Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 10:41:12 (39)

1998-10-05 10:41:12# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[10:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi óska nýjum fjmrh. til hamingju með sitt fyrsta fjárlagafrv. Hann sá mikla birtu og góða framtíð fyrir íslenska þjóð. Það er vel þegar menn eru bjartsýnir þegar þeir leggja af stað í vegferð sína. Við skulum vona að það rætist sem hann ætlaði hvað það varðar og sem hann lýsti í orðum sínum um sólskinsfjárlögin. En ekki er víst að allir líti silfrið sömu augum og hann frekar en fyrri daginn. Stjórnarandstaðan mun að sjálfsögðu leitast við að draga fram það sem hæstv. ráðherra hafði ekki tök á að nefna í ræðu sinni.

Fyrst vil ég nefna þjóðhagsforsendur frv. og hvernig þær hafa verið í þeim lögum sem eru nú í gildi og á undanförnum árum. Það er athyglisvert að það virðist vera nokkuð valt að treysta þeim forsendum sem lagðar eru við gerð fjárlaga á hverju ári og ævinlega, a.m.k. á þessu kjörtímabili, verða menn ákaflega hissa þegar líður fram á árið og það kemur í ljós að forsendurnar sem fjárlögin hvíla á hafa reynst nokkuð fjarri lagi. Það hefur gerst að þessu sinni eins og oft áður. Ég vil nefna helstu frávikin sem eru þau að einkaneysla er talin muni aukast á þessu ári um 10% í stað þeirra 5% sem gert var ráð fyrir við gerð þeirra fjárlaga sem eru nú í gildi. Stjórnarandstaðan benti á að þarna væri augljóslega um vanmat að ræða og færði rök fyrir því. Engu að síður taldi fjmrn. og Þjóðhagsstofnun ekki ástæðu til að breyta spá sinni í desember sl. En nú hefur greinilega komið í ljós að þessi spá reyndist verulega fjarri lagi. Svo var reyndar líka á árunum þar á undan án þess að ég reki það sérstaklega en vísa til fylgiskjals með nál. minni hluta fjárln. í desember sl. þar sem tekið er saman yfirlit yfir þjóðhagsstærðir, spá við gerð fjárlaga ár hvert frá 1995--1998 og síðan hvernig það varð í reynd.

Fjárfesting var í fjárlögum yfirstandandi árs talin aukast lítillega frá fyrra ári eða nánast vera óbreytt. En reyndin er núna talin vera að hún mun aukast um ríflega fjórðung eða um 27%. Þjóðarútgjöld voru talin aukast um 3,9% en reyndin, eftir því sem best er talið nú, mun vera nær því að verða 12%. Innflutningur var talinn vaxa um tæp 6% á þessu ári frá því síðasta en nú er áætlað að hann muni aukast um tæplega 23%. Þetta þýðir að hagvöxturinn sem talinn var mundu verða 3,5% verður núna liðlega 5%. Þannig má áfram telja, t.d. tölur um ráðstöfunartekjur á mann, þ.e. kaupmáttur mun aukast meira en ætlað var og verulega meira eða um tæp 9% í stað tæpra 5%.

[10:45]

Reynslan af forsendum undanfarinna ára gerir það að verkum að maður tekur þeim spám með dálitlum fyrirvara sem eru gerðar núna um helstu þjóðhagsstærðir og eru grundvöllur að útreikningum fyrir fjárlagafrv. 1999. Ég held að hæstv. fjmrh. verði að huga að þessum þætti málsins því að þarna skiptir verulega miklu máli að þeir sem gefa sér forsenduna séu í meginatriðum á réttu róli. Það má auðvitað gera ráð fyrir því að út af bregði af og til en það er mjög einkennilegt að það skuli ævinlega vera verulegur munur í þessum helstu stærðum. Og auðvitað vakna grunsemdir um að hæstv. fjmrh. sé að gefa sér tilteknar forsendur til að reikna frv. út frá. Þó að ég vilji ekki fullyrða um það á þessu stigi finnst mér reynslan vera þannig að það sé full ástæða til þess fyrir hæstv. fjmrh. að láta fara vandlega yfir helstu forsendur frv. í ljósi reynslunnar.

