Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 11:21:09 (40)

1998-10-05 11:21:09# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[11:21]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við búum við óvenjulegt góðæri um þessar mundir og þess sér svo sannarlega stað þessa dagana í ríkisfjármálunum þar sem milljarðarnir bætast í kassann langt umfram áætlun fjárlaga, en streyma nú að vísu jafnóðum út aftur. Hvað sem því líður er þetta auðvitað óskastaða fyrir nýjan fjmrh. og vildu sjálfsagt margir vera í hans sporum. Þróunin hefur sem sagt farið langt fram úr því sem búist var við og fátt bendir til annars en árferði verði áfram hagstætt.

Ég vil byrja á að óska hæstv. fjmrh. til hamingju með sitt fyrsta fjárlfrv. sem hann hefur sjálfur kallað Sólskinsfrumvarp. Það er auðvitað skiljanlegt að hann vilji baða sig í ljóma þess meðan kostur er, því ekkert er öruggt undir sól stjórnmálanna og allsendis óvíst að hann fái tækifæri til að fylgja fleiri slíkum úr hlaði. Þessar hamingjuóskir mínar eru blendnar því eins og nærri má geta er ýmislegt gagnrýnivert í þessu frv. Þar er ekki eintómt sólskin heldur væri nær að segja að það sé skýjað með köflum, svo við höldum okkur áfram við veðurfræðin.

Ég verð að segja alveg eins og er að það hefði mátt vonast eftir meira kjöti á beinunum miðað við ríkjandi árferði og horfur og ótrúlega velsæld sumra í þjóðfélaginu, velsæld sem við eigum að sjálfsögðu að leitast við að dreifa betur og leitast við að tryggja öllum mannsæmandi kjör og aðstæður. Ég tel að það eigi að vera meginmarkmið sameiginlegs reiknings allrar þjóðarinnar en í þetta frv. skortir að mínu mati metnað til að nálgast það markmið.

Viðhorfin eru ólík í þessu efni, því er ekki að neita. Ég tók t.d. eftir að ungliðar Sjálfstfl. komu nýlega saman til fundar og sáu ástæðu til að nota það tækifæri til að lýsa óánægju sinni með þetta frv. á allt öðrum forsendum. Þeim finnst aðhald ráðherra síns ekki nægilegt. Þeir vilja að hann beiti strangara aðhaldi án þess að það hafi svo komið skýrt fram hvar og hvernig þeir vilji beita því. Fróðlegt væri að heyra hugmyndir þeirra nákvæmlega útfærðar og kynntar, þ.e. hvar þeir vilja skera niður og hverjir eigi að axla þær byrðar sem við nú berum sameiginlega. Við förum svo sem nærri um þær hugmyndir í meginatriðum. Þær eru gjarnan viðraðar í baráttuglöðum hópi ungra sjálfstæðismanna þar sem stefnan er sú fyrst og fremst að einstaklingurinn njóti sín. Það er auðvitað gott og göfugt en til þess þarf hann víst helst að vera sterkur og hraustur og sæmilega efnum búinn. Vonandi koma þeir hugmyndum sínum rækilega á framfæri svo almenningur geti kynnt sér þær og áttað sig á því hvað koma skal ef Sjálfstfl. fengi nú meiri hluta til að koma þeim í verk sem ég ætla þó rétt að vona að verði ekki.

En það er einmitt í fjárlögum sem stjórnarstefnan birtist hvað skýrast á hverjum tíma og víst að margir vildu vera í sporum hæstv. fjmrh. nú þegar aðstæður leyfa nokkuð skýra útfærslu stefnumiða. Svo er náttúrlega eftir að sjá og reyna hvort höfundum frv. hefur tekist nokkuð betur en endranær að ramba á réttar forsendur. Reynslan hefur verið sú að þeim hefur ekki gengið allt of vel í því efni, ekki einu sinni nú síðari árin í umhverfi lítillar verðbólgu og annarra hagstæðra skilyrða sem ættu að gera spámönnum léttara um vik.

