Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 13:46:20 (160)

1998-10-07 13:46:20# 123. lþ. 5.8 fundur 42. mál: #A sveitarstjórnarlög# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þá hefur fyrsta stjórnarfrv. komið á dagskrá þingsins fyrir utan fyrsta málið sem er fjárlög ríkisins. Og hvaða mál er það? Hvaða stjórnarfrv. er það sem við fáum til umræðu nú í upphafi þingfundar á miðvikudegi? Jú, það er átakasamasta frv. síðasta vetrar. Það er sjálft sveitarstjórnarfrv. sem var þess eðlis að það klauf þjóðina í fylkingar og var lögð svo gífurleg pressa á af hálfu félmrh. að fá afgreitt út úr félmn. af hálfu Alþingis að það hálfa hefði verið nóg. Þegar Alþingi var búið að skila sínum þætti var ekki haldið betur á málum í félmrn. en svo að gildistakan er auglýst of seint og mikið álitamál uppi hvort lögin hafi tekið gildi, svo mikið álitamál að sett eru bráðabirgðalög á miðju sumri til að ákveða að sveitarstjórnarfrv. hafi orðið að lögum.

Þetta er málið, herra forseti. Stjórnarfrv. sem við ræðum er fyrsta mál sem komið er fram frá hv. ríkisstjórn. Ég ætla að leyfa mér að segja það, herra forseti, þetta er alveg ótrúlega neyðarlegt fyrir félmrh., alveg ótrúlega neyðarlegt mál.

Mikil vinna var lögð í frv. í fyrra í félmn. Það var ofboðslega mikil umræða í þinginu, til þings og ráðherra bárust erindi frá hópum um allt land þar sem var óskað eftir því að þessu frv. yrði frestað til haustsins, a.m.k. ákveðnum þáttum þess, þannig að hugsanlega mætti ná sátt um mál sem svo mikilvægt var að mati þjóðarinnar allrar. Nei, þetta frv. var barið áfram, það var afgreitt út úr félmn. í ósætti, þótti ótímabært, og því var haldið í langri umræðu og barið í gegnum þingið.

Herra forseti. Ég tek undir þær spurningar sem formaður félmn. hefur borið hér fram, sérstaklega hver hafi verið niðurstaða ráðuneytisins sjálfs. Það kom alls ekki fram í umfjöllun um málið í sumar heldur fyrst og fremst að ráðuneytið væri að verða við ábendingum og til öryggis. Ég tek undir þessa spurningu: Hver er niðurstaða ráðuneytisins sjálfs? Nú kemur þetta mál hérna inn í þingið, það mál sem við óskuðum svo mjög eftir að yrði frestað til haustsins í vor. Ekki mun verða efnisleg umfjöllun um það aftur, eðlilega ekki, þessu máli verður vísað til félmn., að hún staðfesti gildistökuna sem sett var með bráðabirgðalögum. Og, herra forseti, ég hlýt að minna á að þingflokkur jafnaðarmanna sat hjá um þetta frv., þrátt fyrir að í frv., sveitarstjórnarlögunum sem slíkum, væru svo mörg ákvæði sem mikilvægt er að kveðið sé á um í lögum varðandi sveitarstjórnarstigið. En hjáseta okkar byggðist á þeim þætti sem ég hef þegar nefnt, þessu átakamáli um hálendið og stjórnun þess sem ráðherrann léði ekki máls á að skoða nánar. Ég á von á því að við munum ekki hafa mikil afskipti af því þegar þetta mál kemur aftur til afgreiðslu úr þinginu og gildistaka þess verður staðfest.

En ég tek undir spurningu formanns félmn. og vek athygli þingheims á því að stundum væri betra að fara sér örlítið hægar, vanda til verksins og horfa fram á veg og sjá að það er ekki bara nóg að berja mál í gegnum þingið og út úr þessu húsi. Það þarf líka að vera sómi að því hvernig haldið er á málum þegar komið er heim í ráðuneyti.