Í öðru lagi vil ég nefna álit sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom hingað í nóvember sl. og kynnti sér ríkisfjármálin og gaf út eftir þá athugun litla skýrslu sem þingmönnum var send með ábendingum um það sem að mati nefndarinnar mætti betur fara. Það er fróðlegt að rifja það aðeins upp og bera síðan saman við frv. og athuga að hve miklu leyti ráðherrann hefur tekið til greina athugasemdir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en það er stofnun sem nýtur mikillar virðingar í vestrænum heimi og ég veit að hæstv. ráðherra er einmitt að fara á þann vettvang til þess að læra af honum. Þessi sendinefnd benti á að fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár, 1998, sem þá var óafgreitt í nóvembermánuði, mundi ekki verða til þess að veita aðhald við efnahagsmálin, og benti á að afkomubati ríkissjóðs væri ekki mikill í því frv. og eingöngu til kominn af auknum hagvexti en ekki af sparnaðaraðgerðum eða öðrum kerfisbreytingum. Nefndin lagði til að markmið fjárlagafrv. yrðu sett hærra hvað varðar tekjuafgang þannig að hann næmi a.m.k. 1% af landsframleiðslu. Það mundi þýða um 5--6 milljarðar miðað við verðlag í dag.

Nefndin lagði líka til að allri aukningu hagvaxtar umfram opinberar spár yrði varið til að bæta stöðu ríkissjóðs í stað þess að búa til ný útgjöld. Ég vil skjóta því inn í hér að það sem við vitum nú þegar um framvinduna á þessu ári virðist þetta ekki hafa gengið eftir. Í fyrsta lagi er tekjuafgangurinn ekki eins og nefndin lagði til heldur miklu minni, reyndar ekki tekjuafgangur ef við miðum við rekstrargrunninn. Í öðru lagi eru auknar tekjur umfram þann hagvöxt sem spáð var ekki teknar til að bæta stöðu ríkissjóðs heldur að verulegu leyti varið til þess að standa undir útgjöldum.

Í fjórða lagi lagði nefndin til að draga úr jaðaráhrifum í skattkerfinu, bæði í tekjuskatti og barnabótum, en það höfum við ekki séð. Loks hvatti nefndin til endurbóta á lífeyriskerfinu hjá hinu opinbera og við þekkjum nú töluvert umræðu um það mál. Staðreyndin hefur hins vegar orðið sú að á síðasta ári virðist eitthvað hafa farið verulega úrskeiðis í kjarasamningum ríkissjóðs við starfsmenn sína miðað við þau markmið sem ríkisstjórnin gaf sér sjálf.

Í fjárlögum 1998 er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðsskuldbindingar hækki um liðlega 10 milljarða kr. en nú virðist ljóst að hækkunin verði tvöfalt meiri eða um 20 milljarðar kr. og er þó ekki komin fram öll sú hækkun sem leiðir af nýjum kjarasamningum og þá einkum svonefndum aðlögunarsamningum en upplýst er að á árinu 1999 verði veruleg hækkun á þessum skuldbindingum og aftur á árinu 2000. Þó að ekki liggi fyrir tölur á þessu stigi má segja að feiknarlega háum fjárhæðum hefur verið ráðstafað í þessum samningum, í þessum aðlögunarsamningum, kannski um 20 milljörðum eða svo. Það er auðvitað dálítið umhugsunarefni, burt séð frá samningunum sem slíkum og því sem um er samið, að einn fjármálaráðherra skuli geta ráðstafað svona háum fjárhæðum í raun og veru fram hjá Alþingi. Við stöndum í þeirri meiningu að Alþingi ákvarði útgjöld ríkisins og veiti heimildir til þess en það er greinilegt að það er ekki að öllu leyti þannig. Ég vil minna á það sem stendur í fjárlagafrv. fyrir 1998 um þessa aðlögunarsamninga. Þar segir, með leyfi forseta, á bls. 389:

,,Hækkun lífeyrisskuldbindinga er áætluð 10,5 milljarðar króna á næsta ári. Mögulegar hækkanir lífeyrisiðgjalda vegna nýs launakerfis eru ekki inni í þeirri fjárhæð, enda eiga þær að rúmast innan fjárveitinga einstakra stofnana.`` Þetta er sá rammi sem ríkisstjórnin setti sér sjálf um þessa aðlögunarsamninga, að þeir ættu ekki að leiða til nýrra útgjalda en annað er komið á daginn, herra forseti, sem nemur milljörðum króna.

Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig gat þetta gerst? Ég hef beðið fjmrn. um yfirlit yfir þessa samninga og hversu miklar skuldbindingar fylgdu hverjum og einum samningi því um er að ræða samninga við ýmsar starfsstéttir ríkissjóðs. Ég hef ekki getað fengið það. Þær upplýsingar virðast ekki liggja fyrir. Rekstur ríkissjóðs er auðvitað geysilega umfangsmikill og stór og þegar svo er komið að menn virðast ekki hafa yfirlit yfir þennan rekstur, það er það sem mér sýnist hafa gerst að menn hafi ekki haft yfirlit yfir útgjöldin sem menn voru að stofna til, hlýt ég að spyrja hvort ekki sé nauðsynlegt að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi. Er þessi mikla miðstýring ríkiskerfisins, að draga alla þræði inn í fjmrn. og gera þar samninga við allt ríkiskerfið, kannski kerfið sem gengur ekki upp vegna skorts á yfirsýn yfir útgjöldin sem menn eru að ráðstafa? Þetta er stærsta spurningin um framvindu ársins 1998 sem hæstv. fjmrh. verður að svara. Í þessu felast engar meiningar af minni hálfu um efni þessara samninga, hvort það hafi verið of mikið, réttlátt eða óréttlátt. Ég er ekki að setja fram neinar skoðanir á því. Þetta eru bara kjarasamningar sem ríkið gerir við sína starfsmenn og setti sér það markmið að þeir leiddu ekki til viðbótarútgjalda hjá einstökum stofnunum, en reyndin varð langt, langt frá því. Það verða að koma fram skýringar á þessu, herra forseti.

Í þriðja lagi vil ég nefna, herra forseti, áður en ég vík að efnahagsmálunum almennt, álit framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambands Íslands sem er nú ekki aðili sem er líklegur til þess að draga upp dekkri mynd af árangri hæstv. ríkisstjórnar en efni standa til. Ég leyfi mér að fullyrða að Vinnuveitendasambandið sé yfirleitt sólskinsmegin við fjmrh. ef staðsetja má það einhvers staðar í þeim efnum. Það samband dregur fram mjög skýra mynd og varar við tilteknum hættum, sem ég heyrði ekki í ræðu hæstv. fjmrh. að hann minntist á. En framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins kallar efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar lausatök í efnahagsstjórn. Hún kallar það lausatök í efnhagsstjórn sem muni óhjákvæmilega koma til með að kreppa að samkeppnisgreinum atvinnulífsins og valda landsmönnum búsifjum.

Það er nú dálítið mikið sagt, herra forseti, og ég held að hæstv. fjmrh. verði að hafa nokkrar áhyggjur af þessari hörðu ádrepu frá framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins. Það er kannski von að Vinnuveitendasambandið hafi nokkrar áhyggjur í þessum efnum því að hið háa gengi sem menn hafa haft á undanförnum missirum og háir vextir eru í raun og veru að beina eftirspurninni frá innlendum samkeppnisgreinum til útlanda. Þeir gera samkeppnisgreinar erlendis betur staddar í samkeppninni við íslenskar atvinnugreinar með því að lækka verðið á vörunni sem flutt er inn. Og það kemur fram í fjárlagafrv. eða þjóðhagsáætluninni, ég man nú ekki hvort heldur er, að samdráttur hafi orðið á útflutningi í iðnaðargreinum hér innan lands, hann hafi dregist saman um þó nokkuð mikið. Það er auðvitað fyllsta ástæða til þess að vekja athygli á því og spyrja hæstv. fjmrh. hver sé stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum atvinnugreinum. Er stefnan sú að þær eigi að láta undan síga fyrir innflutningsgreinum? Er það stefna ríkisstjórnarinnar að Íslendingar eigi frekar að kaupa innfluttan varning en íslenskar vörur? En það er það sem hefur verið að gerast á undanförnum missirum m.a. vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist með háu gengi og háum vöxtum. Ég er búinn að finna þetta núna, herra forseti, að afkoma samkeppnisiðnaðar á þessu ári er talin versna frá fyrra ári vegna launahækkana, sem um var samið og allir vita að voru töluvert miklar og umfram hækkanir erlendis, og hærra gengis. Þannig að kostnaðurinn hækkar meira en hann hækkar erlendis en tekjurnar hækka ekki vegna þess að gengið hækkar og útflutningur á almennum iðnaðarvörum minnkaði um 9% á fyrstu sjö mánuðum þessa árs. Þetta tel ég, herra forseti, að sé mikið hættumerki og að ríkisstjórnin verði að svara því hvort hún hyggist láta þessa þróun ganga fram áfram eða hvort hún hafi áform um að breyta þessu og þá hvernig. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að styrkja stöðu íslenskra samkeppnisiðnaðargreina?

