Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 18:59:17 (4742)

1999-03-10 18:59:17# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[18:59]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég álít að aðalskipulagstillaga sveitarfélags sé rétthærri og gildi meira. Það er mín skoðun. Komi það upp að um þetta náist ekki samkomulag þá er ráðherrann auðvitað úrskurðaraðilinn í þessu máli eins og fjölmörgum öðrum. Málið hlýtur að koma til ráðherrans til endanlegs úrskurðar ef ekki næst það samkomulag sem æskilegt er og nefndinni ber að leita eftir að ná fram.

Aðalskipulag er það skipulag sem hefur réttinn samkvæmt lögunum. Svæðisskipulag, hvar sem það gildir, hvort það á við miðhálendið eða er svæðisskipulag norðan Skarðsheiðar eða sunnan Skarðsheiðar, í Eyjafirði eða annars staðar, er auðvitað aðallega í grófum dráttum útlínur. Þar er verið að leggja meginplön að því skipulagi, að þeirri landnýtingu sem menn ætla sér að viðhafa. Síðan tekur aðalskipulagið við og skráir í smáatriðum eða nánar --- kannski ekki í smáatriðum. Það kemur í deiliskipulaginu --- hvernig landnotkunin er. Þetta er það ferli sem byggingar- og skipulagslögin gera ráð fyrir. Ég hef ekki skilið það svo að hér væri verið að bylta því formi. Það var ekki í því frv. sem ég lagði fram og er náttúrlega ekki í brtt. heldur. Ég hef ávallt undirstrikað það í þessum umræðum öllum að ekki er verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum. Það hefur alla tíð verið skýrt í mínum huga.