Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 13:12:51 (4957)

1999-03-11 13:12:51# 123. lþ. 86.3 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 123. lþ.

[13:12]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar á heildina er litið tel ég þetta frv. vera til bóta. Við í stjórnarandstöðunni höfum komið með nokkrar tillögur til að betrumbæta frv. Þær voru felldar fyrr í dag.

Mér finnst mikilvægt að Alþingi sé rétt upplýst um allan málatilbúnað. Í gær fór hér fram ítarleg umræða um stöðu psoriasis-sjúklinga. Þar var staðhæft af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar að á árinu 1997 hefðu engar umsóknir borist frá psoriasis-sjúklingum um ferðir. Ég las upp úr bréfi frá Tryggingastofnun til eins sjúklings sem er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Um leið og við endursendum yður meðfylgjandi vottorð skal tekið fram að ekki eru fyrirhugaðar fleiri utanlandsferðir til lækninga, psoriasis-ferðir á vegum Tryggingastofnunar ríkisins.``

Þetta er í apríl 1997. Bréf frá Tryggingastofnun ríkisins sem svar við slíkri umsókn.

Ég hef fleiri gögn frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Með tilkomu Bláa lónsins og bættrar aðstöðu þar fyrir umræddan sjúklingahóp og þátttöku almannatrygginga í meðferð veittri þar er talið að nú sé jafnan unnt að veita hérlendis meðferð sem áður var eingöngu veitt erlendis. Þar með séu brostnar forsendur fyrir utanlandsferðum psoriasisexem-sjúklinga á kostnað almannatrygginga.``

Ég hef vakið athygli á því, hæstv. forseti, að talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki farið rétt með í þessu máli. Hér hef ég vitnað til gagna frá þeirri stofnun sem hér um ræðir.