Annað sem framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins bendir á, og réttilega að mínu mati, er að fyrirsjáanlegt er að á næstu árum muni draga úr hagvexti í heiminum, bæði hérlendis og annars staðar. Þegar dregur úr hagvexti mun draga úr tekjum íslenska ríkisins af eðlilegum ástæðum, það er óhjákvæmilegt. Þannig að þá snýst það við á þann veg að gjöldin munu vaxa meira í framtíðinni en tekjurnar. Og þá kemur sér illa að vera búinn að ráðstafa tekjuaukanum undanfarin ár í ný útgjöld því að þá þarf að lækka útgjöldin eða hækka tekjurnar.

[11:00]

Það er ekkert svigrúm við þessar gósenaðstæður þegar tekjurnar eru í hámarki til að mæta breytingum í tekjuöflun. Framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambandsins bendir á að það stefni í hallarekstur á ný þegar draga fer úr hagvexti. Það er auðvitað mjög alvarlegt í þessu mikla sólskini að það skuli vera svo stutt í að skýin dragist fyrir og skyggi á sólina og við sjáum bara gamla hallareksturinn á nýjan leik.

Herra forseti. Ég er alveg sammála greiningu framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambandsins um mat á horfum um tekjuöflun ríkissjóðs á næstu árum. Ég met það þannig ef ekki eigi að draga úr útgjöldum sé dulbúin skattahækkunarþörf í þessu frv. Þegar dregur úr tekjum vegna minni hagvaxtar verður óhjákvæmilegt að hækka skatta á nýjan leik. En ríkisstjórnin er svo lánsöm, sýnist mér, að það mun ekki koma í ljós að neinu marki fyrir kosningar. Miðað við spár er allt útlit fyrir að þetta muni koma í ljós einhvern tíma á næsta einu til einu og hálfu ári, kannski á haustdögum næsta árs, og þá verði ríkisstjórnin að setjast niður og gera upp við sig hvort hún ætlar að grípa til niðurskurðar eða að hækka skatta. Ég tel við þessar aðstæður vera hálfgerða sýndarmennsku af hæstv. ríkisstjórn að láta fram ganga skattalækkunina um næstu áramót, 1% tekjuskatt.

Mig langar að heyra í hæstv. fjmrh. um þessi sjónarmið. Er hann sammála þessu mati framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambandsins? Ef hann er sammála því, hvernig ætlar hann að mæta skorti á tekjum í náinni framtíð? Ef hann er ósammála því og telur að þetta mat sé rangt, þá væri fróðlegt að hann útskýrði hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu. Það er nefnilega eins og alltaf, það er ekki bara sólskin fram undan, það eru skin og skúrir í þessum efnum, bæði á þessum vettvangi sem öðrum. Það sem er gæfusamlegast er ávallt að vera með báða fætur á jörðinni og miða gerðir sínar við veruleikann eins og hann er en ekki óskhyggjuna. Ég er hræddur um að hæstv. ráðherra hafi séð of mikið sólskin í þessum fjárlögum og látið það blinda sig þannig að hann sjái ekki að fram undan eru auðvitað viss hættumerki þó að ég sé ekki að segja að það séu neinar stórkostlegar hættur fram undan. Ég er ekki að draga upp neina hryllingsmynd. En ég er að benda á að menn verða að vita af boðum og hættum til þess að geta brugðist við þeim. Það versta sem menn gera er að neita að sjá það sem fram undan er.

