Langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 12:27:31 (4943)

1999-03-11 12:27:31# 123. lþ. 85.22 fundur 356. mál: #A langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi# þál. 26/123, HjálmJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 123. lþ.

[12:27]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Jarðgöng eru raunhæfur kostur í vegagerð á Íslandi og ekki á einum stað heldur fleirum. Fyrirsögn þessa máls var ,,Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar`` en eftir yfirferð hv. samgn. á málinu er það ekki lengur tillaga um eina tiltekna jarðgangahugmynd heldur nokkra álitlega kosti. Það er sett í víðara samhengi af hv. samgn. eins og búið er að fara rækilega yfir.

Það er lagt til að hæstv. samgrh. láti kanna helstu jarðgangakosti sem áhugi er á, kanni mikilvægi og þýðingu þeirra og setji síðar upp í forgangsröð. Ég treysti því að þessir kostir verði metnir faglega og sá skynsamlegasti verði valinn hið fyrsta. Þar er vissulega einn möguleikinn þessi jarðgangakostur á Austurlandi.

Svo var á Akureyri í gær merkilegur fundur sem bar yfirskriftina ,,Opnum Tröllaskaga`` og fjallaði um jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. En hér er, herra forseti, verið að greiða atkvæði um að enginn einn kostur hafi forgang.