Ár eftir ár höfum við, fulltrúar minni hlutans, gagnrýnt þessar spár og bent á hversu óraunhæfar þær hafa verið, jafnvel þótt tekið sé tillit til þeirrar tilhneigingar að spá varlega svo ekki séu vaktar of miklar væntingar. Það er að mörgu leyti skiljanlegt vinnulag. Það er alltaf vinsælla að bæta við en draga úr. Staðreyndin er hins vegar sú að spá um þróun mála hefur verið furðu langt út úr korti. Nú er útkoma þessa árs að verða nokkuð ljós og þar er sitthvað á gamalkunnum nótum. Við fulltrúar minni hlutans í fjárln. bentum rækilega á það við afgreiðslu fjárlaga þessa árs að áætlanir væru óraunhæfar, bæði tekju- og gjaldamegin. Það hefur svo sannarlega komið á daginn. Þó áttum við ekki von á svo stórstígum breytingum sem raunin hefur orðið á, þar sem t.d. innflutningur vöru og þjónustu eykst væntanlega fjórfalt, fjórfalt á við það sem spáð var á þessu ári. Einkaneyslan virðist ætla að aukast um 10% í stað 5% sem spáð var. Í þessu er vitanlega fólgin meginskýringin á líklegri hækkun heildartekna ríkissjóðs nú í ár, um rúmlega 9 milljarða kr. Það skal játað að við í minni hlutanum, sem erum auðvitað alltaf ábyrgðin og hógværðin uppmáluð, höfðum ekki hugarflug í upphæðir af þessari stærðargráðu. Þessi þróun hefur auðvitað bæði kosti og galla. Kosturinn er sá að ríkissjóður fitnar og nær meira að segja að miklu leyti að koma til móts við vanáætluð útgjöld. Hann nær því reyndar fyllilega ef miðað er við gamla lagið, þ.e. afkomuna á greiðslugrunni.

Á útgjaldahliðinni voru eins og fyrri daginn við afgreiðslu fjárlaga ófrágengnir umfangsmiklir póstar í heilbrigðiskerfinu og ekki útséð hvort ráða eigi bót á þeim vanda til fulls, nú frekar en áður, þrátt fyrir fögur fyrirheit um úthlutun fjármagns úr pottum heilbrrh. og árangursrík störf stýrihópa og faghópa af ýmsum stærðum og gerðum. Öll sú vinna hefur að vísu farið fram en enn er vandinn stór og raunar með ólíkindum að enn skuli ekki sjá fyrir endann á öllum þessum tilraunum til að ná utan um útgjöld til heilbrigðismála þar sem löngu er mál til komið að skapast geti vinnufriður í þeim geira.

Útgjöld hafa jafnframt aukist umfram áætlun vegna frágangs kjarasamninga við nokkur stéttarfélög sem ekki var spáð réttilega fyrir um. Um það ræddi hv. síðasti ræðumaður talsvert í máli sínu hér áðan og verður fróðlegt að heyra viðbrögð hæstv. fjmrh. við athugasemdum hans og fyrirspurnum. Mestu munar þó um lífeyrisskuldbindingarnar. Fulltrúar minni hlutans bentu einnig á þá skekkju við afgreiðslu fjárlaganna þótt hún reyndist síðan þó nokkuð stærri en við töldum þá líklegt. Þetta ræðum við nú kannski frekar þegar frv. til fjáraukalaga kemur fram á næstu vikum þótt allt þetta verði vissulega að hafa í huga þegar litið er til næsta árs.

Eins og fyrr sagði eru skilyrði í þjóðfélaginu að flestu leyti hagstæð og engin verulega slæm teikn á lofti. Búist er við svipuðum hagvexti og verið hefur undanfarin tvö ár og það er búist við fremur litlu atvinnuleysi í samanburði við OECD-ríkin. Væntanlega dregur eitthvað úr fjárfestingu sem hefur verið gríðarleg að undanförnu og ekki öll af hinu góða að mínu mati, en þó er t.d. líklegt að í ferðaþjónustu verði veruleg fjárfesting á næstu árum og ég tel ástæðu til að hafa það í huga.

