Hvalveiðar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 11:03:46 (4662)

1999-03-10 11:03:46# 123. lþ. 83.5 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, GHelg (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[11:03]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Íslendingar áttu ómældan þátt í gerð hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og var þar margra ára vinna ýmissa mætra Íslendinga landi og þjóð til sóma. Nægir að nefna fyrrv. hv. þingmenn Eyjólf Konráð Jónsson, Lúðvík Jósepsson, Gunnar G. Schram auk Hans G. Andersens fyrrverandi sendiherra. Íslendingar undirrituðu og staðfestu síðan sáttmálann og skipuðu sér þar með í sveit þeirra þjóða sem vinna vildu í sameiningu að verndun lífríkis hafsins og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Í 65. og 120. gr. samningsins er sérstaklega fjallað um hvalastofnana sem sameiginlega auðlind þjóðanna og kveðið á um að hún skuli ekki nýtt nema í samráði við til þess bærar alþjóðastofnanir. Alþjóðahvalveiðiráðið lagði til að hvalveiðar yrðu bannaðar árin 1986--1990 svo að hvalveiðiþjóðir fengju þrjú og hálft ár til aðlögunar. Alþingi samþykkti árið 1983 að mótmæla ekki banninu.

Umdeildar hvalveiðar í vísindaskyni hófust þó og ollu þjóðinni miklum skaða, jafnt fjárhagslegum með hruni á fiskmörkuðum sem og álitshnekki á alþjóðavettvangi. Ráðleysið endaði svo með því að Íslendingar sögðu sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Ég varaði við þessari meðferð málsins þá og ég geri það enn. Afleiðingar vanhugsaðra aðgerða stjórnvalda eru þær að ekki er enn farið að veiða úr stofnum sem ástæða væri til að nýta, svo sem hrefnustofninum. Meðan Íslendingar standa utan Alþjóðahvalveiðiráðsins er í hæsta máta óviturlegt að hefja hvalveiðar nú í trássi við hafréttarsáttmálann. Ég segi því nei, herra forseti.