Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:22:01 (4963)

1999-03-11 15:22:01# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:22]

Siv Friðleifsdóttir:

Virðulegur forseti. Það er mjög gott að stjórnarandstaðan skuli hafa aðhald. Það er rétt að gagnrýna það sem gert er en það er stórfurðulegt að hlusta á þann málflutning sem hér hefur átt sér stað.

Hér kemur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir eins og hrein mey, gersamlega minnislaus, hefur aldrei hoppað í ríkisstjórnarsængina og ekki komið nálægt neinu þar. Ég vil spyrja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hvort það sé leikur með tölur, eins og hér var sagt áðan, að í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar kratarnir voru við völd, lækkaði kaupmáttur bóta um 6,1%. Nú hefur kaupmátturinn risið um tæp 11%.

Á síðasta kjörtímabili lækkaði kaupmátturinn hjá bótaþegum meira en allar launaviðmiðanir. Þá lækkaði kaupmáttur launa á almennum markaði um 7,3%, laun opinberra starfsmanna um 1,8 og kaupmáttur lágmarkslauna um 5,4%. Nei, öryrkjar skyldu sökkva lægra. Þeir lækkuðu um 6,1%. Hvar var hv. þm. þá?

Ég vil einnig spyrja: Af hverju tóku ekki kratarnir á tekjutengingunni hjá mökunum? Það hefur verið mikið baráttumál hjá öryrkjum og nú er loksins fyrsta skrefið tekið í því og 200 millj. hefur verið varið til þess á þessu ári. Hvar voru kratarnir þá?

Herra forseti. Þetta er ótrúlegur málflutningur. Ég vara við málefnasamningnum sem fylkingin hefur lagt fram. Þar á að gera allt fyrir alla. Farið er ótrúlega langt til vinstri. Það hlýtur að eiga að auka skattana, taka ríkislán og kippa fótunum undan velferðarkerfinu. Ég spyr: Hvar eru öryrkjar þá? Nei, hér þarf áfram að halda á braut stöðugleika.