[11:30]

Ferðaþjónustan hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum og raunar alveg ótrúlega síðasta áratuginn þegar litið er til þess að sú atvinnugrein hefur ekki beinlínis notið náðar ríkisvaldsins í samanburði við aðrar. Ferðaþjónusta, sem fyrir svo sem hálfum öðrum áratug var naumast talin til alvöruatvinnugreina og þurfti að berjast fyrir viðurkenningu stjórnvalda og jafnvel almennings líka í smáu og stóru, verður nú ekki lengur afgreidd sem dútl við gestamóttöku utan hefðbundinnar vinnu. Þetta er atvinnugrein sem hefur skapað beint og óbeint 5--10 þús. ársverk og aflar meiri gjaldeyristekna en nokkur önnur atvinnugrein að sjávarútvegi undanskildum. Uppbygging í ferðaþjónustu hefur í raun kostað ótrúlega lítið miðað við öll störfin sem hún hefur skapað. En nú er svo komið að skortur á gistirými og annarri þjónustu er farinn að hamla þróun og vexti greinarinnar og við því þarf að bregðast. Það er því afskaplega líklegt að fjárfestingar á þessu sviði muni nokkuð einkenna framkvæmdir næstu ára.

Það eru allgóðar horfur á mörgum öðrum sviðum sem betur fer og sitthvað fleira en vaxandi þorskgengd sem eykur bjartsýni. Auðvitað er þó ekki eintómt sólskin í efnahagsveröldinni og þá er það fyrst og fremst aukinn viðskiptahalli sem er áhyggjuefnið. Það er vissulega brýnt að rétta þann halla af, annars vegar með arðgæfari útflutningi og hins vegar með auknum sparnaði. Sama má segja um það sem hv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni, að það er áhyggjuefni að innlend framleiðsla skuli búa við þær aðstæður sem hún gerir þannig að það séu fyrst og fremst innflutningsaðilar sem græða á góðu árferði. En það eru lítil búhyggindi að eyða jafnóðum öllu sem aflað er og jafnvel langt umfram það. Því miður virðist afar sterk tilhneiging til ofneyslu í okkar þjóðfélagi og neyslu sem jaðrar við algert æði á stundum og á sér efalaust rætur í andrúmslofti verðbólguáranna þegar mönnum hefndist grimmilega fyrir sparnað. Þá fólst öryggið í því að koma sér upp húsnæði, kaupa bíla og hvers kyns aðra hluti sem gera mátti verð úr ef á þurfti að halda og verðbólgan sá um að skuldirnar yrðu að engu. Því miður virðumst við seint ætla að tileinka okkur fyrirhyggju í þessum efnum en það hreinlega verður að freista þess með öllum ráðum að snúa þessari þróun við.

Það er í raun ámælisvert að ekki skuli enn hafa komið fram formlegar tillögur um hvernig efla megi sparnað í landinu og hvernig stjórnvöld ætla að koma að því máli. Ég held að það sé alveg ljóst að það verður að koma til hvatning í gegnum skattkerfið fyrst og fremst til þess að efla sparnað einstaklinga og fjölskyldna. Það verður auðvitað fróðlegt að sjá tillögur þeirrar nefndar sem er að störfum um þessi efni en hæstv. fjmrh. upplýsti í ræðu sinni að þær yrðu væntanlega kynntar í ríkisstjórn á næstu dögum eða vikum.

Það má segja að ríkisstjórnin sýni gott fordæmi með því að halda áfram að grynnka á skuldum og það er vel. Það er alltaf jafnsárt að sjá á eftir háum upphæðum til afborgana og vaxtagreiðslna vegna eyðslu fyrri ára. Ég styð heils hugar þá stefnu að nýta tækifærið í góðu árferði til að lækka skuldir ríkisins en það er margítrekað sem meginmarkmiðið í frv. Þetta markmið má þó aldrei yfirskyggja það markmið að tryggja öllum mannsæmandi kjör og aðstæður enda eiga þessi markmið að geta farið saman.

Þá má einnig telja það frv. til ágætis að lögboðnir tekjustofnar eiga að mestu að haldast óskertir og öðruvísi okkur áður brá. Þar munar vitanlega mest um lögboðna tekjustofna til vegagerðar sem árum saman hafa verið skornir niður af mikilli hörku. Þessi nýjung veldur því að í fyrsta sinn í langan tíma er gengið út frá óskertri framkvæmdaáætlun í vegamálum sem trúlega skapar mikinn fögnuð um gjörvallt land. Hið sama er raunar að segja um framkvæmdir í hafnamálum og flugmálum og léttir það óneitanlega umfjöllunina í viðkomandi nefndum, samgn. og fjárln.

