Réttarfarsdómstóll

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 14:42:46 (139)

1998-10-06 14:42:46# 123. lþ. 4.2 fundur 4. mál: #A réttarfarsdómstóll# frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Löngum var það svo að lögfræðingar voru fyrirferðarmiklir í þingsölum. Þeim hefur nú fækkað mjög og þykir mörgum gott, öðrum lakara. Hér hafa verið fjórir lögfræðingar í salnum lengst af, jafnvel í meiri hluta framan af umræðunni þó að það hafi hallast aðeins á okkur síðar vegna þess að hér er til umræðu mjög áhugavert, lögfræðilegt efni. Ég tel að þetta mál sé þarft mál. Ég er ekki í vafa um að það er hárrétt hjá hæstv. dómsmrh. að eins og málum er nú skipað um réttarfar í landinu --- og hann á ekki síst þökk í þeim efnum fyrir stórfelldar breytingar til batnaðar á undanförnum árum. Eins og málum er nú skipað er ekki hætta á því að atvik kæmu upp eins og þau sem beint eða óbeint eru tilefni flutnings frv. til laga af hálfu hv. flm. Svo hafa mál sem betur fer breyst til batnaðar.

Engu að síður tel ég eftir niðurstöðu Hæstaréttar að skynsamlegt og eðlilegt sé að Alþingi velti þessu máli fyrir sér og hvort ekki sé til öryggis að hafa varnagla af því tagi sem gerir fært og kleift að taka upp mál sem kunna að hafa farið úrskeiðis á rannsóknar-, meðferðar- og dómstigum þess.

Hæstv. dómsmrh. nefndi sérstaklega að ekki væri endilega skynsamlegt að fjölga sérdómstólum. Stefnan hefði gengið í hina áttina, að fækka þeim. Ég hygg að það hafi verið út af fyrir sig rétt stefna að fækka sérdómstólum en ég tel að þó að sú stefna sé í meginatriðum rétt, þá þurfi hún ekki að þýða það að í einstökum tilvikum geti slíkir dómstólar ekki átt við. Það eigi menn að skoða í hverju tilviki. Á hinn bóginn gætu menn líka skoðað við meðferð þessa frv. hvort fara ætti þá leið fremur að auka heimildir Hæstaréttar til endurupptöku mála vegna þess að þó að það sé hárrétt sem hv. flm. og hæstv. dómsmrh. sögðu að við værum ekki að taka hér niðurstöðu Hæstaréttar, til að mynda upptöku í Geirfinnsmáli til meðferðar sem áfrýjunaraðili, þá hljótum við að skoða þær forsendur sem Hæstiréttur gaf sér og þær forsendur byggðu á því að Hæstiréttur hefði ekki efnislegar heimildir eins og það mál væri vaxið til að taka það upp á nýjan leik.

Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Reyndar tek ég undir með hæstv. dómsmrh. að slíkir hlutir gætu ekki gerst í dag eins og þarna gerðust. En þeir gerðust. Ég held að þó að það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn.

Ég hef líka af persónulegum áhuga fylgst með málum sem varðað hafa endurupptöku mála annars staðar, til að mynda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Mál sem þar eru tekin upp hafa verið miklu betur unnin og með miklu færri annmarka en Geirfinnsmálið var hjá okkur þannig að það munar miklu. Ég er þeirrar skoðunar að sú vantrú sem lýsir sér í skoðanakönnunum á dómskerfinu eigi m.a. rót í þessu máli. Það hefur þau áhrif á sálarlíf okkar Íslendinga að menn telja sig ekki geta treyst dómskerfinu. Ég er ekki þeirrar skoðunar að menn almennt geti ekki treyst dómskerfinu. Ég tel að eins og það er nú komið sé það í góðu standi til þess að fara með þessi viðkvæmu mál borganna. En þarna mistókst því og ég held að við hefðum haft gott af því að þetta mál væri tekið upp og skoðað og af því lært til framtíðar.

Ég vil því gjarnan að þetta mál fái góða meðferð, menn skoði hvort það eigi að fá framgang nákvæmlega í þessu fari eða hvort það eigi að gera eins og hæstv. dómsmrh. ýjar kannski að að veita frekari heimildir innan núverandi dómstólaskipunar til þess að svona mál mætti upp taka. Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.

Ég fagna þessu frumkvæði hv. flm. og vænti þess að þingið taki þetta til mjög málefnalegrar meðferðar í þeirri nefnd sem það fær til sinna kasta.