyrir sig. En í þessum efnum held ég að tæplega verði skilið á milli stjórnarflokkanna í því að einkunn þeirra í báðum flokkum sé falleinkunn hrein og klár. Þess vegna eru þau orð svo eftirtektarverð sem hv. þm. Jónas Hallgrímsson hefur látið hér falla. Ég segi það bara, herra forseti, að ég ætla að fá útskrift af þessu á eftir og faxa þetta ,,omgående`` heim í hérað til hans, til þeirra sem gagn geta haft af.