Herra forseti. Segja má að það sem hefur einkennt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á undanförnum missirum hafi eiginlega leitt til fyrirsjáanlegrar niðurstöðu sem er aukinn viðskiptahalli, hækkandi gengi. Gerðir hafa verið kjarasamningar með verulegum kaupmáttarhækkunum, kjarasamningar til þriggja ára sem auka kaupmátt heimilanna mjög mikið, svona að meðaltali skulum við segja. Í öðru lagi hefur verið gripið til að lækka skatta og auka ráðstöfunartekjur heimilanna þannig. Í þriðja lagi hafa verið afnumin ýmis sparnaðarform og fé hefur orðið laust sem áður var bundið og fé sem hefði orðið bundið er áfram laust. Í fjórða lagi hefur gengi verið að hækka og þá er alveg augljóst hvað menn fá út úr þessu, þegar menn auka tekjur fólks, þegar skattar eru lækkaðir, þegar dregið er úr sparnaði og þegar vörur eru gerðar ódýrari. Ég vil því meina að þessi viðskiptahalli á ekki að koma mönnum neitt á óvart þó að hann hafi ekki verið fyrir séður í forsendum gildandi fjárlaga. Hann er einfaldlega eðlileg afleiðing af þessari pólítík. Það er eitthvað að í fjármálastjórn og efnhagsstjórn sem leiðir til þess að á fjórum árum er 80 þúsund millj. kr. í viðskiptahalla. Þó að spáð sé að hann minnki fram til 2003 er samt spáð að hann verði umtalsverður öll árin héðan í frá til og með 2003 og bætist við þá 80 milljarða sem komnir eru. Það verður því eitthvað vel yfir 100 milljarðar, kannski hundrað og tíu til tuttugu milljarðar á þessu tímabili. Það er ekki viðunandi ástand.

Maður hlýtur að spyrja hæstv. ríkisstjórn hvað hún ætli að gera til þess að snúa þessari þróun við? Ekki er að sjá neitt í frv., sem við ræðum hér núna, sem bendir til ákveðinna aðgerða á þessu sviði. Einu vísbendingarnar um viðbrögð eru að hæstv. fjmrh. hefur skýrt frá því að hann hafi skipað nefnd til þess að gera tillögur um sparnaðarform.

Það er góðra gjalda vert að hæstv. ráðherra skuli átta sig á því að grípa þurfi til aðgerða sem hvetji til sparnaðar. En að það skuli ekki vera tilbúnar neinar tillögur þegar efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár er kynnt, það er alveg óviðunandi, herra forseti. Ég hlýt að ítreka við hæstv. ráðherra: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Hvernig ætlar hún að vinna bug á viðskiptahallanum og lágum sparnaði? Það er ekki viðunandi að ríkisstjórnin skili auðu þann dag sem hún mælir fyrir fjárlagafrv. sínu og kynnir efnahagsstefnu sína fyrir næsta ár.

Afleiðingar af þessari stefnu, því að ég vil kalla þetta stefnu sem hefur verið rekin á undanförnum árum og hefur að sumu leyti skilað árangri en hefur líka haft í för með sér slæmar afleiðingar eins og viðskiptahallann, hefur líka verið sú að skuldir heimilanna hafa aukist á þeim tíma þegar heimilin eiga að draga úr skuldum sínum. Þegar í gildi eru kjarasamningar með miklum kauphækkunum og skattalækkanir sem auka líka tekjur heimilanna á auðvitað að beina þessu fé í að borga niður skuldir. En ríkisstjórnin hefur í raun gert allt til þess að koma í veg fyrir að hvetja fólk til að borga niður skuldir heldur verið með aðgerðir sem hvetja fólk til eyðslu, sem hvetja fólk til þess að kaupa varning, endurnýja bíla o.s.frv.

Afleiðining er sú að skuldir heimilanna eru að aukast á þessum gósentíma í stað þess að minnka. Á þessu ári, sem mælist metár í á hækkun í kaupmætti ráðstöfunartekna og jafnast aðeins á við metárið 1987 þegar það var algjör toppur og uppsveifla í þeim efnum, er talið að skuldir heimilanna muni aukast um sem nemur 12% frá síðasta ári eða um 35 milljarða kr. Ég tel að þetta sé vísvitandi stefna hjá ríkisstjórninni til þess að afla sér tekna í ríkissjóð. Með því að hvetja fólk til þess að eyða og kaupa skapar það ríkissjóði miklar tekjur sem hafa dugað til þess að snúa dæminu þar við og koma ríkissjóði yfir núllið.