Virðulegi forseti. Það er dálítið óþægilegt þegar verið er að reyna að ræða þetta frv. sem er á dagskrá að hæstv. fjmrh. er ákaflega vinsæll maður og er ætíð umkringdur góðum mönnum sem vilja ræða við hann. Mér þætti vænt um ef honum væri tryggð aðstaða til þess að heyra það sem við höfum að segja. Ég var að fjalla um og meira að segja hæla hæstv. ráðherra og hans meðreiðarsveinum fyrir það hversu lögboðnir tekjustofnar fá nú að halda sér að mestu leyti og er kannski ekki ástæða til að leggja hart að sér að tryggja að hann heyri slík orð. En engu að síður þykir mér nú betra að fá að tala við hæstv. ráðherra. Það er um það að segja að hér verður óneitanlega léttara verk fyrir höndum bæði í samgn. og fjárln. þegar ljóst er að hægt verður að standa við framkvæmdaáætlanir í þessum efnum, þ.e. í vegamálum, hafnamálum og flugmálum og ber þá að sjálfsögðu nýrra við. Með tilliti til reynslu undanfarinna ára veit maður varla hvernig á að taka slíkum lúxus, en það hvarflar náttúrlega ekki að nokkrum manni að þessi niðurstaða hafi nokkurn skapaðan hlut með það að gera að það verða víst kosningar til Alþingis á næsta vori. Það er auðvitað bara skemmtileg tilviljun og gaman að svo margir geti glaðst yfir sinnaskiptum og gæsku ríkisstjórnarinnar á næsta ári.

En heldur verra finnst mér að hæstv. ráðherra skuli nenna að klípa 80 millj. af áætluðum lögboðnum tekjum til endurbóta á húsakosti menningarstofnana því það er mála sannast að þar er brýn þörf á aðgerðum og verkefnin ærin. Sérstaklega finnst mér brýnt að gera stórátak í verndun gamalla húsa þar sem áralöng vanræksla hefur víða verið til tjóns. Og nú er einmitt sívaxandi áhugi um allt land að bæta úr þessri vanrækslu og vinna að endurbótum en þær eru kostnaðarsamar ef vel á að vera og því mikil þörf fyrir styrki til slíkra aðgerða.

Það er ljóst að stærsta verkefnið á þessu sviði, þ.e. við endurbætur á húsakosti menningarstofnana, er vinna við endurbætur á húsnæði Þjóðminjasafnsins, sem eru orðnar mjög aðkallandi og því allt gott um það að segja að nú eigi loksins að fara að taka þar til hendinni. En mig furðar það sem upplýst er í grg. með frv. að af þessu tilefni verði bara alls engar sýningar á vegum Þjóðminjasafnsins allt næsta ár. Það er auðvitað skiljanlegt að sýningarsölum safnahússins sjálfs verði lokað, það er sjálfsagt óhjákvæmilegt vegna framkvæmda við endurbæturnar, en það er með ólíkindum að það eigi ekki að bjóða upp á neitt í staðinn, bara læsa alla muni niður og hafa hvergi neitt til sýnis fyrir gesti og gangandi. Það lýsir að mínu mati ekki miklum metnaði að reyna ekki að setja upp sýningu á þjóðargersemum í einhverju öðru sæmilega hentugu húsnæði til þess að þjóna þörfum ferðamanna og skólanna a.m.k.

