Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 15:41:49 (4712)

1999-03-10 15:41:49# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[15:41]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekkert að fara að leita að endanum í þessu máli, upphafinu. Það var rætt mikið hér í fyrra. Ég held að talsmenn Alþfl., þ.e. þeir sem tengjast þeim flokki sem er nú að hverfa, ættu ekki mikið að vera að leita að þeim enda, upphafi þess máls sem hér er verið að setja í form. Ég segi það í fullri vinsemd.

Ég tel að það væri meira heldur en tvísýnt, að það væri mjög varhugavert, að ætla sér að leggja útlínur þessara mála hálendisins í hendur þess þings sem er skipað eins og hér hefur verið að undanförnu, sem hefur hagsmuni orkuiðnaðar í fyrirrúmi en verndarhagsmunina í skutnum. Það eru forsagnir sem ég vil ekki kalla eftir.

Ég held að menn gerðu rétt í því að setja sig inn í þá svæðisskipulagsvinnu og tillögur sem fyrir liggja og hvernig þrátt fyrir allt hefur tekist að ná fram áherslum sem eru í raun mun skárri --- ég segi ekki meira en skárri --- en hefði mátt vænta ef farin hefði verið sú leið sem hér er verið að vísa á. Það er mitt mat í þeim efnum og ég tel að við þurfum að gæta þeirra ávinninga sem þrátt fyrir allt hafa náðst, um leið og við auðvitað þurfum að sækja fram.

Hv. þm. nefndi að gífurlegir hagsmunir og auðlindir væru á hálendinu. Það eru einmitt þessar auðlindir og efnahagsleg nýting þeirra sem ríkisvaldið hefur ríka tilhneigingu til þess að halda utan um og halda til haga. Jafnsterkur og orkuiðnaðurinn hefur verið fram undir þetta, þá sýnist mér að það væri nokkuð ljóst hvar sá reipdráttur hefði endað sem hæfist í ráðuneytunum við Austurvöll. Mér líst því ekki á blikuna varðandi þessa aðferð.

Auðvitað getum við vænst annars landslags í pólitík sem drægi aðra línu. Ég hlustaði mjög grannt á áherslur manna hér í fyrra og mér fannst að sumir þeir sem nú tengjast Samfylkingunni væru því miður ekki með verndarhagsmunina mjög ofarlega í huga.