Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 13:42:53 (48)

1998-10-05 13:42:53# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær gagnmerku upplýsingar að fjárlagafrv. sé frv., það er mjög mikilvægt að enginn vafi leiki á því. En í öðru lagi vegna orða hæstv. ráðherra um viðskiptahallann og að þar horfi til betri tíðar jafnvel strax á næsta ári og vissulega sé ég það í þessum töflum, vil ég gera fyrir mitt leyti mjög skýran fyrirvara á um það hér að ég skrifa ekki upp á þá bjartsýnisspá sem er í raun og veru grundvöllur þjóðhagsspárinnar fyrir næsta ár. Ég geri t.d. alvarlegar athugasemdir við það mat Þjóðhagsstofnunar að sjávarvöruframleiðslan muni aukast að bæði magni og verðmæti með þeim hætti sem er grundvöllur þjóðhagsspárinnar. Það er þrátt fyrir allt enn þá þannig að sjávarvöruframleiðslan skiptir hér mjög miklu máli. Það fer svolítill hrollur um mig, herra forseti, þegar menn tyggja allt þetta sólskinstal og bjartsýnis- og góðærishjal, hver upp eftir öðrum hér. Ég minnist þess að það eru kosningar á næsta ári og ég minnist þess líka að menn hafa stundum gert þessi mistök áður í sögunni, að í aðdraganda kosninga þá lítur þetta allt saman óskaplega vel út.

Ég man eftir góðærinu mikla sem kosið var í vorið 1987. En hvernig var ástandið rúmu ári síðar? Allt í kaldakoli. Ég verð að segja, herra forseti, alveg eins og er að ég er kannski ekki mjög dómbær á eða spakur maður hvað varðar líklega þróun í heimsmarkaðsviðskiptum með ál eða annað því um líkt sem þarna kemur inn í þjóðhagsspána og ekki síst þá horfurnar á næsta ári en ég set fyrirvara við að skynsamlegt sé að reikna með því að enn eitt árið í röð haldist það afbrigðilega góðæri, t.d. til sjávarins sem við höfum búið við. Það einkennist af einhverjum mestu aflabrögðum Íslandssögunnar og verður í sögulegu hámarki á mikilvægustu nytjategundunum. Það eru t.d. verulegar blikur á lofti hvað varðar verð á mjölmörkuðum núna og afurðum úr uppsjávarfiskum. Ég bið menn að vera niðri á jörðinni og forðast að trúa því að þetta gífurlega góðæri á næsta ári sé í hendi en það er undirstaða þeirrar spár að viðskiptahallinn, sem er auðvitað hrikalegur núna, fari lækkandi.