Umræða um málefni sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 10:34:34 (4898)

1999-03-11 10:34:34# 123. lþ. 85.91 fundur 356#B umræða um málefni sjávarútvegsins# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[10:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Hér hafa vissulega gerst nokkur tíðindi. Það virðist vera að sjálfstæðismenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að vísa ekki þessu máli bara til landsfundar Sjálfstfl. því að hann hefur ekki löggjafarvald, eins og ætla mátti af orðum þeirra þingmanna sem ég vitnaði í áðan, heldur sé nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga fái að fjalla eitthvað um þessi mál. Hefur það nú ekki gengið andskotalaust, virðulegi forseti, að fá þá niðurstöðu fram en auðvitað er lítið betra en ekki neitt og maður vonast til að sjá einhverjar tillögur frá sjútvn. sem séu til þess fallnar að leysa þessi mál. Ef ekki er um það að ræða, þá held ég auðvitað fast við þá beiðni mína að Alþingi ræði þetta vandamál en ekki sé látið nægja að vísa því bara til landsfundar Sjálfstfl.