Þegar ríkisstjórnin fer að hvetja fólk til þess að spara og draga úr eyðslu þá kemur það fram í minni tekjum ríkissjóðs. Ég spyr hvort það geti verið að sú staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki enn kynnt neinar tillögur sem eiga að verða til þess að draga úr eyðslu heimilanna sé vegna þess að hún vilji ekki draga úr tekjum ríkissjóðs. Hún vilji geta sýnt ríkissjóð með miklar tekjur og réttum megin við strikið, a.m.k. fram yfir næstu kosningar. Getur það verið? Það er alveg augljóst mál að strax og farið verður að hvetja fólk til að spara mun það koma fram í minni tekjum ríkissjóðs. Menn eiga erfitt með að bregðast við því af því að það er búið að hleypa útgjöldunum upp. Þetta er sú mynd sem mér sýnist vera uppi og ráðherrann sé að glíma við á þann veg að halda þar jöfnuði, a.m.k. næstu mánuði og að það leiði til þess að seint er gripið til aðgerða til þess að auka sparnað.

Að lokum áður en ég vík frá þessu vil ég nefna efnahagsstjórnunina. Það hefur verið góðæri í sjávarútvegi að því leytinu til að afurðir sjávarútvegs hafa hækkað mjög mikið á erlendum mörkuðum, um rúm 17% á liðlega einu ári, og olía hefur lækkað á sama tíma þannig að verð á olíu er lægra en það hefur verið nokkru sinni sl. 12 ár. Þetta er auðvitað búhnykkur fyrir íslenskt þjóðarbú. Ríkisstjórnin hefur valið að nota efnhagsstefnuna til að dreifa hluta af ávinningi útflutningsgreinanna, og þá einkum sjávarútvegs, til alls almennings í formi hækkandi gengis. En það eru milli 3 og 4% af þessum ávinningi sjávarútvegsins sem hefur ekki runnið til sjávarútvegsfyrirtækjanna heldur til almennings í formi lægra vöruverðs á innflutningsvörum. Þetta eru milli 3 og 4 milljarðar á heilu ári, herra forseti, og hefði einhvern tíma verið talið að það væri nokkuð myndarlegur skattur á eina atvinnugrein að standa undir slíkum tekjumissi. En það er rétt að vekja athygli á þessu atriði svo það fari ekki fram hjá mönnum, af því að það er nú mikið í umræðunni um sjávarútveginn og arðinn sem þar myndast. Þar er verið að dreifa honum að hluta til með þessum hætti yfir allt þjóðfélagið.

Þá er ýmislegt í frv. sem mér finnst að ríkisstjórnin þurfi að svara og hún gefi lítil svör við. Hv. þm. Gísli S. Einarsson hefur nefnt nokkur af þeim atriðum sem vert er að spyrja um í þessu efni og ég mun því ekki endurtaka það eins og varðandi hvernig ríkisstjórnin hyggst tryggja landsmönnum grundvallarþjónustu eins og læknisþjónustu þar sem læknar fást ekki til starfa í dag í dreifbýli. Ástæða er til að ganga eftir svörum hjá hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum. Eru svör ríkisstjórnarinnar bara þau að markaðslögmálin eigi að gilda? Læknar séu bara þar sem þeir vilja vera og þar sem þeir vilji ekki vera þar séu engir læknar? Svo komi þetta ríkisstjórninni bara ekkert við?

Ég vil svara þessu á annan veg og segja að ríkisstjórninni beri að upfylla þessa þjónustu hvað sem það kostar. Kosti það mikið þá er það verkefni fyrir ríkisstjórnina að breyta aðstæðum þannig að það geti seinna meir kostað minna. En það eru engin svör að segja að læknar fáist ekki. Ef kjörin eru ekki nægilega góð til að draga menn út í afskekktari byggðir þá á að hækka þau. Það er mjög einfalt. Við hljótum að spyrja: Ætlar ríkisstjórnin að gera það eða er hún að gengisfella fólk um landið? Er mismunandi gengi hér á fólki?

