Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:05:06 (79)

1998-10-05 17:05:06# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var býsna merkileg ræða hjá sérfræðingi Sjálfstfl. í fjárln. Hann varði ræðutíma sínum til þess að ráðast að borgarstjóranum í Reykjavík með allsérstökum hætti svo ekki sé fastar að orði kveðið. Allt byggir hann það á bréfi sem borgarstjóri leyfði sér að senda fjárln. Alþingis þar sem hún með vísan til reynslunnar taldi skynsamlegra að senda greinargerð í stað þess að hitta hv. nefnd að máli augliti til auglitis. Ég held að kannski væri ástæða til þess að ræða frekar hvort það væri eitthvað í verklagi og vinnubrögðum nefndarinnar sem við þyrftum að hugsa um.

Ég rifja það upp sem bæjarstjóri í allstóru sveitarfélagi í nágrenninu um nokkurra ára skeið að mér og kollegum mínum þótti það stundum hafa afskaplega lítið upp á sig að eiga að öðru leyti ágætt spjall og tal við fjárln. á hverjum tíma. Ég held að það sé ekkert þeim einstaklingum um að kenna sem þar sitja en vissulega svaraði hv. þm. Árni Johnsen sér sjálfur þegar hann benti á það að hundruðum saman kæmu einstaklingar á fund nefndarinnar með stór og lítil erindi og allt þar á milli og eðli máls samkvæmt ættu þeir lítinn kost á að sinna þeim öllum og hafa heildaryfirsýn yfir þau öll. Víst er það líka rétt að komið hefur til álita oftar en einu sinni hvort það sé hægt og gerlegt í þessu margbreytilega þjóðfélagi sem við lifum að fjárln. komi og vinni þannig að verkum.

Allt þetta tal hv. þm. og þessar ósmekklegu árásir á borgarstjóra sem leyfir sér að senda bréf og lýsa viðhorfum sínum til þessa samskiptaforms er með slíkum eindæmum að engu tali tekur og ég undrast það að þetta skuli standa efst í huga hv. þm. þegar menn ræða fjárlög íslenska ríkisins.