Loks hlýt ég að gera athugasemd við það hvernig lögboðnu hlutverki Framkvæmdasjóðs fatlaðra er rétt eina ferðina breytt með skerðingarákvæði í fjárlögum, þ.e. ákvæði um að hluti af framkvæmdafénu verði tekið til greiðslu kostnaðar við félagslega hæfingu og endurhæfingu og til kostnaðar vegna starfsemi stjórnarnefndar. Það er reyndar gjörsamlega útilokað að átta sig á stærðum í þessu sambandi með því að lesa grg. frv. en mér virðist þó einsýnt að framkvæmdafé sjóðsins aukist nákvæmlega ekki neitt, sem er grafalvarlegt mál með tilliti til þeirra gríðarlegu verkefna sem við blasa. Í grg. stendur að aukið framlag til sjóðsins nemi 30 millj. en þess ber að gæta að um leið er 20 millj. kr. sérmerkt framlag á þessu ári fellt niður. Þetta framlag, 20 millj., var sérmerkt til uppbyggingar á þjónustu við geðfatlaða, og það er sem sagt fellt niður. Aukningin er því í raun aðeins 10 millj. kr. sem vafalaust fara að stórum hluta til rekstrar sem tekur sívaxandi hluta af framkvæmdafé. Þetta er auðvitað gersamlega óviðunandi niðurstaða með tilliti til ástandsins í þessum málaflokki sem þar að auki er áformað að flytja til sveitarfélaganna á næstu árum, stóð meira að segja til að gera það í byrjun næsta árs. Það er auðvitað deginum ljósara að af þeim flutningi getur ekki orðið fyrr en ríkið hefur a.m.k. nálgast að veita lögboðna þjónustu, en því fer víðs fjarri að svo sé.

Víða úti um land er að vísu þokkalega séð fyrir þörfum fatlaðra en ástandið á suðvesturhorni landsins er hreint út sagt til háborinnar skammar, bæði í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi. Forsendur fyrir flutningi málaflokksins til sveitarfélaganna er að sveitarfélögin fái nauðsynlega fjármuni með verkefninu og að tryggð verði fjármögnun stofnframkvæmda í þessum málaflokki, vegna þess að sveitarfélögin þurfa auðvitað að hafa fjárhagslegt bolmagn til að mæta þeim skuldbindingum sem í þjónustunni felst, þ.e. faglegum kröfum, rekstri núverandi þjónustu svo og viðbótarþjónustu til þess að grynnka á biðlistum.

Samkvæmt nýlegri skýrslu um stöðu þessara mála í Reykjaneskjördæmi vantar þar verulega á að þörf fyrir þjónustu sé mætt. Forsendur fyrir flutningi þessa málaflokks eru þær að sveitarfélögin taki við sæmilegri stöðu og fái nauðsynlega fjármuni með þessum verkefnum. Á það hlýt ég að leggja þunga áherslu.

Það er nauðsynlegt að fá sem besta yfirsýn yfir núverandi stöðu mála og jafnframt að gaumgæfa leiðir og aðferðir við framkvæmdina og það hafa menn verið að gera í Reykjaneskjördæmi þar sem ég þekki best til og efalaust víðar. Sú athugun leiðir eftirfarandi staðreyndir í ljós um ástand mála á síðasta ári og víst er að það hefur ekkert batnað, ekki neitt. Árið 1997 var rúmlega 344,6 millj. kr. varið til reksturs málefna fatlaðra á vegum Svæðisskrifstofu Reykjaness. Fjöldi þjónustuþega 1997 var 822 einstaklingar. Þjónusta við fatlaða á Reykjanessvæði á vegum félmrn. utan svæðisskrifstofu árið 1997 nam rúmlega 140 millj. kr. Auk þess var kostnaður sveitarfélaga í kjördæminu þetta ár 75 millj. kr. Í maí 1998 voru 133 einstaklingar á biðlista eftir búsetu hjá Svæðisskrifstofu Reykjaness og 100 einstaklingar biðu þar og bíða enn eftir dagþjónustu eða vinnuúrræði. Það vantar því stórlega á að eftirspurn eftir þjónustu sé fullnægt. Til þess að mæta biðlistum þarf viðbótarfjármagn í árlegan rekstur sem nemur 477,3 millj. kr. Árlegur rekstrarkostnaður yrði sem sagt 829,8 millj. kr. ef viðbótarfjármagni yrði bætt við samkvæmt mati á biðlistum. Hér er um að ræða meira en tvöföldun á núverandi þjónustu.

