Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:13:01 (4800)

1999-03-10 23:13:01# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég væri psoriasissjúklingur og þyrfti að komast í loftslagsmeðferð og fengi bót meina minna þar og hefði verið neitað um það síðan árið 1996 þá hefði ég orðið mjög reiður að hlusta á þessa ræðu hv. þm., sem talar hér um reglur og reglugerðir. Staðreyndin er sú að fólkinu hefur verið meinað að fara. Og þeir sem hafa fengið leyfi hafa ekki komist vegna þess að ekki er rétt á þessum málum haldið.

Og þegar því er haldið fram upp í opið geðið á okkur að þessi hópur þurfi ekki á sérákvæðum að halda um ferðir til útlanda, hvaða sjúklingahópar þurfa á slíkri meðferð að halda? Það er mjög takmarkaður hópur. Það er þessi hópur og örfáir aðrir sjúklingahópar sem hafa þurft að sækja lækningu erlendis. En það er fyrst og fremst þessi hópur. Og það er þess vegna sem hann þarf á sérákvæðum að halda.

Mér finnst verkefnið vera þetta og mér finnst það vera mjög skýrt: Hvernig tryggjum við að psoriasissjúklingar fái þá meðferð sem þeim ber og þeir þurfa á að halda?