[11:15]

Ég vil líka spyrja og ítreka það sem fram kom hjá hv. þm. Gísla Einarssyni um byggðaþróunina. Hún er alveg skelfileg og auðvitað afleiðing af ákveðnum pólitískum ákvörðunum sem saman mynda umhverfi sem er hagstæðara á einum stað en öðrum. Sú breyting kostar hið opinbera mikið fé, bæði ríki og sveitarfélög. Af efnahagslegum ástæðum er því nauðsynlegt að bregðast við til að draga úr þessum kostnaði. Um þetta eru ekki til nákvæmar tölur. Reynt hefur verið að leggja mat á það og ljóst er að á hverju ári verður hið opinbera að verja milljörðum í ýmsar framkvæmdir og þjónustu umfram það sem þyrfti ef jafnvægi væri í byggðaþróuninni. Það er því efnahagslegur ávinningur af því fyrir hið opinbera að reyna að stöðva þessa þróun þannig að sæmilegt jafnvægi ríki.

Við hljótum að kalla eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ég nefni t.d. þáltill. um byggðastefnu til næstu fjögurra ára sem lögð var fram til kynningar á sl. vori og verður rædd hér seinna á þessu hausti. Þar er m.a. sú tillaga að leggja allt að 300 millj. kr. í eignarhaldsfélög sem stofnuð verði úti í kjördæmunum og þau félög hafi síðan fjárhagslega bolmagn til að stofna atvinnufyrirtæki á sínu starfsvæði. Ég sé ekki, herra forseti, neitt um að þessi fyrirheit ríkisstjórnarinnar í þáltill. séu í fjárlagafrv. Ég hlýt að spyrja: Hefur hæstv. ríkisstjórn tekið þetta markmið út úr þáltill. um byggðamál, um eignarhaldsfélögin, um að verja til þeirra allt að 300 millj. kr. ár hvert? Af hverju er það ekki að finna í þessu fjárlagafrv.? Af hverju er ekkert sólskin þar, herra forseti?

Ég hlýt líka að benda á að ein afleiðingin af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, sem er grundvölluð á háu gengi og mjög háum vöxtum, hefur leitt til þess að hlutabréfamarkaðurinn hérlendis hefur hrunið saman. Hann hefur fallið saman, nánast algjörlega að heita megi. Á síðasta ári voru seld ný hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum fyrir 17 milljarða kr. ef ég man rétt, fyrir utan þau hlutabréf sem gengu kaupum og sölum á eftirmarkaði og voru um 12 milljarðar. Eftir því sem ég best veit hefur núna ekki verið selt eitt einasta hlutabréf í nýjum útboðum hjá fyrirtækjum á Verðbréfaþingi Íslands. Það eru mikil umskipti frá 17 milljörðum niður í núll. Hvernig skyldi standa á því, herra forseti? Það er vegna þess að hlutabréfin geta aldrei borið þann arð fyrir eigandann sem skuldabréf bjóða í dag, vegna hinna háu vaxta.

Vegna þess að ríkisstjórnin er að greiða niður verðbólguna með því að hækka gengið, lækka innflutninginn í verði, sjá menn fyrir sér yfirvofandi vaxtahækkun. Þenslan er það mikil að halda þarf áfram þessari stefnu og menn búast við að Seðlabankinn þurfi að hækka vexti til að halda stöðugu gengi. Þá er augljóslega miklu hagkvæmara að kaupa sér skuldabréf, þau eru í dag með miklu hærri vöxtum, tryggum vöxtum og von á hækkandi vöxtum. Beri menn þetta saman við hlutabréf í íslenskum atvinnufyrirtækjum þá standast þau engan samjöfnuð, herra forseti. Þess vegna hefur sala á íslenskum hlutabréfamarkaði nánast algjörlega fallið saman.

Ég tel þetta mjög alvarlega afleiðingu af efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig ríkisstjórnin hyggist styðja við þá þróun að íslensk atvinnufyrirtæki geti sótt sér fé í gegnum sölu hlutabréfa. Fleira væri ástæða til að nefna, herra forseti. Ég hef dvalið við ákveðin atriði og læt þar með önnur bíða þar til síðar og læt máli mínu lokið.