[11:45]

Heildarstofnkostnaður nýrra þjónustustaða á svæðinu til að tæma biðlista er talinn nema rúmum milljarði króna eða nánar tiltekið 1 milljarði og 116 millj. kr. Þar að auki er gert ráð fyrir að nýskráningar verði svipaðar og verið hafa eða um 25 á ári. Það þýðir m.a. að biðlisti eftir búsetuúrræðum mun tvöfaldast á næstu fimm árum og rekstrarkostnaður til að mæta árlegu nýgengi á biðlista yrði um 68,5 millj. kr. Samkvæmt framansögðu er þess vegna langt frá því að biðlistum eftir þjónustu sé mætt og svona er ástandið í þessu kjördæmi. Þetta er auðvitað stórt og mikið verkefni sem ólíklegt er að fáist unnið í einu vetfangi en það þarf að vinnast og nauðsynlegt er að gera um það áætlun sem unnið verði eftir á markvissan hátt. Ég ætla að ástandið sé ekki miklu skárra í Reykjavík en ég hef ekki staðreyndir að vitna til um það efni hér og nú. En ég spyr bara: Hvernig ætla menn að lagfæra þetta ástand og bæta aðstæður fatlaðra eins og þeir og aðstandendur þeirra eiga rétt á ef ekki núna í einhverju mesta góðæri síðustu áratuga?

Annað þessu skylt verður að sjálfsögðu að taka á og þar á ég við kjör og aðstæður öryrkja sem þeir hafa sjálfir vakið svo rækilega athygli á að undanförnu og hv. 5. þm. Vesturl. ræddi nokkuð ítarlega um í ræðu sinni. Öryrkjar hafa lagt á borðið beinharðar tölur þar sem fram kemur að óvinnufært fólk, sem þar að auki þarf að glíma með ýmsan kostnað sem heilbrigðir þurfa ekki, er gert öðrum háð um lífsafkomu og svipt þeirri sjálfsvirðingu að geta séð fyrir sér sjálft. Fjölmörgu fólki eru skammtaðar úr hnefa upphæðir allt niður í rúmar 15 þús. kr. á mánuði. Það sker hreinlega í hjartað að heyra reynslusögur þessa fólks sem finnst sér vera hafnað í þessu allsnægtaþjóðfélagi fyrir sakir sem það á enga sök á sjálft. Öryrkjar hafa að undanförnu barist hetjulega fyrir því að ná eyrum ráðamanna en þeim virðist veitast auðveldara að skilja þörf fyrir vegi og brýr og byggingar nýrra sendiráða en þörf öryrkja fyrir sómasamlega afkomu og sjálfsvirðingu.

Eitthvað mun þó ætlunin að bregðast við þessari umræðu samkvæmt málalista ríkisstjórnarinnar en þess sér þó ekki stað í því frv. sem við ræðum nú. En hæstv. fjmrh. kemur væntanlega inn á þessi mál í ræðu sinni á eftir og ég óska eindregið eftir að hann geri það.

Slagurinn um heilbrigðismálin hefur verið fastur liður á dagskrá á undanförnum árum og það var því með nokkrum kvíða að ég tók til við að kynna mér þann kafla. Reyndar hafði það komið fram í kynningu ráðuneytisins á frv. að um talsverða hækkun væri að ræða á útgjöldum til heilbrigðismála og sem snöggvast var freistandi að halda að nú væri loksins tekið myndarlega á viðvarandi rekstrarvanda allra heilbrigðisstofnana í landinu. En það var náttúrlega of gott til að vera satt og ljóst eftir fyrstu yfirferð að enn er við mikinn vanda að etja þótt vona verði að sá vandi sé ekki jafnhrikalegur og oftast áður.

