Jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn

Miðvikudaginn 07. október 1998, kl. 14:36:46 (170)

1998-10-07 14:36:46# 123. lþ. 5.9 fundur 23. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir æðstu ráðamenn# þál., Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka fyrir þá góðu umræðu sem hefur orðið um þessa tillögu. Allir ræðumenn hafa tekið vel í efni hennar enda held ég að það sé nokkuð ljóst eins og kom fram í umsögnum að hérna er um mjög þarft mál að ræða.

Mig langar aðeins að koma fyrst nánar inn á ræður einstakra þingmanna. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason lýsti yfir miklum áhuga á málinu en þekkir greinilega ekki frekar en margir aðrir þau flóknu hugtök sem eru notuð. Þá datt mér í hug að það hefði alveg mátt bæta þingmönnum á listann yfir æðstu ráðamenn sem þarna eru taldir upp í tillögunni og kannski ekki vanþörf á. En varðandi orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur vil ég nefna að gott er að heyra að hæstv. heilbrrh. er að ráða eða fá fleiri konur í nefndir á vegum ráðuneytis síns og við skulum vona að það sé markvisst vegna þess að hún sé með jafnréttissjónarmið í huga en í þessum málaflokki, heilbrigðismálunum eru náttúrlega mjög margar konur sem eru mjög sterkar á því sviði. Við skulum vona að þetta verði í fleiri ráðuneytum sem framsóknarráðherrar ráða yfir. Einnig nefndi hv. þm. tillögu sína um að auka hlut kynjanna í stjórnmálum sem er vissulega mjög mikilvægt og við erum sammála um. Ég vil þó benda á að þótt konur séu í stjórnmálum þurfa þær ekkert endilega að hafa áhuga á jafnréttismálum. Við vitum það báðar tvær að það þarf alls ekki að fara saman þannig að þegar ég tala um að það sé mest fagfólk í jafnréttismálum sem vinni þessa jafnréttisvinnu er ég að ræða um það. Vissulega er það gott mál að konum fjölgar í stjórnmálum en það þarf alls ekki að þýða að þær séu yfir höfuð áhugasamar um jafnréttismál. Þess vegna gerum við kvennalistakonur oft greinarmun á því að tala um konur í stjórnmálum og svo aftur feminista eða kvenfrelsiskonur, konur eða karla sem hafa áhuga á jafnréttismálum kynjanna.

Það er líka mjög gott að heyra að Framsfl. hyggst taka þingmenn sína og ráðherra á námskeið í þessum málum og flokkurinn er með jafnréttisáætlun. Það er vissulega mjög mikilvægt og ég vil nefna það hér vegna nýframkominnar skýrslu um breytingu á kjördæmaskipaninni að þar þótti ekki ráðlegt að mæla með lögbundnum kynjakvótum en hins vegar mjög greinilegt að valdið er hjá flokkunum, t.d. á Norðurlöndum. Bæði í Noregi og Svíþjóð hafa flokkar komið sér saman um að hafa kynjakvóta eða fléttulista eða einhverjar slíkar aðgerðir. Það hefur haft mjög mikil áhrif á framgang kvenna í stjórnmálum á Norðurlöndum þannig að ég lít svo á að við þingkonur sem erum áhugasamar um jafnréttismál verðum að beina þessum málum að okkar flokkum og reyna að fá slíkar reglur samþykktar til þess að tryggja framgang kvenna innan stjórnmálaflokkanna. Ég held að ég geti búist við því að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir muni standa að því innan síns flokks og sama á við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem talaði áðan um ýmislegt sem tengist þessum málum og eru í greinargerð með framkvæmdaáætlunni. Þar er vissulega mikil áhersla á að það þurfi fræðslu og það er alveg rétt að eftir höfðinu dansa limirnir og auðvitað verður að ná til æðstu yfirmanna því að annars gerist ekki neitt.

Ég vil aðeins ítreka það, herra forseti, hvers vegna á að fræða biskup, ráðherra, dómara, háskólarektora og ráðuneytisstjóra um jafnrétti kynjanna, hvers vegna? Jú, við skulum muna það að þó að konur hafi undanfarin 20 ár menntað sig í sama mæli og karlar, þá sitja þær enn þá uppi með þá staðreynd að þær fá 50--60% af launum karla og þær fá ekki sama framgang og karlar. Þær fá ekki sömu sporslur eða greiðslur fyrir ýmis önnur verk en laun og ég held að konur láti ekki bjóða sér þetta lengur. Á meðan konur eru ekki sjálfar í toppstjórnunarstöðum verður að ætlast til þess að stjórnendur hafi skilning á aðstæðum þeirra. Við höfum heyrt dæmi úr mörgum fyrirtækjum, t.d. lögreglunni þar sem fyrirkomulagið er þannig að framgangur kvenna er svo til útilokaður.

Herra forseti. Að lokum þakka ég fyrir þessa góðu umræðu og vona að tillögunni verði vel tekið í hv. félmn. og hún verði samþykkt á þessu þingi.