Fjárlög 1999

Mánudaginn 05. október 1998, kl. 17:08:55 (81)

1998-10-05 17:08:55# 123. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1999# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 123. lþ.

[17:08]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Því var kastað fram af einum hv. þm. að þetta væri sennilega ekki í fyrsta skiptið sem borgarstjórinn í Reykjavík hefði sýnt því takmarkaðan áhuga að eiga orðastað við fjárln. Nú þekki ég það ekki vel en það er eins og mig reki minni til þess að einhvern tíma hafi það gerst áður og sá borgarstjóri hafi ekki verið í R-listanum heldur hafi hann verið í flokki hv. þm. Árna Johnsens. Ef ég man rétt stýrir hann þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. styður nú heils hugar. Allt um það.

Mér finnst satt að segja engu að síður ákaflega undarlegt að hv. þm. gerir þetta að aðalatriði málsins og ég endurtek það að auðvitað er borgarstjóranum í Reykjavík eins og hverjum öðrum sveitarstjórnarmanni það frjálst að hafa þann hátt á í samskiptum við þingið sem hann kýs og hann kýs það í þessu bréfi sínu að senda ítarlega greinargerð. Ég vænti þess að hv. fjárlaganefndarmaður Árni Johnsen eins og aðrir séu læsir og fái þar með milliliðalítið þessa greinargerð til aflestrar og geti þá áttað sig á því hvar hagsmunir borgarinnar liggja.

Ég get hins vegar ekki látið hjá líða, virðulegi forseti, af því eitthvað meira hefur farið á milli mála í þessum samskiptum fjárln., a.m.k. meiri hluta hennar, og borgaryfirvalda því að hv. þm. gerði að umtalsefni Reykjavíkurflugvöll og fór þar einfaldlega með rangt mál. Ég vakti athygli á því við gerð vegáætlunar til skemmri og lengri tíma að vandinn við Reykjavíkurflugvöll er einfaldlega sá að það vantar fjármuni og þeir fjármunir liggja í vösum stjórnarmeirihlutans í þinginu og sá stjórnarmeirihluti hefur ekki sýnt því nokkurn vilja að leggja þar nauðsynlega fjármuni til. Það var auðvitað svo áberandi sem raun bar vitni við afgreiðslu þessarar vegáætlunar og að snúa þar hlutum á hvolf og ráðast á borgaryfirvöld fyrir seinagang í þeim efnum er eins og hvert annað búmerang og hittir auðvitað þann fyrir sem því kastar.

En allur þessi málatilbúnaður, virðulegur forseti, er auðvitað með eindæmum. Ég hélt að virðulegur þingmaður og aðrir stjórnarliðar færu himnum ofar með þessum glæsilega árangri sem þeir þykjast guma af við þessa fjárlagagerð en það ber ekkert á því, það er bara pirringur og geðvonska.