Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:45:25 (4794)

1999-03-10 22:45:25# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:45]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég býst við að þessi hækkun á lífeyri, um 10 þús. kr. á mann, kosti eitthvað á fjórða milljarð. Ég er þó ekki með þessa tölu (Gripið fram í.) vísindalega reiknaða, en bendi á að á síðasta kjörtímabili var kaupmáttur lífeyris skertur verulega. Hann hefur hækkað núna.

Varðandi það hvað gerðist á þessu árabili þá reyndi ég að draga fram í svörum mínum áðan að það hafa orðið svo miklar framfarir í meðferð og Bláa lónið sem hefur dugað fyrir mjög marga hefur komið til sögunnar. Það kom mér á óvart að fá þær upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins, frá siglinganefndinni, að engar umsóknir bárust 1997. Mér finnst það mjög ankannalegt og kann ekki skýringar á því. En þær upplýsingar sem ég hef sýna að ekki hafa borist umsóknir þá.

Ég ítreka það sem ég sagði fyrr að það er miklu faglegar gert að gera þetta svona heldur en að láta pólitískt skipað tryggingaráð sem Alþingi skipar taka ákvörðun um hve margir fara, í staðinn fyrir að láta fimm lækna gera það sem fá umsagnir og álit annars húðlæknis ef þeir eru í vafa. Það er miklu faglegra að láta það sama ganga yfir alla.

Núna eru til miklu betri úrræði í loftslagsmeðferð og meðferð fyrir psoriasissjúklinga en fyrr. Það er því ekkert réttlæti í öðru en að þetta sé gert á þennan hátt. En að sjálfsögðu má ekki hafa reglurnar svo stífar að enginn komist. Þetta verður að vera mjög faglega undirbyggt og ég trúi því að svo sé, sérstaklega í ljósi þess að sex einstaklingar eru að fara núna í slíka meðferð til Kanaríeyja.