Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:49:03 (4796)

1999-03-10 22:49:03# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, GHelg
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:49]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég endurtek það sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að ég kem að þessu máli svo til afgreiddu og ætlast ekki til þess að menn fari að breyta því mikið þrátt fyrir mínar athugasemdir enda eru þær kannski ekki svo miklar.

Ég er hlynnt þessari skiptingu. Ég held að það sé rétt að setja á fót úrskurðarnefnd og því sé létt af tryggingaráði að skera úr í deilumálum. Það hefur komið í ljós að næstum allur tími tryggingaráðs fer einmitt í kærumál. Ég held að það sé ágætt að fá til þess sérstaklega bæra nefnd og get ekki verið neitt að hafa á móti því.

Það sem ég vildi minnast á er að mér finnst aðeins dregið úr vægi tryggingaráðs varðandi eftirlit með rekstri stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að upptalningin í 6. gr. laganna í stafliðum a--g um þau atriði sem ráðið á að annast sérstaklega falli út og ég sé dálítið eftir því. Mér finnst það verða máttlausara og almennara þó það standi að vísu eftir að tryggingaráð skuli hafa eftirlit með fjárhag, rekstri og starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins. Það kann vel að vera að þetta komi ekki að sök.

Mér sýnist samkvæmt þessum breytingum að mikill tími ráðsins hljóti að fara í að fara yfir alls kyns reglur um einstaka þætti í tryggingakerfinu. Það er talað um að tryggingaráð semji reglur o.s.frv. Það gerir það náttúrlega ekki heldur gerir starfsfólk hinna ýmsu deilda stofnunarinnar. Tryggingaráð þarf síðan að samþykkja þær eða stimpla á það. Í það fer töluverður tími líka og þar held ég að sé alveg ómetanlegt, þegar þessi skipting er orðin, að tillaga þeirra minnihlutamanna, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, Bryndísar Hlöðversdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur og Ögmundar Jónassonar, verði samþykkt. Ég held að sé alveg nauðsynlegt að Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalag Íslands fái fulltrúa í ráðið.

Það getur ekki verið nein ástæða til að vera á móti því. Sannleikurinn er nú sá að þessir aðilar þekkja best það sem verið er að fjalla um. Ég held að það yrði ráðinu mikil hjálp að fá fulltrúa þessara sambanda í ráðið. Þetta er gamalt baráttumál. Ég sé nú reyndar að fleiri hv. þm. hafa borið fram sams konar tillögu á þessu þingi, þ.e. hv. þm. Ágúst Einarsson, Kristinn H. Gunnarsson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Ég vil nú biðja þá hv. þm. sem til mín heyra að sýna þann rausnarskap að samþykkja þessa brtt. Ég sé ekki hvað getur verið á móti því. Öryrkjabandalagið hefur margsinnis óskað eftir þessu, Landsamband aldraðra líka. Væri það ekki bara dálítið klókt af þeim sem í framboð fara að samþykkja þessa tillögu svona rétt fyrir kosningar? Það getur held ég ekki kostað neitt.

Ég lýsi jafnframt stuðningi við aðrar brtt. á þskj. 1085. Ég held að það sé sjálfsagt mál að reyna að leiðrétta þann niðurskurð sem orðið hefur á bótum til þessara aðila. Annað var það nú ekki mikið sem ég ætlaði um þetta mál að segja.

Aðeins varðandi psoriasissjúklingana. Það vill svo til að ég get upplýst hv. þingheim um af hverju ferðirnar voru svo til aflagðar. Það var ósköp einfaldlega vegna frumkvæðis lækna Tryggingastofnunar ríkisins og með samþykkt meiri hluta tryggingaráðs. Þetta var einfaldlega aflagt. Ég verð að lýsa undrun minni yfir upplýsingum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur ef hlutirnir eru farnir að ganga þannig fyrir sig að menn snúa sér til hæstv. ráðherra, ef ég skildi hana rétt, og sex sjúklingar fá skyndilega afgreiðslu. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Ráðherraafgreiðslu.) Ég spyr: Er þetta sérstök ráðherraafgreiðsla? Venjulega var þetta þannig að menn sóttu um þetta til læknadeildar Tryggingastofnunar. Ég kannast ekki við þessa aðferð þó að aðilarnir séu nú í sama húsi.

Það er auðvitað alveg hárrétt sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sagði, síðari tíma menn hljóta að draga þá ályktun af meðferð þessa máls að vilji yfirvalda sé að þetta hverfi. Fyrst eru þessar ferðir til heitari landa hreinlega teknar af meira og minna og síðan er textinn tekinn út úr lagagreininni. Það er ómögulegt að lesa annað í það en að þetta sé ekki forgangsmál og ég held að það veiki stöðu psoriasissjúklinga að þessu leyti.

Ég get alveg skilið hugmyndir lækna Tryggingastofnunar um að efna ekki til þessara ferða ef hægt er að ná sama árangri hér heima. Það vill hins vegar svo til að þeir sem verst eru haldnir af þessum skelfilega sjúkdómi og leiða hafa sumir fengið ágætan bata, a.m.k. tímabundið. Því er auðvitað ástæða til að gera flest sem í mannlegu valdi stendur.

Ástæðan fyrir því að menn voru hættir að sækja um þetta er tvímælalaust sú að þeir vissu að það þýddi ekki neitt. Ég fagna því þess vegna ef ráðherra er sjálfur farin að taka af skarið og senda menn til útlanda og vil þá benda mönnum á að sækja um beint til hæstv. ráðherra.

Að öðru leyti get ég fallist á flest það sem í þessu stendur og hef lokið máli mínu.