Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 11:06:04 (4913)

1999-03-11 11:06:04# 123. lþ. 85.11 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[11:06]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Með þessari tillögu um lagabreytingu viljum við tryggja að þeir psoriasissjúklingar sem á þurfa að halda fái loftslagsmeðferð í útlöndum. Aðeins einn sjúklingur hefur farið til útlanda í slíka meðferð síðan árið 1996. (Gripið fram í.) Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði við umræðuna í gær --- og þetta er mjög alvarlegt mál --- að engar umsóknir hefðu borist á árinu 1997 og engin breyting hefði orðið á skipan mála. (GÁ: Þetta er umræða.) Ég er með bréf frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Um leið og við endursendum yður meðfylgjandi vottorð skal tekið fram að ekki eru fyrirhugaðar fleiri utanlandsferðir til lækninga, psoriasisferðir, á vegum Tryggingastofnunar ríkisins.``

Ég er með fleiri gögn sem sýna fram á að það voru ósannindi sem hér voru höfð uppi af hálfu fulltrúa ríkisstjórnarinnar í gær. Það er einmitt þess vegna sem þörf er á því og enn þá ríkari þörf er á því en áður að fá þessa tryggingu inn í lögin.