Framlögin eru vissulega aukin en þegar betur er að gáð eru þau að stærstum hluta vegna launahækkana og verðlagsbóta en ekki vegna þess að tekið hafi verið á langvarandi rekstrarvanda stofnana. Þetta á kannski fyrst og fremst við um stóru sjúkrahúsin í Reykjavík en mér er kunnugt um mikinn vanda víðar, t.d. hjá heilbrigðisstofnuninni á Suðurnesjum. Hins vegar er í rauninni ákaflega erfitt að átta sig á stöðunni við lestur frv. því allt er þetta enn í athugun og verið að vinna að gerð þjónustusamninga og þar fram eftir götum eins og við höfum heyrt á hverju einasta ári allt þetta kjörtímabil. Það er sannarlega með ólíkindum að nú á lokaári kjörtímabilsins skuli enn ekki vera búið að ganga skilmerkilega frá þessum málum sem svo mjög hafa verið í brennidepli til margra ára. Um allt þetta verður þó auðveldara að ræða eftir umfjöllun í fjárln. og auðvitað verður að vona að nokkuð hafi úr ræst eftir allt pottastandið og vinnu stýrinefnda og fagnefnda og hvað allar þessar nefndir hafa fengið að heita. Eitt er þó alveg ljóst að 147 milljónirnar, sem merktar eru til viðhalds á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, duga skammt til að lagfæra ósköpin sem þar er við að glíma og við tókumst nokkuð á um á síðasta ári. Byggingarnar þar eru of litlar til að rúma þá starfsemi sem þar fer fram, aðstæður á slysadeild, sem þjónar fólki af öllu landinu, eru afar erfiðar og ekki bjóðandi, húsakynni leka og þar fram eftir götum. Samkvæmt faglegri úttekt mun viðgerðarkostnaður nema a.m.k. þúsund millj. kr.

Síðan er það þjónustan úti um landið, þ.e. almenna heilsugæslan, sem er augljóslega að hrynja og ég tek undir áhyggjur og fyrirspurnir félaga minna í minni hlutanum sem þegar hafa gert þessi mál að umtalsefni og óskað eftir viðbrögðum ráðherra um þau efni.

Sama má kannski segja um aukin framlög til menntunar og rannsókna eins og um fullyrðingarnar um aukin framlög til heilbrigðismálanna. Aukin framlög til menntunar og rannsókna hafa verið talin þessu fjárlagafrv. til tekna og er ekki að efa að margir hafa fagnað slíku og átt von á miklu en þegar að er gáð rýrnar verðgildið heldur betur. Hækkuð framlög eru einfaldlega fyrst og fremst til að mæta auknum kostnaði vegna orðinna launa- og verðlagshækkana og vegna fjölgunar nemenda. Langstærstur hluti aukinna framlaga virðist vera af þessum sökum. Rétt er að geta þess að allmyndarleg upphæð er þó ætluð til að fylgja eftir nýrri skólastefnu en um frekari útfærslu get ég ekki rætt hér eftir tiltölulega snögga yfirferð yfir þetta viðamikla frv. Um aukin framlög til rannsóknarstarfa er enn hið sama að segja, 580 milljónirnar sem hæstv. forsrh. sá ástæðu til að guma af í stefnuræðu sinni, og hæstv. fjmrh. í kynningu sinni, en skýrði reyndar ekki nánar í ræðu sinni áðan, er því miður eins og fugl í skógi því að hún á að dreifast á heil fimm ár. Hún á að dreifast á fimm ár og dregur nú heldur úr ljómanum þeim.

Að öðru leyti ætla ég ekki, herra forseti, að fara yfir einstaka liði í frv. Það bíður síns tíma þegar við höfum fengið skýringar og staðreyndir inn á borð okkar í fjárln. Auðvitað er það svo að gagnrýnin beinist oft mest að of lágum fjárveitingum til einstakra verkefna og vissulega er um allnokkrar upphæðir að ræða á þeim liðum sem ég hef gert að umtalsefni og þá er yfirleitt spurt með nokkrum þjósti hvar eigi að taka peningana. Við í minni hlutanum svöruðum fyrir okkar leyti við afgreiðslu fjárlaga þessa árs þar sem við bentum á leiðir og þær ábendingar eru í fullu gildi enn. Ég vil aðeins sérstaklega geta þess að ég tel einboðið að komið sé að fyrirtækjunum í landinu að endurgjalda þann skilning og velvilja sem stjórnvöld hafa sýnt þeim á undanförnum árum.

Meginmálið er það að menn tala seint og snemma um dæmafátt góðæri og hæstv. fjmrh. er í sólskinsskapi og himinsæll með sitt fyrsta fjárlagafrv. en það er holur hljómur í allri sjálfumgleðinni þegar menn treysta sér ekki til meiri átaka við jöfnun lífsskilyrða.